Samkomulag kjarasamningarnir voru undirritaðir 25. febrúar.
Samkomulag kjarasamningarnir voru undirritaðir 25. febrúar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nýr kjarasamningur Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsfólks aðildarfélaga KÍ. Atkvæðagreiðslu sem hófst sl

Nýr kjarasamningur Kennarasambands Íslands við ríki og sveitarfélög var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsfólks aðildarfélaga KÍ. Atkvæðagreiðslu sem hófst sl. föstudag lauk á hádegi í gær.

Greidd voru atkvæði um kjarasamninginn sem samkomulag náðist um skv. innanhússtillögu ríkissáttasemjara og undirritaður var 25. febrúar. Á kjörskrá voru 11.115 félagsmenn og greiddu 8.485 atkvæði eða 76,34%. Úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu þau að já sögðu 7.878 eða 92,85%. Nei sögðu 517 eða 6,09% og auðir seðlar voru 90 talsins.

Kjarasamningurinn nær til félaga í Félagi framhaldsskólakennara, Félagi grunnskólakennara, Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Félagi leikskólakennara, Félagi stjórnenda í framhaldsskólum, Félagi stjórnenda leikskóla og Skólastjórafélagi Íslands. Gildir hann til 31. mars 2028.

Þetta er í fyrsta skipti í sögu KÍ sem félagsfólk aðildarfélaga samþykkir sameiginlega nýjan kjarasamning.

Samhliða greiddi félagsfólk í Félagi framhaldsskólakennara og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum atkvæði um samkomulag um breytingar á tilteknum ákvæðum í kjarasamningum félaganna. Var það samþykkt. Já sögðu 531 eða 56,13% en nei sögðu 384 eða 40,59%. omfr@mbl.is