Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Hafsteinsdóttir gerði það að sínu fyrsta verki á Alþingi eftir kjör sem formaður Sjálfstæðisflokksins á nýafstöðnum landsfundi að spyrja Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra út í kjarasamninga og þá hættu sem upp væri komin á vinnumarkaði

Guðrún Hafsteinsdóttir gerði það að sínu fyrsta verki á Alþingi eftir kjör sem formaður Sjálfstæðisflokksins á nýafstöðnum landsfundi að spyrja Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra út í kjarasamninga og þá hættu sem upp væri komin á vinnumarkaði. Vísaði hún þar í ummæli verkalýðsleiðtoganna Vilhjálms Birgissonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem hefðu lýst áhyggjum af áhrifum kjarasamninga kennara á aðra samninga.

Forsætisráðherra gaf ekki mikið fyrir þessa hættu og lagði áherslu á að taka bæri kennara „út fyrir sviga“, sem ekki er víst að allir séu tilbúnir til að gera. En eins og Guðrún benti á svaraði Kristrún ekki miklu um hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að koma í veg fyrir alræmt höfrungahlaup á vinnumarkaði.

Innt sérstaklega eftir því hvort ríkisstjórnin hygðist beita sér fyrir breytingum á vinnulöggjöfinni, til dæmis með það að markmiði að stuðla að friði á vinnumarkaði, meðal annars með auknum heimildum ríkissáttasemjara til að tryggja að aðilar vinnumarkaðarins geti ekki hunsað miðlunartillögu hans, sagði Kristrún alveg skýrt að ekki yrði farið í neinar breytingar nema í samráði við verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Það er því ljóst að ríkisstjórnin hyggst ekkert gera sem gæti stuðlað að því að auðvelda samninga og auka þannig stöðugleika og lækka verðbólgu og vexti.