Ari Hermann Einarsson fæddist á Móbergi í Langadal 22. apríl 1938. Hann lést á sjúkrahúsinu á Blönduósi 22. febrúar 2025.

Ari var elsti sonur hjónanna Einars Björnssonar, f. 30. júlí 1908, d. 24. febrúar 1992 og Helgu Ólínu Aradóttur, f. 13. mars 1913, d. 26. júní 2004. Systkini Ara eru Björgólfur Stefán, f. 1941, kvæntur Jónínu Lilju Guðmundsdóttur. Björgólfur var tvíburi við stúlku sem var andvana fædd. Halldór Björgvin, f. 1944, kvæntur Bylgju Angantýsdóttur. Björg, f. 1950, gift Nirði Jóhannessyni.

Ari kvæntist 26. desember 1963 Höllu Björgu Bernódusdóttur, f. 27. mars 1944, frá Skagaströnd. Foreldrar Höllu voru Bernódus Ólafsson, f. 17.3. 1919, d. 18.9. 1996, og Anna Halldórsdóttir Aspar, f. 7.1. 1923, d. 1.9. 1999.

Börn Ara og Höllu eru: 1) Einar Haukur, f. 1964, kvæntur Sigurbjörgu Írenu Ragnheiðardóttur. Börn þeirra eru Tanja Rán, gift Erni Aroni og eiga þau tvo syni. Einar Ari, unnusta hans er Jóna Kristín og eiga þau eina dóttur. Linda Rún, Karen Líf, unnusti hennar er Adam, Emilía Marey og Natan Nói. 2) Helga Ólína, f. 1967, gift Jóni Steinari Sæmundssyni. Dætur Helgu eru Ester Ösp, unnusti hennar er Guðmundur Björn. Ester á tvö börn og einn stjúpson. Halla Björk, unnusti hennar er Sævar Hlynur, þau eiga tvo syni. Saga Lind, unnusti hennar er Sverrir Freyr. Stjúpdætur Helgu, dætur Jóns Steinars, eru Vilborg Ósk, gift Kristófer Má, þau eiga eina dóttur og Anna Guðrún, unnusti hennar er Ragnar Már, þau eiga eina dóttur. 3) Anna Aspar, f. 1973, gift Hans Vilberg Guðmundssyni. Þau eiga dótturina Kolbrúnu Höllu, unnusti hennar er Kacper. Fyrir átti Anna dæturnar Margréti Hildi og Þórunni Huldu Hrafnkelsdætur. Stjúpbörn Önnu, börn Vilbergs, Vilberg Rafn sem er látinn, Guðmundur Kristinn, unnusta hans er Alma Eik, þau eiga þrjá syni, Benjamín Jóhannes, og Marta Karen, unnusti hennar er Arnór, þau eiga tvo syni.

Ari gekk í farandskóla í sveitinni eins og tíðkaðist. Átján ára gamall nam hann búfræði við Hólaskóla og útskrifaðist búfræðingur. Hann stundaði síðan nám í húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og tók þaðan meistarapróf. Hann starfaði við húsasmíði hjá Trésmíðaverkstæðinu Fróða á Blönduósi til fjölda ára. Hann skipti síðan um starfsvettvang og hóf störf hjá heildsölunni Reyni þar sem hann vann um langan tíma. Eftir að rekstri heildsölunnar var hætt hóf hann störf hjá Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi þar sem hann lauk starfsævinni.

Ari var virkur í félagsstarfi og starfaði í ungmennahreyfingunni, sat í stjórn USAH og var gerður heiðursfélagi 2012. Hann var einn af stofnendum Golfklúbbsins Óss þar sem hann var einnig gerður að heiðursfélaga. Hann var einnig stofnfélagi í Kiwanisklúbbnum Borgum á Blönduósi og ákafur bridgespilari.

Útför Ara fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 7. mars 2025, klukkan 14.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Einhver þarna uppi ákvað að nú væri kominn tími fyrir Ara minn að flytja í sumarlandið, ég var ekki sammála, ég vildi hafa hann lengur, 63 ár eru ekki nóg til að gera allt sem við áttum eftir að gera saman. En svona góðum manni eins og Ara mínum hefur áreiðanlega verið ætlað vandasamt verkefni í æðri heimi.

Fjórtán ára fór hann að spila á harmoniku og fljótlega fóru þeir frændur að spila á böllum allt of ungir til að vera á böllum en urðu þó ein vinsælasta hljómsveit sýslunnar. Þeir Móbergsbræður spiluðu t.d. á sjómannadaginn á Skagaströnd og þar var stelpa sem ásamt vinkonum sínum fékk ekki að fara inn vegna aldurs en stóð fyrir utan dyrnar og horfðu á stjörnurnar. Þar sá ég Ara minn fyrst. Fyrstu árin okkar saman ferðuðumst við mikið um landið, fyrst ein og síðan með börnunum okkar og fjölskyldu minni.

Við fórum t.d. ein í Hljóðakletta og nutum fegurðarinnar án þess að verða trufluð af ferðamönnum. Seinna fórum við svo árlega í Munaðarnes með systkinum mínum og fjölskyldu og þá var Ari mjög vinsæll því að þá vann hann í heildsölu og kom alltaf með fullt af sælgæti. Seinna þegar við komumst í álnir eins og börnin segja þá fórum við að ferðast til sólarlanda, kynntumst þar góðu fólki og Ari hamaðist við að vinna til verðlauna í golfi, skotkeppni og ýmsu skemmtilegu. 1986 tókum við að okkur skálavörslu á Eyvindarstaðaheiðinni, það var gæfuspor, þar undum við okkur tíu sumur. Þar naut hann Ari sín við uppbyggingu og alls konar ævintýri á daginn og gleðskap með gestum á kvöldin.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Elsku besti Ari minn. Hjartans þakkir fyrir samfylgdina. Ég mun elska þig og sakna þín þar til við hittumst aftur.

Þín

Halla.

Það er erfitt að setjast niður og skrifa minningargrein um þann sem hefur átt hvað stærstan hluta í lífi mínu, elsku pabba. Hann var einstakur pabbi, vildi öllum vel og studdi okkur krakkana sína í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur.

Minningarnar hafa leitað á hugann undanfarna daga og gott að eiga þær í huga og hjarta. Pabbi vann mikið þegar ég var lítil en hann kom alltaf og fór með bænirnar með mér og pakkaði mér svo fast inn í sængina áður en hann bauð góða nótt.

Hann var virkilega félagslyndur og hafði gaman af alls kyns mannamótum og sótti t.d. flest landsmót hér áður fyrr og hafði ég gaman af. Hann hvatti mig alltaf áfram og fylgdist vel með því sem við krakkarnir vorum að gera. Hann var óspar á hrósið og lét okkur vita hve stoltur hann var.

Pabbi elskaði tónlist, sérstaklega gömlu góðu lögin, Fats Domingo, Sven Ingvars að ógleymdum Geirmundi. Pabbi gat spilað á flest hljóðfæri og spilaði fyrir barnabörnin og langafabörnin á nikkuna þegar þau kíktu í heimsókn.

Pabbi var hjartahlýr, ljúfur og traustur rólyndismaður sem hafði einstaklega gaman af því að eyða tíma með hópnum sínum, börnum og barnabörnum. Hann elskaði fótbolta og reyndar allar íþróttir, rjómatertur, pönnukökur og bleika tertu, golf og bara alls konar. Við hjónin vorum svo heppin að njóta þess að ferðast með foreldrum mínum til Tenerife síðustu tvö sumur. Þessar ferðir eru ógleymanlegar og þar var mikið hlegið, fíflast og minningar skapaðar.

Elsku pabbi, takk fyrir allt – við hugsum vel um mömmu. Þar til við sjáumst aftur – elska þig endalaust.

Tárin eru dýrmætar daggir,

perlur úr lind minninganna.

Minninga sem tjá kærleika og ást,

væntumþykju og þakklæti fyrir liðna tíma.

Minninga sem þú einn átt

og enginn getur afmáð eða tekið frá þér.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Miðjan þín,

Helga Ólína.

Afi og ég

sterkur sem grjót

hjarta úr stáli.

Ef illa þú kemur við hans fólk

máttu búast við báli.

Ekki alltaf mikið til orða tekur

en eyrað þó alltaf skammt frá.

Margar sögur hann segja má

ef þú hittir vel á.

Alltaf hefur elskað sitt gotterí

en ef þú heppin fékkstu lotterí.

Harmónikuspil hann dáir,
og hlustar mikið á

enda er ég heppinn að
kynnast því og sjá.

Því ef hann er ekki að hlusta
og púsla með það á

þá situr hann sjálfur með
nikkuna svei mér þá.

Hans nafn

Ari Hermann Einarsson.

Ég átti að bera sama nafn,
nema með föðurnafni mínu

en heimurinn vissi þó að það
dugði að hafa einn.

Heimurinn vissi þó að hann
þyrfti lítinn skugga

sem myndi elta hann út’um allt

og læra af honum

þar kom ég.

Afi og ég.

Besti vinur minn, besti afinn, bestur allra.

Ég elska þig.

Þinn litli skuggi,

Kolbrún Halla Vilbergsdóttir.