Hverjum var um að kenna?

Donald Trump er nú forseti í annað sinn, og þá með fjögurra ára millibili, en það hefur aðeins gerst einu sinni í sögu Bandaríkjanna. Hann hefur um margt farið ótrúlega vel af stað og sýnt fræga vinnusemi sína og sitt mikla úthald frá morgni til kvölds. Sérstaklega er samanburðurinn við Joe Biden síðasta forseta mjög sláandi, því það mátti þakka fyrir ef sá forseti léti sjá sig einu sinni í viku og læsi upp af blöðum sínum og spjöldum, og hyrfi síðan úr pontunni án þess að svara nokkurri spurningu, sem heitið gæti.

Óhætt er að segja að mikill munur er á framgöngu þessara tveggja forseta. Hefur Trump baðað sig í þessari miklu breytingu.

En nú velta margir fyrir sér hvort sláandi kaflaskil hafi orðið. Í því sambandi hefur margur fordæmt forsetann fyrir síðasta „leikþátt í Hvíta húsinu“, þar sem Selenskí, forseti Úkraínu, var heiðursgestur í hinni frægu forsetaskrifstofu, ásamt fleirum, þar á meðal varaforseta Bandaríkjanna, J.D. Vance, Hegseth varnarmálaráðherra og Rubio utanríkisráðherra. Fer það þó eftir ólíkum hópum þar vestra, hversu alvarleg mistök forsetinn þykir hafa gert, og hvort þar sé um háskaleg mistök að ræða sem taka muni tíma að kasta aftur fyrir sig.

Hefur forsetinn fengið ýmsar þungar ákúrur fyrir það hvernig hann hafi farið með leikstjórnina í „the Oval office“ í þetta sinn. Slíkur fundur, í hinni frægu og „heilögu“ skrifstofu, er einkum eða eingöngu settur upp eftir að helstu embættismenn og svo forsetinn og hans menn í lokin, þegar flókin mál og viðkvæm hafa verið rædd í þaula, telja eftir atvikum að búið sé að setja erfiðustu ágreiningsefni til hliðar. Og þótt sú sé staðan að það sé ekki fullgert, en megi leysa á næstu fáu dögum og ráði það ekki úrslitum. Og þá er það þekkt meginregla að þar til öruggar og traustar fréttir hafa borist aðalleikurunum, um að samkomulag hafi náðst, eða að mestu og það svo að ekki sé stórmál að ganga frá slíku á milli funda, sé ekki opnaður aðgangur að forsetaskrifstofunni.

Þegar svo er komið flytja menn sig gjarnan í hátíðarskyni inn í „sparistofuna frægu“ og setja glaðbeittir punkta undir niðurstöður aðila. Ef síðasti yfirlestur sýnir að allmikið vanti enn upp á að flestir endar hafa verið bundnir og vel ræst úr að mati beggja, þá er allmörgum fjölmiðlamönnum boðið að sitja inni síðustu mínúturnar, svo að þeir hafi eitthvað haft upp úr langri setu og bið.

Það hefur hingað til verið venjan, hjá flestum forsetum Hvíta hússins, að það sé ófrávíkjanleg meginregla að samningagerð sem ekki er fullkomlega lokið, þó að segja megi að einungis eitthvert smælki, sem litlu máli skiptir, standi enn út af borðinu, þá verði málið ekki kynnt af hálfu beggja aðila og allra síst séu fréttasnápar eða fjölmiðlamenn kallaðir til að spyrja aðila út úr. Það er nánast óhugsandi að aðilar haldi blaðamannafund saman, svo að tilefni gefist til að helstu aðilarnir tveir hafi tilefni til að takast á.

Allar þessar meginreglur fuku út í buskann og „deiluaðilar“ sáust seinast takast á, með ásökunum og stóryrðum, svo að öllum megi vera ljóst að loft hafi verið þrútið og þungt, og allt sé bersýnilega óljóst um framhaldið. Forseti Bandaríkjanna sló því föstu í lok fundarins í „the Oval Office“ að engin efni stæðu til þess að þeir forsetarnir hittust á nýjan leik nema augljóst yrði að meiri samhljómur væri með aðilum. Ekkert ríki veraldar hefði lagt annað eins til Úkraínu af fjármunum og vopnum og fram að þessu ekki krafist neins gjalds. ESB-löndin hefðu veitt miklu minni aðstoð og nú væri fram komið að þau höfðu öll tekið fullt veð af Úkraínumönnum og Bandaríkin hlytu að fara í þau fótspor.

Því miður er það fjarri því að þessi „frægi“ fundur hafi verið fundarmönnum til sóma og mun þessi leikþáttur draga þungan dilk á eftir sér. Á því græðir enginn, – nema þá helst Pútín og peð hans í Kreml.