Samgöngur Flugvél af gerðinni Bombardier Dash 200 á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun. Tegund þessi er nú á útleið úr flota Icelandair.
Samgöngur Flugvél af gerðinni Bombardier Dash 200 á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun. Tegund þessi er nú á útleið úr flota Icelandair. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef ekki áhyggjur af því að áætlunarflug til Ísafjarðar leggist af. Stóra verkefnið núna er að eyða þeirri óvissu sem upp er komin og sem betur fer höfum við nokkurn tíma til stefnu,“ segir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ég hef ekki áhyggjur af því að áætlunarflug til Ísafjarðar leggist af. Stóra verkefnið núna er að eyða þeirri óvissu sem upp er komin og sem betur fer höfum við nokkurn tíma til stefnu,“ segir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Þar vestra hefur mikil umræða skapast um þá ákvörðun Icelandair sem kynnt var í fyrradag, að félagið hyggist hætta flugi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar haustið 2026; það er eftir um 18 mánuði héðan í frá. Aðrir flugrekendur skoða nú stöðuna og hvort Ísafjörður geti hentað sinni starfsemi.

Ekki gæfulegar fréttir fyrir þjónustustig

Sú fyrirætlan Icelandair sem liggur fyrir tekur mið af breyttum aðstæðum. Í flug til Ísafjarðar hefur félagið notað vélar af gerðinni Bombardier Dash 200 sem einnig hafa nýst í flug til Ilulissat og Nuuk á Grænlandi. Þar í vestri verða lengri flugbrautir teknar í notkun á næsta ári svo að þangað verður hægt að fljúga á stærri vélum en hingað til. Með því verða Dash 200-vélarnar, sem taka 37 farþega, ekki lengur samkeppnishæfar í rekstri og fara því úr flota Icelandair.

Flugvöllurinn á Ísafirði er undir fjallshlíðinni austanvert í Skutulsfirði; andspænis kaupstaðnum. Aðflug á völlinn er þröngt og við flestar kringumstæður þarf að taka beygju inn undir fjarðarbotni áður en tekin er lokastefna á flugbrautina á Skipeyri. Þarna hentaði vel að fljúga á Fokker 50 og nú á síðari árum á Dash 200.

„Ísafjörður einn mun ekki standa undir rekstri Dash 200. Aðrar vélar sem við erum með í innanlandsfluginu komast ekki inn á Ísafjörð,“ sagði Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair í samtali við mbl.is.

Forystufólk Vestfirðinga, fulltrúar Ísafjarðarbæjar og fleiri sveitarfélaga, mun nú síðar í vikunni ræða stöðuna í flugmálunum við samgönguráðherra, fulltrúa Isavia og stjórnendur Icelandair. Einnig þingmenn Norðvesturkjördæmis en þeir hafa nokkrir tjáð sig um málið á Facebook. „Þetta eru ótrúlegar fréttir og ekki gæfulegar fyrir þjónustustig á norðanverðum Vestfjörðum og færir okkur langt aftur á síðustu öld í þjónustu,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, á Facebook.

Almenningssamgöngur

„Þetta eru einu almenningssamgöngurnar til svæðisins og það skiptir samfélagið öllu máli að þessi þjónusta sé tryggð. Nú þarf að leita að lausnum,“ sagði Arna Lára Jónsdóttir þingmaður Samfylkingar á sama vettvangi.

„Við eigum mikið undir í fluginu; atvinnulíf, ferðaþjónusta og ýmis þjónusta sem íbúar þurfa að sækja byggist á því að flugsamgöngur séu í lagi eins og margir aðrir þættir líka. Raunar tel ég að heilmikil tækifæri séu í Vestfjarðaflugi, samanber að á síðasta ári flutti Icelandair alls um 27 þúsund manns milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Þá er fraktin ótalin. Þá er atvinnulíf hér í mikilli sókn og sífellt fleiri á ferðinni,“ sagði Gylfi Ólafsson enn fremur.

Í máli þeirra sem Morgunblaðið ræddi við var sá þráður skýr að nú þyrfti að leita til þeirra félaga sem fyrir eru í innanlandsflugi.

„Ísafjarðarflug er klárlega eitthvað sem við munum skoða ef aðstæður skapast. Hins vegar er þetta alveg nýtilkomið svo hér eigum við eftir að melta bæði fréttir og forsendur svo ég get í raun lítið sagt á þessu stigi,“ segir Arnar Friðriksson framkvæmdastjóri Norlandair í samtali við Morgunblaðið.

„Fólk fyrir vestan er bæði slegið og reitt yfir ákvörðun Icelandair. Flugið er mikilvæg tenging milli landshluta sem verður að haldast,“ segir Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, kennari og bæjarfulltrúi í Bolungarvík.

„Íslenska módelið er þannig að fólk úti á landi þarf að sækja margvíslega þjónustu til Reykjavíkur og slíku fylgir þá að samgöngur þurfa að vera í lagi. Þar er boltinn hjá stjórnvöldum og nú munum við Vestfirðingar herja á þingmenn okkar og fleiri. Annars er merkilegt að nýlega var háð barátta um sjúkraflugið, samanber trén í Öskjuhlíð sem tregðast var við að fella. Nú er verkefnið að halda í áætlunarflugið. Icelandair ætlar að gefa þetta frá sér og því verður að horfa til annarra flugfélaga. Vestfirðir eru í sókn en fréttum eins og nú fylgir bakslag.“

„Sú ákvörðun Icelandair að hætta Ísafjarðarflugi kemur á sérstökum tíma,“ segir Elías Jónatansson í Bolungarvík sem er forstjóri Orkubús Vestfjarða.

„Einmitt nú er mikill uppgangur á Vestfjörðum; íbúum fjölgar og atvinnulífið er í sókn eftir samdráttartíma. Ef flug Icelandair á þessari leið ber sig ekki þarf að finna leiðir til þess að svo megi verða og sá vöxtur sem er nú á svæðinu ætti að skapa þann grundvöll. Flug milli Reykjavíkur og Ísafjarðar tvisvar á dag væri mjög æskilegt. Vonandi sjá önnur flugfélög tækifæri í þeirri stöðu sem nú er uppi, segir Elías og bætir við: „Það er mikilvægt að áfram verði flogið vestur. Vegasamgöngur eru enn ekki komnar í það horf að dugi þótt vissulega hafi margt áunnist.“

„Þetta er alveg út í hött. Ef við missum áætlunarflugið til Ísafjarðar fylgir því að dagleg þjónusta og afgreiðsla á flugvellinum gæti lagst af. Slíkt mun þá setja sjúkraflugið í mikla óvissu,“ segir Þorsteinn Tómasson á Ísafirði, lengi flugmaður hjá Vængjum, Erni og fleirum.

„Búið er að taka úr þjónustu alls 20 flugvelli á Vestfjörðum frá því best lét. Í núverandi stöðu læt ég mér detta í hug að Norlandair sjái tækifæri í að sinna flugi til Ísafjarðar. Svo tók ég eftir því að samgönguráðherra sagði að endurskoða þyrfti allt starfsumhverfi innanlandsflugs og sennilega er ekki vanþörf á því. Þetta er hringavitleysa. En Ísafjarðarflug verður að haldast; val um 35 mínútna flug eða að keyra til Reykjavíkur sem tekur sex klukkutíma.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson