Hið ljúfa líf
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Mikið er gaman að sjá hvað úrvalið á íslenskum vínmarkaði hefur skánað á undanförnum árum. Einokun og fákeppni hafa hörfað agnarögn svo að andrými hefur skapast fyrir fjölmörg ný fyrirtæki til að spreyta sig á innflutningi á skemmtilegum vínum. Þetta gera þau þrátt fyrir að gjaldaumhverfið, regluverkið og innkaupamódel ÁTVR séu ekki beinlínis vinveitt nýliðum á markaðinum.
Það er sérstaklega óheppilegt að innflytjendur fái ekki að auglýsa vörur sínar enda þýðir það að erfitt er að láta neytendur vita af áhugaverðum nýjum flöskum uppi í hillu hjá Ríkinu. Lagaramminn utan um sölu á víni (ef hverjum einasta bókstaf er fylgt upp á hár) virðist vera meira sniðinn að miðlungsvörunni sem selst í gámavís, frekar en sérstöku og fágætu flöskunum; árgangsvínunum og sérútgáfunum sem höfða til vínunnandans en gætu í besta falli selst í brettavís – og sennilega bara í kassavís – á svona afskaplega fámennum markaði.
Þeir litlu vínheildsalar sem hafa látið að sér kveða á undanförnum árum virðast einmitt sinna sínum viðskiptum meira af ástríðu og hugsjón en til að græða einhver ósköp af peningum. Að hugsa sér bara hvað það myndi hjálpa þessum geira ef innflytjendurnir gætu auglýst vörur sínar t.d. í litlu boxunum hérna sínum hvorum megin við þessa grein.
En þegar það er fært í tal að frelsa íslenskan áfengismarkað örlítið meira, og færa auglýsinga- og sölureglurnar í sama horf og á meginlandi Evrópu, eru viðbrögðin slík að það mætti halda að verið væri að leggja til að opna rómverskt hringleikahús í Laugardal. Samt er ekki verið að fara fram á meira en það sem fólki í öðrum löndum þykir fullkomlega eðlilegt.
Þeim sem finnst það hið besta mál að hafa vit fyrir samborgurum sínum, og vilja endilega leyfa stjórnvöldum að skerða frelsi landsmanna svo beina megi lífsstíl þeirra í átt frá löstum og óhollustu, býð ég að gera ósköp einfalda tilraun.
Tilraunin er þessi: Að komast í gegnum heilan sólarhring án þess að gera nokkuð, drekka nokkuð eða borða nokkuð sem afskaplega vel meinandi leiðtogar – einhvers staðar í heiminum og einhvern tíma í mannkynssögunni – hafa nokkru sinni bannað í nafni lýðheilsu eða góðs siðferðis.
Landnám í neðra verðbilinu
Kveikjan að þessari predikun er að kampavínsframleiðandinn Bernard Remy var að nema land á Íslandi. Það er fagnaðarefni að fá fleiri tegundir í flóruna en ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir þetta prýðilega kampavín að ná fótfestu á markaðinum, einmitt vegna þess hvað reglurnar eru skrítnar.
Bernard Remy býður líka upp á ágætis tækifæri til að ræða um samspil gæða og verðs í kampavínsheiminum, og að hvaða marki það borgar sig að velja ódýrari vínin frekar en þau dýrari.
Í augnablikinu framleiðir Bernard Remy sjö útgáfur af kampavíni og lét ég eftir mér að smakka þrjár, m.a. vegna þess að flöskurnar eru ekki dýrar. Hér úti á Ítalíu kostuðu flöskurnar þrjár frá 27 upp í 44 evrur, jafnvirði um 4.000 til 6.400 kr. en til samanburðar kostar ódýrasta kampavínið hjá ÁTVR tæpar 5.600 kr. og þykir vel sloppið að borga 7.000 til 12.000 kr. fyrir kampavínsflösku á Íslandi. Hjá stórmörkuðunum hér á meginlandi Evrópu er meðalgóða hversdags-kampavínið yfirleitt verðlagt á bilinu 45 til 70 evrur.
Í augnablikinu fást aðeins tvær gerðir af Bernard Remy hjá ÁTVR; annars vegar 200 ml Carte Blanche (2.600 kr.) og hins vegar Millesime í gjafaöskju með tveimur kampavínsglösum (15.000 kr.).
Að fá peninganna virði
Þá er það stóra spurningin: Er eitthvað varið í kampavín sem kostar ekki meira en þetta? Svarið er bæði já og nei.
Carte Blanche, ódýrasta flaskan sem ég smakkaði, er ekki framúrskarandi kampavín en samt afskaplega fínn drykkur; einfalt og frískandi með smávegis peru og kalki í angan, í meðallagi þurrt, og passaði afskaplega vel með gyros og nachos sem ég fékk sent heim að dyrum. Ef mig skyldi langa í bragðgott freyðandi vín en ætti lítinn pening, eða þyrfti að halda stóra veislu og ætti von á gestum sem væru ekki að farast úr vínsnobbi, þá væri þetta hagkvæmur og ásættanlegur valkostur.
Prestige er ögn dýrara, anganin ögn meira fáguð og bragðið meira afgerandi: þurrt, ögn rammt án þess að fara yfir strikið, með tóna sem minntu mig á óþroskaða peru. Ekki alveg að mínu skapi, en sumir vilja einmitt þetta og gæti ég ímyndað mér að bragðið falli vel að ákveðnum fiskréttum.
Loks kom röðin að Millésime 2016 árgangskampavíninu, sem er tvöfalt dýrara en ódýrasta flaskan í þessari úttekt, en líka tvöfalt betra. Pera, nýbakað brauð, epli, steinefni, kalk og lauflétt eik létu á sér kræla og gerðu drykkinn áhugaverðan þó að seint væri hægt að kalla þetta margslungið kampavín. Ég paraði vínið við alþýðlegan heimalagaðan kjúkling með gráðostasósu, og jólasúkkulaði frá Ritter og fannst það ósköp ánægjulegt.
Svona er það yfirleitt með vín, að þó að megi stundum finna gullmola á útsöluverði þá fær maður alla jafna það sem maður borgar fyrir. Bernard Remy er prýðilegur drykkur og kaupandinn fær peninganna virði þó að hann falli kannski ekki í stafi. Og um það snýst einmitt heilbrigður og lifandi samkeppnismarkaður með áfengi; að auðveldara sé fyrir neytendur að finna þá vöru sem þeim hentar hverju sinni: rándýrt lúxuskampavín einn daginn, og þann næsta hversdagskampavín á viðráðanlegu verði bara til að lífga upp á tilveruna.