[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Starfshópur forsætisráðherra um hagræðingu í ríkisrekstri skilaði í gær tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í stjórnarráðinu. Þar er að finna alls 60 tillögur um aukna hagræðingu, en sá hluti þeirra, sem metinn hefur verið til…

Stjórnmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Starfshópur forsætisráðherra um hagræðingu í ríkisrekstri skilaði í gær tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í stjórnarráðinu. Þar er að finna alls 60 tillögur um aukna hagræðingu, en sá hluti þeirra, sem metinn hefur verið til fjár, gæti sparað um 71 milljarð króna í ríkisútgjöld á árunum 2026 til 2030.

Tillögurnar eru í meginatriðum þríþættar, en þar er mælt með sameiningum og samrekstri stofnana, beinni hagræðingu og aðhaldi í ríkisrekstrinum og umbótum í regluverki.

Markmiðið er fyrst og fremst minni ríkisútgjöld, en einnig er bent á betri nýtingu fjármuna með einfaldari stjórnsýslu. Þá má þar finna tillögur með óljósari eða óverulegum fjárhagslegum ávinningi, sem til bóta væru í ríkisrekstri eða fyrir aðra aðila, sem þurfa að leita á náðir ríkisvaldsins.

Samráð við almenning eða almannatengslaæfing?

Þessar tillögur má rekja til þess þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra boðaði það í áramótaávarpi að leitað yrði ráða hjá almenningi um hagræðingu í ríkisrekstri. Var við svo búið opnað fyrir tillögur þar að lútandi í samráðsgátt og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Alls bárust 3.985 umsagnir, en í þeim var að finna yfir 10.000 tillögur um sparnað og hagsýni í ríkisrekstri. Samhliða bárust ábendingar frá ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Forsætisráðherra skipaði síðar fjögurra manna hagræðingarhóp undir forystu Björns Inga Victorssonar til að fara yfir tillögurnar og meta þær og grisja. Hópurinn, sem einnig skipuðu Hildur Georgsdóttir, Oddný Árnadóttir og Gylfi Ólafsson, fékk aðeins rúman mánuð til verksins og lagði áherslu á framkvæmanleika og ætluð áhrif á ríkissjóð.

Við blasir að ótal tillögur komust ekki í gegnum nálarauga starfshópsins. Af öllum þessum 10.000 tillögum þóttu aðeins 60 eða 0,6% tækar, en við bætist að margar þeirra falla að fyrri fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar og eru jafnvel þegar í undirbúningi af hennar hálfu.

Það má því vel spyrja til hvers verið var að „virkja almenning“ og hversu vel tíma hans var varið ef aðeins 0,6% tillagnanna náðu í gegn. Og kann að fækka í meðförum ríkisstjórnar og þings. Eða hvort þetta hafi aðeins verið æfing í almannatengslum.

Pólitísk þrætuepli látin vera

Um sumt vildi hópurinn fara varlega. Þannig voru settar til hliðar margar hugmyndir, sem þóttu pólitískt eldfimari en svo að hann treysti sér til þess að hafa skoðun á þeim eða taldi réttara að fjallað væri um á hinum pólitíska vettvangi. Þar má nefna ótal hugmyndir um að Ríkisútvarpinu væru settar mun þrengri skorður eða því jafnvel lokað, en einnig höfðu margir skoðun á tilhögun áfengisverslunar í landinu, svo aukið hagræði væri að.

Á hinn bóginn er einnig rétt að hafa í huga að margir stungu upp á sömu eða svipuðum aðgerðum, svo saman teknar voru eiginlegar tillögur talsvert færri en þessar tíu þúsund. Þannig má nefna að mjög margir lögðu til að styrkir til stjórnmálaflokka yrðu aflagðir eða skornir við nögl og slík tillaga er á meðal þessara 60.

Helstu tillögur

Tillögurnar snúa að þremur meginsviðum: sameiningum og samvinnu stofnana, hagræðingu í rekstri og umbótum í regluverki. Meðal áberandi tillagna eru:

Sameiningar stofnana eiga að spara 13-19 milljarða króna. Þar er m.a. stungið upp á stofnun Þjónustumiðstöðvar ríkisins, fækkun lögregluembætta, einum héraðsdómstól og sameiginlegri stjórnsýslu framhaldsskóla og að Tryggingastofnun sameinist Sjúkratryggingum.

Hagræðing og aðhald: Opinber innkaup, fjárfesting í upplýsingatækni, stafrænir ferlar komi í stað pappírs, og niðurfelling ráðstöfunarfjár ráðherra.

Umbætur í regluverki: Nefna má afnám „gullhúðunar“ í reglum, endurskoðun endurgreiðslna vegna kvikmyndaframleiðslu og lagfæringu á vinnumarkaðslöggjöf.

Tillögurnar ná yfir tímabilið 2026-2030, sem er lengra en núverandi kjörtímabil sem lýkur 2028. Eins og sjá má á stöplaritinu að ofan er gert ráð fyrir því að allt taki þetta tíma og hagræðingin komi seint, en óvíst að ríkisstjórninni endist aldur til þess að þoka tillögunum öllum áfram eða að næsta stjórn verði sama sinnis.

Margt af þessu mun reynast óumdeilt og eiga greiða leið í gegnum þingið með stuðningi stjórnarandstöðu. En annað síður. Því er óvíst hve mikill sparnaður næst, en miðað við heildarútgjöld ríkissjóðs er það varla upp í nös á ketti.

Höf.: Andrés Magnússon