Lana Kolbrún Eddudóttir fæddist í Reykjavík 5. mars 1965 og ólst upp með annan fótinn í borginni en hinn hjá afa sínum og ömmu, Stefáni og Þórunni í Flögu í Skriðdal.
„Ég var ofviti og alltaf á undan í skóla, en naut mín best innan um kýrnar hjá ömmu og afa eða inni í herbergi að lesa og púsla.“
Lana gekk í Langholtsskóla, Melaskóla, Álftamýrarskóla, Götabergsskolan og Árbæjarskóla og varð stúdent frá eðlisfræðiskor Menntaskólans við Sund 1984. Hún hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands en hætti.
Á árunum 1985-1987 bjó Lana á Syðra-Lóni, hjá Brynhildi Halldórsdóttur hreppstjóra, reiknaði laun í Hraðfrystistöð Þórshafnar, rak félagsheimilið Þórsver og mjólkaði kýrnar hennar Binnu af og til.
„Ég greip tækifærið þegar Þuríður vinkona mín bauð mér að koma með sér til Þórshafnar að vinna. Árin á Langanesi voru ómetanlegur skóli fyrir mig og ég á Binnu á Lóni margt að þakka. Maður lærði útsjónarsemi. Ef það fékkst ekki í Kaupfélaginu þá þurftirðu það ekki.“
Komin aftur til Reykjavíkur starfaði Lana í tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörð 1988-1991 en réðst síðan til Ríkisútvarpsins árið 1991 og vann á tónlistardeild Rásar 1 í rúmlega tuttugu ár. Þar sá hún um beinar útsendingar frá Sinfóníutónleikum, morgunútvarp og alls kyns tónlistarþætti, og vann pistla í Víðsjá og Spegilinn, en vinsælastir urðu tveir vikulegir þættir Lönu: Litla flugan, sem fjallaði um gamla dægurtónlist, og djassþátturinn Fimm fjórðu.
„Fátt jafnast á við útvarpið. Það er galdur í því og útvarpsraddirnar eru vinir svo margra. Dagskrárgerð er alveg einstakt starf. Hún kallar á hvern einasta dropa sköpunargáfunnar og reynir óskaplega á úthaldið en vináttan við samstarfsfólkið og viðbrögð hlustenda halda í manni lífinu. Rás 1 er ógleymanlegur vinnustaður og ég mun elska útvarpið að eilífu.“
Árið 2013 missti Lana starfið í fjöldauppsögnum á RÚV og sneri sér þá að háskólanámi í sagnfræði. Námið er að baki og BA-ritgerðin í smíðum, en hún fjallar um föðurömmu hennar, sem missti frá sér sex börn til fósturs eða ættleiðingar.
Lana var fyrsta konan sem varð formaður Samtakanna '78, félags lesbía og homma á Íslandi eins og það hét þá, og gegndi því hlutverki tvisvar: 1989-1990 og 1993-1994. Hún er jafnframt yngsti formaður félagsins frá upphafi. 1993 sat Lana, ásamt Guðna Baldurssyni, í nefnd um málefni samkynhneigðra á vegum forsætisráðuneytisins. Eftir árs starf skilaði nefndin af sér drögum að lögum um „staðfesta samvist“, fyrstu útgáfuna af samkynja hjónabandi, og sömuleiðis tillögum að verndarlöggjöf fyrir hinsegin fólk. Hvort tveggja gekk eftir og voru mestu réttarbætur hinsegin fólks á Íslandi til þessa dags.
„Það var vægast sagt strembið að vera formaður Samtakanna '78 á alnæmisárunum. Við stóðum í miklum og sársaukafullum bardaga við íslenskt stjórnkerfi og máttum auk þess þola geysileg áföll innan þessa litla hóps. Við bjuggum við áreiti og ofbeldi, bæði úti í samfélaginu og innan fjölskyldna okkar. Félagsheimili Samtakanna á Lindargötu 49 var eins og vin í eyðimörkinni og bjargaði mannslífum án efa.“
Lana og Jóhanna Björg Pálsdóttir voru eitt af fjórum pörum sem gengu fyrst allra í staðfesta samvist á Íslandi, 27. júní 1996. Þremur árum síðar veiktist Jóhanna af MS-sjúkdómnum, lamaðist, missti sjón að hluta og settist í hjólastól. Rósa, móðir Jóhönnu, greindist seinna með heilabilun en fékk ekki inni á hjúkrunarheimili og varð að búa ein heima með aðstoð Jóhönnu og Lönu.
„Það var mikið verk og eiginlega óvinnandi að halda fullri vinnu, tveimur heimilum og þremur sjúklingum á lofti. Eitthvað varð undan að láta. Þriðja vaktin kláraði mig á endanum og ég fékk örorkumatið í fimmtugsafmælisgjöf. Jóhanna mín var mikið veik öll þessi ár og ég held að hún hafi lagst svona 20 sinnum inn á Landspítalann. Þetta var óbærilega erfitt, bæði fyrir hana og mig, og eftir næstum tveggja áratuga þjáningar sleppti hún takinu og ákvað að deyja árið 2018. Það var mesta áfall lífs míns að koma að henni látinni. Ég sakna hennar á hverjum einasta degi.“
Lana glímir sjálf við ýmis veikindi, er m.a. með hjartasjúkdóm og bipolar II. „Vefjagigtin er langerfiðust. Endalausir verkir og batteríið alltaf galtómt. Oft kemst ég ekki út úr húsinu. Þótt orkan sé ekki mikil reyni ég samt að njóta hvers dags. Mér finnst gaman að fara í stutta göngutúra þegar ég get og á kvöldin les ég gjarnan vísindaskáldsögur. Dýrmætast er svo að hitta fólkið sitt, bæði fjölskyldu og vini, og knúsa Lönu og Theu, stelpurnar hans Magga bróður.“
Fjölskylda
Eiginkona Lönu var Jóhanna Björg Pálsdóttir, f. 27.12. 1960, d. 30.9. 2018, gjaldkeri í Landsbankanum og seinna starfsmaður Olís og Orkuveitu Reykjavíkur. Hún lék með landsliðum Íslands í handbolta og fótbolta. Þær bjuggu í Reykjavík og voru barnlausar.
Foreldrar Jóhönnu voru Rósa Jónída Benediktsdóttir, f. 16.6. 1936, d. 19.8. 2018, og Páll Brekkmann Ásgeirsson, f. 4.3. 1932, d. 30.3. 2019.
Sammæðra systkini Lönu eru Bjarni Hermann Sverrisson, f. 8.5. 1961, Ingibergur Ingibergsson Edduson, f. 2.12. 1977, og Magnús Grétar Ingibergsson, f. 8.5. 1980. Samfeðra systkini hennar eru Ingvi Þór Sigríðarson, f. 9.1. 1971, og Þóra Gerður Guðrúnardóttir, f. 13.3. 1973.
Foreldrar Lönu voru Edda Bragadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 21.3. 1943, d. 26.12. 2010, og Eyþór H. Stefánsson læknir, f. 7.11. 1939, d. 23.9. 2021. Þau bjuggu lengst af í Reykjavík en skildu árið 1971.