Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Aðgerðaáætlun nýs meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks, Flokks fólksins og Vinstri-grænna er rýr í roðinu og gefur óljósa hugmynd um hvernig borginni verður stjórnað þá fjórtán mánuði sem eru til kosninga,“ sagði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fundi í borgarstjórn í gær, en þá fór fram umræða um aðgerðaáætlun meirihluta vinstriflokkanna í Reykjavík.
Sagði Kjartan að meirihlutinn virtist hafa óskýra sýn á það hver væru brýnustu viðfangsefnin í Reykjavík. Til að mynda væri ekki að finna skýra sýn á lausn hins gífurlega húsnæðisvanda sem við væri að glíma í borginni. Sá vandi verði ekki leystur á einu ári, en stíga mætti mikilvæg skref með því að hefja sem fyrst úthlutun lóða fyrir þúsundir íbúða í Úlfarsárdal, Keldnalandi og Kjalarnesi og hefja undirbúning að uppbyggingu nýs hverfis í Geldinganesi.
„Eftir lestur áætlunarinnar er maður t.d. litlu nær hvort eða hvernig eigi að taka á fjármálum borgarinnar, húsnæðismálum, dagvistarmálum, samgöngumálum og menntamálum,“ sagði hann.
Kjartan sagði að þegar tillögur Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu um stóraukið lóðaframboð hefðu verið verið ræddar í borgarstjórn hefði komið fram hjá borgarfulltrúum vinstriflokkanna að takmarka þyrfti lóðaframboð til að tryggja að sem hæst verð fengist fyrir lóðir í Keldnalandinu.
„Áfram virðist því eiga að stuðla að hækkun húsnæðisverðs í borginni með öllum ráðum,“ sagði Kjartan.