Síminn hefur nýverið markað sér nýja stefnu sem kjarnast um að viðhalda traustum og heilbrigðum grunnrekstri á sama tíma og unnið er að vexti og þróun félagsins. Ljóst er að til þess að ná þeim vexti sem stefnt er að mun bæði þurfa innri og ytri vöxt. Þetta segir María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans í viðtali við ViðskiptaMoggann þar sem hún ræðir um rekstur og framtíðaráform fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta sterkan mannauð og tæknilega innviði Símans til vaxtar og fjölgunar tekjustrauma.
„Við höfum gefið það út að við viljum vaxa. Síminn hefur í gegnum tíðina náð miklum árangri á sviði ytri vaxtar og má þar til að mynda nefna vel heppnaða yfirtöku á Skjánum á sínum tíma sem lagði grunninn að þeirri frábæru sjónvarpsþjónustu sem við rekum í dag. Það sem skiptir mestu máli við kaup á fyrirtækjum er það sem gerist eftir að kaupin ganga í gegn. Þá kemur að því að samþætta ólíkan rekstur og menningu til þess að ná sem mestu virði og samlegð út úr sameinuðu félagi og þar hafa styrkleikar Símans sýnt sig,“ segir María.
Á síðasta ári tók Síminn örugg skref í átt að ytri vexti með kaupum á tveimur fyrirtækjum, Billboard og Noona. Billboard, sem er umhverfismiðlafyrirtæki, hefur haft jákvæð áhrif á afkomu og sjóðstreymi Símans og breikkað vöruframboð félagsins á auglýsingamarkaði. Fjártæknifyrirtækið Noona Iceland er smærra í sniðum en fellur vel að áherslum Símans í fjártækni og mikið virði er falið í tengingu við þá 75.000 notendur sem nota Noona til að bóka fjölbreytta þjónustu í hverjum mánuði. Með þessum kaupum hefur Síminn styrkt stöðu sína bæði á sviði auglýsinga og fjártækni.
Á uppgjörsfundi Símans sagði María að Síminn myndi horfa til ytri vaxtar á næstunni. Síminn er ekki eina fjarskiptafyrirtækið sem hefur nefnt að það stefni á að horfa til ytri vaxtar. Margrét Tryggvadóttir forstjóri Nova sagði á uppgjörsfundi Nova í síðustu viku að fyrirtækið stefndi að ytri vexti en sagði jafnframt að hún gæti ekki tjáð sig nánar um þau áform að svo stöddu. Þá hefur fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið Sýn verið í „umbreytingarferli“ sem hefur staðið yfir í um rúmt ár.
Spurð hvaða stefnu Síminn ætli að taka varðandi ytri vöxt; það er að segja hvort það þýði stærri samruna eða yfirtökur á smærri fyrirtækjum, segir María Björk að það verði að koma í ljós.
„Við útilokum ekkert í þeim efnum. Hver svo sem skrefin verða verður markmiðið alltaf að það verði samhljómur með stefnu Símans og við séum sannfærð um að umrædd kaup eða samruni skili ábata og virði fyrir hluthafa,“ segir María Björk.
María Björk segir að eitt af lykilmarkmiðum Símans sé að nýta sterka innviði félagsins betur, bæði á einstaklinga- og fyrirtækjamarkaði. Auður félagsins felist ekki síst í einu verðmætasta vörumerki landsins, og stórum grunni tryggra viðskiptavina bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði. María Björk segir að Síminn sjái mörg tækifæri til innri vaxtar á fyrirtækjamarkaði, meðal annars með því að hanna og selja ýmsar sérlausnir sem virðisaukandi þjónustu ofan á áreiðanleg fjarskipti.
„Við erum svo heppin að eiga dótturfélagið Radíómiðun, sem hefur um árabil verið leiðandi í því að þróa og þjónusta sjávarútveginn með ýmsum sérlausnum sem byggjast á hlutanetinu (e. Internet of Things). Þá hefur Radíómiðun á síðustu árum þróað sig út í þjónustu við aðrar atvinnugreinar og hefur meðal annars unnið með fyrirtækjum í fiskeldi og áliðnaði. Við sjáum rík tækifæri í að þróa slíkar lausnir, enda eru þetta vörur sem skila miklu virði fyrir viðskiptavini og hjálpa okkur við að aðgreina fjarskiptaþjónustu okkar á fyrirtækjamarkaði,“ segir hún. Þjónustan miðar að því að einfalda fyrirtækjum reksturinn með snjöllum lausnum.
„Þá höfum við í síauknum mæli orðið vör við það að fyrirtæki og stofnanir leita til okkar vegna þess að við erum eina fjarskiptafyrirtækið á landinu sem rekur farsímakerfi frá vestrænum framleiðanda. Þetta er staðreynd sem er farin að skipta meira máli nú þegar staðan í alþjóðlegum stjórnmálum er orðin eins og hún er. Það eru sérstaklega aðilar á borð við sendiráð og fyrirtæki sem reka þjóðhagslega mikilvæga innviði sem hafa haft orð á þessu við okkur.“
Ice Guys trekkti að fleiri áskriftir
Mikil breyting varð á skipuriti Símans í fyrra þegar sviðið „Sjálfbærni og menning“ var lagt niður og tekjusviðum fjölgað.
„Við vildum færa aukinn fókus á viðskiptavininn,“ útskýrir María Björk. Hún leggur þó áherslu á að mannauðsmál og sjálfbærni hafi fengið nýjan sess innan skipuritsins og séu í góðum farvegi. Með því að samþætta þessa málaflokka við önnur svið hefur Síminn unnið að því að sjálfbærni verði fléttuð inn í alla þætti starfseminnar en mannauðsmálin heyra nú beint undir forstjóra.
Stafræn umbreyting er annar þáttur sem Síminn leggur áherslu á. Fyrirtækið hefur unnið að því að nútímavæða stafrænan arkitektúr félagsins til þess að vera fljótari að bregðast við breytingum og koma nýjum vörum á markað. „Við erum með mjög sterka tæknilega innviði og erum að nota mörg fremstu viðskiptakerfi í heiminum, en við höfum staðið á gömlum grunni, eins og algengt er í rótgrónum fyrirtækjum. Það sem við erum að gera núna er að nútímavæða það hvernig við geymum og flokkum gögnin okkar og hvernig kerfin okkar tala saman. Það mun gera okkur auðveldara um vik að samþætta mismunandi vörur og þjónustur, enda viljum við að upplifun viðskiptavina sé að þeir verði hluti af vistkerfi Símans þar sem allar þjónusturnar þeirra tengjast saman á saumlausan hátt,“ segir María Björk.
Spurð út í þá hörðu samkeppni sem er við lýði á íslenska fjarskiptamarkaðnum þar sem viðskiptavinir eru lokkaðir til nýrra fyrirtækja með gylliboðum og frímánuðum segir María Björk að Síminn hafi tekið þá ákvörðun á síðasta ári að breyta sinni nálgun og draga úr inngöngutilboðum.
„Í grunninn er það þannig að ef þú þarft að gefa vöruna þína til að fá til þín nýja viðskiptavini þá ertu að senda skilaboð um að varan þín sé einfaldlega ekki nógu góð. Við höfum tekið meðvitaða ákvörðun um að breyta þessari nálgun og í stað slíkra kostnaðarsamra aðgerða til að fjölga viðskiptavinum ætlum við að nýta fjármunina til þess að bæta upplifun núverandi viðskiptavina og draga úr líkum á brottfalli. Að okkar mati gengisfellir þú vöruna þína með því að gefa hana, auk þess sem þú sækir á markhóp sem er líklegri til þess að stoppa stutt við,“ segir María Björk.
Fyrirtækið hefur notið árangurs af fjárfestingum í innlendri dagskrárgerð. Sjónvarpsþjónustan hefur notið góðs af innlendu framleiðslunni og sjónvarpsseríur á borð við „Ice Guys“ hafa haft jákvæð áhrif á áskriftir og auglýsingatekjur. María Björk lofar enn meira úrvali á þessu ári og stefnir félagið að því að frumsýna fimm nýjar innlendar þáttaraðir, enda sé íslenskt efni mikilvægt til þess að halda í og laða að viðskiptavini. Á sama tíma er Síminn að skoða möguleika á samstarfi við aðrar efnisveitur til að fjölga valkostum fyrir viðskiptavini.
Enski boltinn er orðinn of dýr
Á síðasta ári missti Sjónvarp Símans sýningarréttinn að enska boltanum yfir til Sýnar frá og með næsta tímabili. María Björk segir að þrátt fyrir vinsældir enska boltans telji hún að verðið á sýningarréttinum sé orðið þess eðlis að varan standi ekki undir sér.
„Að okkar mati eru jákvæðu rekstrarlegu áhrifin af enska boltanum ofmetin. Enski boltinn styður vissulega við fjarskiptasölu, en ekki nógu mikið til að svara kostnaði að okkar mati. Til að mynda fjölgaði internettengingum hjá Símanum einungis um 1.200 fyrsta árið eftir að við fengum réttinn árið 2019. Við höfum skoðað gögnin yfir þessi sex ár sem við höfum haft sýningarréttinn og metum það sem svo að án hans séu nettó áhrif á rekstrarhagnað og sjóðstreymi jákvæð. Verðið á sýningarréttinum er einfaldlega orðið það hátt,“ segir María Björk.
María Björk segir að efnahagsreikningur Símans sé sterkur og fyrirtækið hefur fjármagnað ytri vöxt með lántökum.
„Við erum ekki skuldsett miðað við umfang rekstrarins og höfum notið góðra kjara bæði hjá bönkum og á markaðsfjármögnun,“ bætir hún við.
María Björk segir að fyrirtækið muni halda áfram að leita að tækifærum til vaxtar, bæði með nýsköpun og mögulegum kaupum á öðrum fyrirtækjum. Hún lýsir því að fyrirtækið hafi lagt grunninn að frekari vexti bæði með innri þróun og með því að nýta tækifæri til ytri vaxtar.
„Við höfum staðið fyrir stöðugri nýsköpun í 119 ár og það er alveg ljóst að við ætlum að halda áfram að vera leiðandi í fjarskiptum og stafrænum lausnum á Íslandi,“ segir María Björk að lokum.