Mikill viðsnúningur var í rekstri Iceland Seafood International á síðasta ári.
Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri Iceland Seafood, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að það hafi verið ánægjulegt að sjá þessa þróun á rekstrinum og styrkleika félagsins á þessu fyrsta heila starfsári hans sem forstjóri félagsins.
„Fram eftir árinu 2024 voru sveiflur í verði og óvissa var á markaði. Hátt verð var á laxi fram undir mitt ár en það náði síðan jafnvægi sem gerði það að verkum að hagnaður var af laxatengdri starfsemi. Á sama hátt urðu breytingar á mörkuðum fyrir hvítfisk á síðasta fjórðungi ársins, salan jókst, verð hækkaði og var afkoma fjórðungsins ein sú besta sem verið hefur hjá félaginu á þeim ársfjórðungi,“ segir Ægir Páll.
Hagnaður Iceland Seafood fyrir skatta af reglulegri starfsemi var um 1,1 milljarður króna á síðasta ári. Niðurstaðan er yfir spá félagsins.
Rekstrartekjur samstæðunnar voru um 66 milljarðar króna sem er 3% aukning frá 2023. Rekstrartekjur á fjórða ársfjórðungi 2024 námu 19,3 milljörðum króna sem er aukning um 16% frá sama ársfjórðungi 2023.
Hagnaður ársins eftir skatta og óreglulega liði nemur 414 milljónum króna, samanborið við 3 milljarða króna tap 2023. EBITDA fyrir árið 2024 er 2,6 milljarðar króna en var 1,6 milljarðar króna á árinu 2023.
Skoða þurfi samkeppnishæfni fiskvinnslna
Á uppgjörsfundinum sagði Ægir Páll að það geti verið áskorun fyrir félagið og íslenskar fiskvinnslur að keppa við ríkisstyrktar fiskvinnslur í Evrópu.
Hann sagði jafnframt að stjórnvöld ættu að huga að samkeppnishæfni íslenskra fiskvinnslna sem eru í samkeppni um hráefni og viðskiptavini við fiskvinnslur í Evrópu sem eru að stórum hluta til byggðar upp fyrir opinbera styrki.
Spurður hvaða aðgerðir hann myndi vilja sjá af hálfu stjórnvalda á því sviði segir Ægir Páll að hann hafi aldrei verið talsmaður boða og banna, höft séu ekki til góðs.
„Ég tel að taka verði þá umræðu hvort Ísland vill verða í auknum mæli hráefnisútflytjandi á heilum fiski fyrir styrktar fiskvinnslur, það þarf að greina ástandið og skoða ofan í kjölinn samkeppnishæfni íslenskra fiskvinnslna. Það er fyrsta skrefið en samkeppni við ríkisstyrkt fyrirtæki er alltaf erfið,“ segir Ægir Páll.
Líkt og áður sagði var mikill viðsnúningur í rekstri Iceland Seadood á síðasta ári. Ægir Páll segir að það sé helst því að þakka að eftirspurnin hafi aukist.
„Salan á fjórða fjórðungi síðasta árs gekk afar vel og markaðirnir tóku við sér. Minnkun þorskkvóta í Barentshafi hafði þar jákvæð áhrif þó að áhrifin af þeim niðurskurði geti verið neikvæð til lengri tíma,“ segir Ægir Páll og bætir við að allar líkur séu á því að sú eftirspurn haldist áfram út árið 2025 og jafnvel til lengri tíma.
Öll rekstrarfélög skiluðu hagnaði
Í uppgjörinu kom fram að félagið hefði á síðasta ári verið að selja eldri birgðir sem skiluðu neikvæðri afkomu auk þess sem vaxtakostnaður hækkaði verulega á milli áranna 2023 og 2024 eða sem nam 500 milljónum króna. „Þessi hækkun vaxtakostnaðar átti sér stað samhliða hækkun vaxta í helstu viðskiptalöndum okkar og vaxtahækkun á útgefinn skuldabréfaflokk í október 2023 en þegar líða tók á árið 2024 sáum við vexti fara að lækka, sem er jákvætt fyrir félagið.“
Öll rekstrarfélög undir hatti Iceland Seafood skiluðu hagnaði á síðasta ári. Ægir Páll segir að þorskurinn sé mikilvægasta tekjustoð félagsins en laxinn og rækja frá Suður-Ameríku sé þó að sækja í sig veðrið.
„Laxinn er um 17% af tekjum og hefur verið að aukast á undanförnum árum. Við horfum á uppgang í laxeldi á Íslandi sem tækifæri sem gæti skilað sér í jákvæðri þróun í okkar rekstri,“ segir Ægir Páll.
Hann nefndi á uppgjörsfundi félagsins að stóra málið á þessu ári væri endurfjármögnun félagsins. Félagið fjármagnar sig að hluta til með víxlum og er með stórt skuldabréf á gjalddaga í júní.
„Ég vonast til að við getum endurfjármagnað okkur á kjörum sem eru betri en þau voru sem við bjuggum við á síðasta ári. Við fjármögnum okkur að stærstum hluta í evrum þannig að vaxtaþróun í Evrópu skiptir okkur miklu máli,“ segir Ægir Páll og bætir við að félagið sé þá að horfa á langtímafjármögnun.
Í tilkynningu kemur fram að hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi á árinu 2025 muni samkvæmt afkomuspá nema um 1,1-1,4 milljörðum króna.
Aðfangakeðjan mikið verkefni
Gert er ráð fyrir áframhaldandi háu þorskverði á árinu og að verð á laxi verði í hærri kantinum fyrri hluta ársins en lækki á síðari hluta þess. Spurður um horfur og hvaða áskoranir séu fram undan í rekstri félagsins segir Ægir Páll að eftirspurnin um þessar mundir sé mjög sterk en á móti kemur að aðfangakeðjan og áskoranir henni tengdar séu stórt verkefni fyrir félagið.
„Það er ekki einungis áskorun fyrir okkur heldur sjávarútveginn á Íslandi, svona mikil minnkun í úthlutun þorskkvóta í Barentshafi hefur áhrif á markaðinn,“ segir Ægir að lokum.