Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Dagur B. Eggertsson, alþingismaður og formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins, segir breytingar í heimsmálum kalla á umræðu um kosti nánari samvinnu við Evrópu og Evrópusambandsaðildar á breiðari grunni.
„Við Íslendingar höfum verið með þrjá hornsteina í okkar utanríkis- og varnarstefnu, sem eru herleysið, varnarsamningurinn við Bandaríkin og aðildin að NATO. Við þurfum að fylgjast vel með þessari umræðu og þróun og það er að mínu mati fyllsta ástæða til að flýta mótun nýrrar varnarmálastefnu sem er hluti af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og á að móta á grundvelli þjóðaröryggisstefnu sem liggur fyrir,“ segir Dagur. Íslendingar þurfi að búa sig undir að verja meira fé og krafti í ýmsa borgaralega innviði. Þ.m.t. í almannavarnir, ákveðna þætti heilbrigðiskerfisins, Landhelgisgæsluna og betri aðstöðu fyrir viðbragðsaðila til að samræma sín viðbrögð og starf. Setja þurfi áform um björgunarmiðstöð á dagskrá á ný.
Lykilþáttur í öryggiskerfi
„Við þurfum að gera nýtt hættumat og heyra í okkar bandamönnum hvar þarfirnar eru mestar. Eitt af því sem hefur legið fyrir lengi eru hugmyndir um aukið sjúkraflug, bæði með flugvélum og þyrlum, sem gæti tengst okkar hlutverki við björgunarstörf og þannig falið í sér borgaralegan stuðning, ekki aðeins hér í Reykjavík heldur líka á Akureyri og í raun fyrir landið allt. Til þess að takast á við þetta þarf að stórefla Landhelgisgæsluna.
Það eru átta ár síðan Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri setti fram skýrslu en þar sagði að brýnt væri að fjárfesta í nýjum varaflugvelli á suðvesturhorninu sem væri lykilþáttur í öryggiskerfi landsins. Þannig að það hafa ýmsar hugmyndir og greiningar verið unnar á undanförnum árum án þess að við þeim hafi verið brugðist eða tekin afstaða til þeirra,“ segir Dagur sem vill ekki ræða staðsetningu flugvallar að sinni.
Hann benti á það fyrir þingkosningarnar að úrslit forsetakosninga vestanhafs gætu haft mikil áhrif á margt sem snertir Ísland. Það hafi gengið eftir. „Þá var lítil umræða um öryggis- og varnarmál eða tollastríð en vonandi kemur hún núna. Og ég held að ríkisstjórnin og Alþingi hafi gott af því að margir taki þátt í henni. Ég vona líka að stjórnmálin sýni þann styrk að hefja sig upp fyrir hefðbundna flokkapólitík og horfa á þessi mál bæði til skamms tíma og lengri tíma af þeirri alvöru sem þessi viðfangsefni kalla á,“ segir Dagur. Meðal annars hljóti Íslendingar að þurfa að ræða hvort ekki séu þjóðarhagsmunir í því að flýta skoðun á kostum þess að Ísland bindist Evrópu enn nánari böndum og gerist aðili að Evrópusambandinu. Það geti þýtt að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna fari fram sem allra fyrst.
Fullvalda ríki
„Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki en við erum smáríki. Og við þurfum á bandamönnum að halda,“ segir Dagur og tekur dæmi af því hvernig forsætisráðherra Danmerkur hafi farið á fund helstu leiðtoga Evrópuríkja eftir að Grænlandsmálið kom upp til að leita eftir stuðningi við afstöðu Danmerkur.
„Og við eigum ekki nema að hluta til sæti við þetta borð í Evrópu og hljótum að ræða það sem sjálfstæð og fullvalda þjóð hvar við eigum mesta samleið og hvar við getum styrkt þau bandalög sem fyrir eru, eins og við Bandaríkin, og hvernig við getum gert ný og sterk bandalög sem duga til að takast á við breytta heimsmynd.
Þar vonast ég til að varnarsamningurinn og samningurinn við NATO verði að sjálfsögðu áfram hornsteinar í öryggismálum okkar en ég held að margt bendi til að Evrópa muni þurfa að sjá meira um eigin varnir en áður. Það styrkir í raun rökin fyrir því að við eigum að sækjast eftir sæti við það borð í Evrópu. Jafnframt finnst mér augljóst að Evrópuumræðan snúist ekki aðeins um efnahagsmál, viðskiptakjör og innri markaðinn heldur líka um öryggismál, bandalag og náin samskipti við ríki sem hugsa á líkum nótum og við og standa með okkur ef í harðbakkann slær.
Evrópuumræðan hefur einkennst af debet- og kreditumræðu. Hvað fáum við út úr þessu og hvað þurfum við að borga. En ekki svona stærri mynd um stöðu okkar í heiminum og hvar við deilum helst hugsjónum okkar og gildum,“ segir Dagur.