Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Hljómsveitin Þokkabót var áberandi í tónlistarlífi landsmanna og nutu þjóðlagaskotin lög hennar töluverðra vinsælda á áttunda áratugnum. Sveitin heldur upp á 50 ára afmælið með tónleikum undir yfirskriftinni „Lífið gengur sinn gang“ í Salnum 21. mars. Miðar á tónleikana seldust upp á skömmum tíma og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um aukatónleika í sömu mynd en hugsanlega kemur bandið saman aftur síðar á árinu.
„Ef við finnum fyrir miklum þrýstingi er aldrei að vita hvað við gerum,“ segir Halldór Gunnarsson, einn af stofnendum Þokkabótar. Margir komi að afmælistónleikunum og erfitt geti verið að finna aðra dagsetningu sem henti öllum.
Hvergerðingurinn Halldór og Seyðfirðingarnir Gylfi Gunnarsson, Ingólfur Steinsson og Magnús R. Einarsson stofnuðu Þokkabót. „Ég fór austur að loknu menntaskólanámi, kynntist þá þessum strákum og við spiluðum saman á böllum fyrir austan næstu sumur,“ segir Halldór. Þeir hafi verið í skóla fyrir sunnan á veturna og ákveðið að koma þar frekar fram á skemmtunum en dansleikjum. „Við vildum frekar vera skemmtiatriði en í ballharki,“ áréttar hann. Ingólfur og Gylfi hafi viðað að sér lögum og textum, sem þá hafi þótt róttækir, og þeir hafi farið í fótspor erlendra tónlistarmanna sem hafi verið undir áhrifum frá hippaárunum í gagnrýni sinni á ýmis samfélagsmál. „Þetta var ákveðin þjóðfélagsrýni, sem lítið hafði farið fyrir í íslenskum textum.“
Fjórar plötur
Fyrsta platan, Upphafið, þar sem lög eins og „Litlir kassar“ og „Nýríki Nonni“ slógu í gegn, kom út 1974. Bætiflákar kom út árið eftir og þá höfðu Eggert Þorleifsson og Ragnar Eymundsson bæst í hópinn. Fráfærur (1976) var þriðja platan og þá voru Gylfi, Magnús og Ragnar ekki með en í þeirra stað komu Sigurjón Sighvatsson og Leifur Hauksson. Í Veruleik (1978) voru aðeins Halldór og Ingólfur eftir af upphaflega hópnum en við bættust Lárus H. Grímsson og Haraldur Þorsteinsson. Ásgeir Óskarsson sá um trommuleikinn.
Á tónleikunum verður bandið skipað liðsmönnum Þokkabótar á fyrstu plötunni og þeirri síðustu. „Jóhanna Þórhallsdóttir, sem söng með okkur á Fráfærum, hefur einnig gengið til liðs við okkur,“ segir Halldór.
Haustið 2023 voru haldnir tónleikar til minningar um Leif Hauksson og þá voru meðal annars flutt lög eftir hann sem voru á Fráfærum. „Við nokkrir úr Þokkabót lékum undir með kór sem Leifur hafði verið í, Söngfjelaginu, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, og þá fengum við þá hugmynd að halda tónleika,“ segir Halldór um komandi viðburð. „Okkur datt reyndar aldrei í hug að við ættum eftir að spila þessi lög saman en þau eru góð og platan Fráfærur hefur elst vel og hinar reyndar líka. Við fengum kórinn, sem nú verður undir stjórn Ivetu Licha, til liðs við okkur til viðbótar við Jóhönnu, þannig að þetta verður rosalega gaman.“ Og kannski aftur í haust.