Víðir Guðmundsson fæddist á Holtahólum 6. júní 1959. Hann lést á heimili sínu 16. febrúar 2025.

Foreldrar hans voru Guðmundur Bjarnason, f. 9. júlí 1927, d. 6. nóvember 2001, og Sigríður Ólafsdóttir, f. 13. desember 1928, d. 23. júlí 2015.

Systkini Víðis eru: Ólöf Anna, f. 15. ágúst 1952, maki hennar er Steinþór Torfason, þau eru búsett á Hala í Suðursveit, þeirra börn eru: Hilmir, Berglind og Sigríður Bára; stúlka, f. 10. júní 1954, hún lést í fæðingu; Einar Bjarni, f. 23. janúar 1956, hann lést 26. nóvember 2019; Lucia Sigríður, f. 15. ágúst 1963, hennar maki er Hannes Jóhannesson Lange, þau eru búsett í Hafnarfirði og eiga tvö börn, Sigrúnu Helgu og Guðmund Bjarna, fyrir átti Lucia soninn Elmar Má Einarsson.

Víðir kvæntist Hafdísi Ósk Kristjánsdóttur, f. 13. febrúar 1962, saman áttu þau eina dóttur, Heiðu Kristínu, f. 4. júní 1981, leiðir Hafdísar og Víðis skildi árið 1983. Sambýlismaður Heiðu er Ingi Makan Magnússon og eru þau búsett í Reykjavík og eiga þau tvo syni, Loga Makan og Jökul Makan.

Víðir hóf sambúð með Kristínu Egilsdóttur, f. 13. mars 1949, þeirra leiðir skildi en mikill og góður vinskapur hélst með þeim alla tíð.

Víðir gekk í Nesjaskóla og tók svo gagnfræðapróf í Reykholti í Borgarfirði, að því loknu fór hann heim í sveitina sína sem var honum svo kær. Hann var sveitamaður yst sem innst, hæglátur en gat verið hnyttinn í tilsvörum. Víðir tók við búi foreldra sinna árið 1988 er þau fluttu á Höfn. Hann var með eindæmum fjárglöggur og þekkti allar ærnar á búi foreldra sinna með nafni löngu fyrir fermingu, auk þess var hann alveg með á hreinu hvar þær héldu til í sumarhaga ásamt því að geta rakið ættir þeirra langt aftur.

Víðir bjó alla sína ævi í sveitinni sinni á Holtahólum og vildi hvergi annars staðar vera. Hann hafði gaman af að hitta sveitunga sína við alls kyns tilefni, einnig var hann alltaf tilbúinn að aðstoða aðra sveitunga í þeirri vinnu og störfum sem þurfti, á síðari árum gerði hann það sem hann gat eins og heilsan leyfði.

Útför Víðis fer fram í Hafnarkirkju í dag, 5. mars 2025, klukkan 13.00.

Nú hefur hann Víðir í Holtahólum kvatt sveitina sína, hann varð bráðkvaddur 16. febrúar aðeins 66 ára gamall. Aðeins eru tæp sex ár síðan Einar Bjarni bróðir hans kvaddi heiminn á Höfn aðeins 63 ára.

Núna leitar hugurinn í Hornafjörðinn til æskuáranna í mína elskuðu sveit, sem mér finnst fegurst allra staða á landinu. Útsýnið frá Holtahólum og fjallahringurinn með Fláajökul, Fláfellið, Haukafellið og Rauðaberg og Viðborðsfjall, þaðan sem faðir hans Guðmundur bóndi í Holtahólum var ættaður, og í austri Nesjafjöllin, finnst mér algjörlega einstakt á landinu.

Þegar ég kom í sveitina til ömmu og Siggu móðursystur minnar vorið 1959 hafði komið nýr strákur í heiminn 6. júní, aðeins tveimur dögum fyrir 11 ára afmælið mitt. Það breytti að sjálfsögðu aðstæðum þegar fjölgaði á heimilinu, nýr strákur og Einar Bjarni aðeins þriggja ára.

Mér er mjög minnisstætt hvað þessir strákar voru fallegir og skemmtilegir, sá litli bjartur og ljóshærður og sá eldri með ljósar krullur og spékoppa, alltaf brosleitur, en feimnislegur. Feimnin átti áreiðanlega við þá báða alla tíð. En það var nú aldrei mikil fyrirferðin í Holtahólafólkinu.

Einangrun héraðsins var sérstök. Brúin yfir Hornafjarðarfljót var ekki byggð fyrr en 1961 og í vestri var óbrúuð Jökulsá á Breiðamerkursandi til ársins 1967. Þessi einangrun skýrir kannski hvernig bændur unnu, eins og sýndi sig í mikilli samvinnu seinna þegar tekið var til við að græða upp jökulaurana í Flatey.

Það höfðu allir verk að vinna í sveitinni, heyskapurinn stóð allt heila sumarið. Allir höfðu hlutverk alla daga nema sunnudaga.

Í þessu einstaka umhverfi ólst hann Víðir Guðmundsson upp ásamt systkinum sínum. Hann vann eins og öll börn gerðu á þessum árum við búskapinn og var hörkuduglegur.

Fyrstu árin hans bjó fjölskyldan í gamla myndarlega steinhúsinu sem afi okkar Ólafur Einarsson og amma Anna Pálsdóttir byggðu af miklum myndarskap fyrir 1930. Þetta blessaða hús stendur enn, ég vildi gjarnan sjá það gert upp, því húsið var mjög fallegt. Nýtt hús var byggt upp úr 1970.

Víðir tók svo við rekstri búsins árið 1988 þegar foreldrar hans fluttu á Höfn.

Ég heimsótti hann þegar ég fór í Hornafjörðinn, mest til að fá að vappa á hlaðinu og skoða gamlar þúfur. Hann bannaði mér að fara í gamla húsið.

Víðir var vel greindur. Lucia systir hans sagði að hann hefði rétt þurft að opna bækurnar til að fá góðar einkunnir meðan aðrir voru að stauta heima. Svo lærði hann líka handavinnu og þar með að prjóna. Hún segir mér að amma okkar hefði setið með strákinn í fanginu til að geta kennt honum handbragðið, en Lucia sjálf sat þar fyrir aftan og lærði þar með að prjóna mjög ung. Ég sé þetta alveg fyrir mér.

Víðir stundaði nám í framhaldsskóla í Nesjum og fór síðan í Reykholt í Borgarfirði.

Víðir var hættur búskapnum og hafði misst heilsuna fyrir nokkrum árum. Nú er líkast til búskap ættarinnar lokið í Holtahólum.

Ég kveð Víði frænda minn og sendi innilegar samúðarkveðjur til dóttur hans og afkomenda og systra hans og þeirra fjölskyldna.

Lengri grein á www.mbl.is/andlat

Anna Ólafsdóttir.