Magnea Halldórsdóttir fæddist í Hafnarfirði 3. ágúst 1948. Hún lést á Landspítalanum Hringbraut 27. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Sigríður Loftsdóttir, f. 26.3. 1925, d. 16.5. 1993, og Halldór Rósmundur Helgason, f. 1.6. 1926, d. 2.1. 2011. Blóðfaðir Magneu var Leon Hjørth Olsen, f. 1924 í Danmörku, d. 26. febrúar 2007 í Vancouver í Kanada. Systkini Magneu eru Ragnar Helgi Halldórsson, f. 1.8. 1951, og Halldóra Halldórsdóttir, f. 13. ágúst 1961, Connie Lisa Hjørth Fay (fædd Olsen), f. 3.11. 1959, og Ralph Anders Hjørth Olsen, f. 16.1. 1957.
Magnea giftist í september 1966 Guðjóni Sveinssyni, f. 4.12. 1946, og bjuggu þau í Reykjavík og í Hafnarfirði. Þau eignuðust Halldór Rósmund, f. 21.6. 1966, maki Vilfríður Þorsteinsdóttir, f. 23.8. 1964, börn þeirra eru fimm: Jóna Guðný (börn hennar Agnes Jónudóttir, f. 18.2. 2005, og Ásdís Freyja Georgsdóttir, f. 1.9. 2009), Þorsteinn, f. 30.10. 1991, Þorgils Gauti, f. 12.7. 1995, Bergsveinn Andri, f. 4.1. 1997, og Sigríður Halldóra, f. 25.11. 2002.
Magnea giftist Gísla Haukssyni, f. 22.8. 1947, þann 12. október 1968 og bjuggu þau í Hafnarfirði og í Njarðvík. Þau eignuðust saman börnin Hinrik Svavar, f. 20.8. 1969, og Bjarklindi Öldu, f. 2.1. 1976. Börn Hinriks eru Sara Rún og Bríet Sif, f. 14.8. 1996 (dóttir hennar Ísold Fríða Styrmisdóttir, f. 30.12. 2023), Elísabet Ýr, f. 24.5. 2003, Ágústa Marý, f. 19.11. 2001, og Linda Líf, f. 9.2. 2009. Börn Bjarklindar Öldu og maka hennar Guðmundar Þór Brynjarssonar, f. 12.2. 1979, eru Sævar Freyr, f. 12.7. 1996, Falur Orri, f. 21.2. 2001 (sonur hans Atlas André, f. 17.8. 2023), og Hilma Maren, f. 1.9. 2004.
Magnea giftist árið 2003 Kristjáni Inga Helgasyni, f. 14.5. 1948, d. 27.11. 2022, og bjuggu þau saman í Keflavík og Njarðvík. Þau skildu árið 2019.
Magnea ólst upp í Hafnarfirði og gekk í Lækjarskóla og í Flensborg. Hún stundaði ýmis umönnunar- og þjónustustörf, meðal annars við rekstur félagsheimilisins Stapa í Njarðvík með þáverandi eiginmanni sínum Gísla. Hún var mikill fagurkeri og listræn og naut þess að sinna hannyrðum auk þess að mála myndir.
Útför Magneu fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. mars 2025, klukkan 12.
Elsku mamma mín.
Á sama tíma og ég kveð þig nú í hinsta sinn finn ég fyrir þakklæti fyrir þær góðu stundir sem við áttum saman.
Mér er sérstaklega minnisstæður sá tími þegar við bjuggum í Hafnarfirði og ég naut þess sem lítill drengur að fá að fylgjast með þér gera eitt og annað skemmtilega og hlæja. Ég man hvað það var gaman að fara með þér í endalausar skemmtilegar heimsóknir til Ragga frænda, Dóru frænku, afa Dóra og ömmu Siggu, sem og allra hinna frænkna og frænda í Hafnarfirði. Við fórum líka oft eitthvað annað eins og til dæmis oft að heimsækja frænda á Sólheimum eða ferðalög um landið og komum þá einhvers staðar við. Það gleymdist í rauninni enginn.
Fyrir litla drenginn var þetta ævintýri, gaman og spennandi. Það var líf og fjör í kringum þig og litli drengurinn fylgdist stoltur með mömmu sinni sem naut þess að vera til. Það var í raun einhver ótrúleg orka og dugnaður sem einkenndi allt sem þú tókst þér fyrir hendur. Ég sem lítið barn fylgdist með þér búa til og skapa eitthvað úr nánast engu eins og mér fannst og skynjaði.
Að alast upp í Hafnarfirði á þessum tíma var eins og að vera í ævintýralandi, og sú tilfinning hélt áfram þegar ég fylgdist með listamanninum í þér njóta sín í því sem þú tókst þér fyrir hendur, með natni, útsjónarsemi og þrautseigju. Það var þessi sama orka, þessi sami kraftur og gleði sem ég sá í afa Dóra, ömmu Siggu, Ragga frænda og Dóru frænku. Þið höfðuð öll sameiginlega gleði, kraft og kátínu sem ég naut þess sem lítill drengur að fá að vera í kringum.
Guð geymi þig kæra mamma.
Halldór (Dóri).
Í dag verður jarðsungin Magnea Halldórsdóttir, elsku stóra systir mín, eftir snörp og illvíg veikindi. Þann 12. febrúar sl. fékk hún úrskurð um krabbamein í skjaldkirtli og er farin frá okkur 27. febrúar. Það er þyngra en tárum taki svo snöggt fráfall.
Maggý reyndist okkur alla tíð stoð og stytta í uppvextinum í Hafnarfirði og ávallt seinna í lífinu.
Hún var einstaklega listræn, málaði myndir, vann listaverk í gler og var einstök hannyrðakona til síðasta dags.
Hún var traustur vinur, umhyggjusöm og hörkudugleg til allra verka á lífsleiðinni.
Elsku Maggý mín! Við munum sakna heimsóknanna til þín og góða spjallsins okkar yfir kaffibolla.
Takk fyrir allt elsku Maggý, blessuð sé minning þín.
Við vottum Dóra, Svavari, Lindu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.
Þinn bróðir,
Ragnar Helgi Halldórsson og Anna Margrét Ákadóttir.
Elsku systir.
Mikið er erfitt að setjast og skrifa minningarorð til þín. Undanfarnar vikur höfum við eytt miklum tíma saman og rifjað upp góðar minningar úr Hafnarfirði þegar við vorum yngri og síðan hér í Njarðvík. Allt frá því að ég kom inn í þitt líf, þegar þú varst 13 ára, hefur þú verið mér sem önnur móðir. Þrátt fyrir að við værum ekki alltaf sammála og inn á milli kæmu tímabil þegar lítið samband var á milli okkar vissi ég ætíð að ef ég þyrfti á þér að halda værir þú aðeins eitt símtal í burtu.
Verandi yngst okkar systkina átti ég oft erfitt með að foreldrar okkar voru að mínu mati stundum of gömul, þá var gott að eiga stóra systur sem gat aðstoðað mig eins og þegar þú fórst með mér að kaupa fermingarföt. Þegar ég flutti til Njarðvíkur með börnin mín tvö gat ég alltaf leitað til þín með aðstoð.
Megir þú hvíla í friði elsku systir.
Svo segir bros þitt, besta systir mín.
Nú beinist aftur kveðja mín til þín,
og brennheitt höfuð hneigi ég í tárum,
mín hjartans vina frá svo mörg um árum.
(Hannes Hafstein)
Þín
Halldóra (Dóra).