Viðtal
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Háskólakennarar upplifa mikið álag í störfum sínum, sem hefur aukist til mikilla muna á undanförnum árum. Nýjar rannsóknir leiða í ljós að hætta á kulnun er orðin verulegt vandamál í háskólasamfélaginu.
Kennsluálagið er mikið og á sama tíma eru þeir undir stöðugum þrýstingi að birta vísindagreinar og sækja um rannsóknastyrki í samkeppnissjóði. Samhliða þessum störfum ber þeim einnig að sinna stjórnunarskyldum af ýmsu tagi.
Doktorsnemar og nýdoktorar í sérlega mikilli hættu
Fyrsta rannsóknin hér á landi á tíðni kulnunareinkenna meðal starfsfólks í háskólum var gerð á árinu 2022, sem byggði á niðurstöðum netkönnunar sem lögð var fyrir Félag háskólakennara og Félag prófessora í ríkisháskólum. Niðurstöðurnar sýndu að rúmur þriðjungur svarenda var þá í mikilli eða mjög mikilli hættu á kulnunarröskun. Hættan var þó mismikil eftir starfsheitum akademísks starfsfólks en svörin bentu til að doktorsnemar og nýdoktorar væru í sérlega mikilli hættu.
Ragna Benedikta Garðarsdóttir, prófessor í félagssálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands, stóð að rannsókninni og hefur notið liðsinnis fleiri sérfræðinga. Í framhaldinu hefur Ragna nú gert aðra könnun sem nær einnig til háskólakennara á Akureyri. Þeirri gagnasöfnun er lokið og er úrvinnsla í gangi í yfirstandandi rannsókn hennar.
Niðurstöður nýju könnunarinnar staðfesta enn frekar tíð kulnunareinkenni og vinnuálag meðal háskólakennara. Ríflega 40% þátttakenda mældust með mikil eða mjög mikil einkenni kulnunar.
Ragna segir ljóst að álagið hafi verið að aukast en ekkert sé hægt að fullyrða um hvort kulnunareinkennin hafi færst í aukana vegna þess að ekki séu til gögn um það sem ná lengra aftur en til ársins 2022.
Ekki hægt að kenna covid um
Nýja rannsóknin er m.a. gerð til þess að meta hvort niðurstöður könnunarinnar frá 2022 hafi mögulega verið vegna áhrifa af covid-19-faraldrinum. Að sögn Rögnu er ástandið enn jafn slæmt og því hægt að staðfesta að ekki sé hægt að kenna covid um. Einnig hafi þurft að endurtaka rannsóknina til þess að kanna betur hvaða álagsþættir það væru innan starfsins sem hefðu mest áhrif á kulnunareinkenni.
„Það kom í ljós að ástandið er ennþá svipað ef ekki aðeins verra, en ég á eftir að skoða betur mun á milli ára fyrir einstök starfsheiti. Almenna tilhneigingin er sú að þeim mun eldra sem fólk er þeim mun minni líkur eru á að viðkomandi upplifi alvarleg kulnunareinkenni,“ segir hún.
Stunda rannsóknir samhliða miklu kennsluálagi
Einkenni kulnunar eru mest áberandi meðal ungra háskólakennara. „Við sjáum að unga fólkinu sem er nýkomið í kennslustörf, lektorum og aðjunktum, er hreinlega drekkt í vinnu. Þau hafa allt of mikið að gera, sérstaklega á sumum sviðum og í sumum deildum. Þetta er hins vegar ekki einhver vísbending um að unga kynslóðin þoli minna en sú eldri. Því fer fjarri. Það er bara alltof mikið á þau lagt, miklar kröfur gerðar um að þau þurfi að stunda rannsóknir á sama tíma og þau eru að kenna alltof mörgum nemendum. Á sama tíma eiga þau líka að sýna fram á að þau geti verið í stjórnunar- og nefndastörfum og þau þurfa jafnframt að geta sótt um rannsóknarstyrki og þannig fjármagnað að hluta til sitt eigið starf. Ég veit ekki um neina aðra opinbera stétt sem þarf sjálf að fjármagna sína eigin stofnun,“ segir Ragna.
Nýja rannsóknin sýnir að það er samt ekki sjálft vinnumagnið heldur sífelld togstreita eða tætingur á milli starfsþátta sem veldur hvað mestu álagi. Háskólakennarar þurfa að halda mörgum boltum samtímis á lofti og sinna ólíkum störfum til að standa undir kröfum sem gerðar eru.
Krafa um birtingu greina mögulega dregið úr gæðum
Ragna segir að farið hafi að bera á minnkandi starfsánægju háskólafólks á Vesturlöndum upp úr seinustu aldamótum. Þá hófst viðskiptavæðing háskóla og sjúkrahúsa sem breytti umgjörð starfsins, þar sem fólk þarf að hlaupa hraðar fyrir sama pening. Á sama tíma fóru háskólar að gera ríka kröfu um fjölgun birtinga greina í ritrýndum tímaritum. „Sú krafa hefur mögulega og algerlega þvert á markmið dregið úr gæðum rannsókna,“ segir Ragna og bendir á að háskólafólki gefist ekki nægur tími til að greina gögn og koma þeim almennilega til skila ef keppast þarf við að birta fjölda greina á hverju ári. Greinafjöldinn er svo lagður til grundvallar fjármögnunarlíkani skólanna.
Skera pylsuna þunnt
„Þess í stað er fólk farið að stunda það sem nefnt er „salami slicing“, sem gengur út á að skera pylsuna þunnt og gefa út margar þynnri greinar. Þetta á að sjálfsögðu alls ekki við um alla en margir eru farnir að gera þetta og gefa út greinar sem eru þá kannski verri fyrir vikið eingöngu vegna þess að þannig er bisnessmódelið. Það má líkja þessu við hraðtísku frekar en að búa til vandaðar flíkur. Það verður að víkja frá þessu módeli því það nær engri átt. Þetta er ekki gott fyrir starfsfólkið og þetta er ekki heldur gott fyrir vísindin,“ segir hún.
Ragna bendir á að þekkingarstarfsemi er ekki eins og kexverksmiðja þar sem ávallt er reynt að framleiða meira. „En við höfum samt verið að gera það. Í Háskóla Íslands erum við búin að tvöfalda rannsóknarframlag okkar þrátt fyrir að starfsfólki hafi ekki fjölgað í takt. Nemendafjöldinn er orðinn tvöfaldur miðað við síðustu aldamót en eftir sem áður hefur föstum starfsmönnum ekki fjölgað. Við erum að hlaupa hraðar og gera meira en ólíkt því sem á sér stað í fyrirtæki þá eykst ekki hagnaðurinn við það. Við búum núna við niðurskurð og ráðningabann, sem gengur náttúrlega ekki til lengdar. Svo eldumst við eins og annað fólk og núna er staðan líka orðin sú að ungt fólk veigrar sér við að fara í doktorsnám vegna þess að launin eru lág,“ segir Ragna.
„Það er mýta að við séum hálaunastétt“
Launin hafa ekki haldið í við sambærilegar starfsstéttir. Prófessorar vinna að meðtaltali 51 klukkustund í viku og launin endurspegla það ekki, að sögn Rögnu. Hún segir að nú þegar framhaldsskólakennarar eru búnir að skrifa undir nýja kjarasamninga séu þeir komnir með hærri meðalheildarlaun en háskólakennarar, sem þó eru með doktorsgráðu. Samanborið við aðrar kennarastéttir er þó háskólafólkið líka með rannsókna- og stjórnunarskyldu sem ekki eigi við um aðra, auk þess sem gerð er krafa til háskólakennara að þeir komi sérfræðiþekkingu sinni á framfæri við almenning, en það er ólaunað.
Ragna bendir á að kjarasamningar prófessora eru enn lausir og að ríkið hafi engan áhuga sýnt á því að bæta kjör þeirra. „Það er mýta að við séum hálaunastétt,“ segir hún.
Algengt að nota frítíma í vinnutengd verkefni
Mjög algengt er að kennarar á háskólastigi þurfi að nota frítíma sinn um kvöld, helgar og í sumarleyfum, jóla- og páskaleyfum í vinnutengd verkefni, s.s. yfirferð prófa og verkefna og rannsóknir og skrif vísindagreina. Félag prófessora og Félag háskólakennara hafa gert kannanir sem staðfesta þetta að sögn Rögnu. Yfir áttatíu prósent segjast taka tölvuna með sér í frí til að klára verkefni í vinnunni. „Eftir sem áður fáum við ekki greidda yfirvinnu á lögbundnum yfirvinnutaxta heldur á dagvinnutaxta.“
Kulnunareinkennin sem sjónir
beinast að geta verið einbeitingarskortur, örmögnun, minnisleysi og skyn-, hjartsláttar- og meltingartruflanir o.fl., sem afleiðing af langvarandi vinnuálagi og ofvirkni streitukerfa líkamans. Verði þau mikil og langvinn skapast hætta á svonefndri kulnunarröskun.
Sjöfaldur ábati þjóðar af starfi háskólanna
Ragna tekur fram að mikilvægt sé að gera greinarmun á því að vera greindur með kulnunarröskun og að vera með kulnunareinkenni.
„Ég vil ekki halda því fram, eins og einhverjir hafa gert án þess að kynna sér kannski efnið nægilega vel, að 40% okkar fólks séu í kulnun. Það er rangt að túlka þetta þannig en 40% eru með það mikil eða mjög mikil einkenni að þau gætu endað í kulnun og þau sem eru með mestu einkennin eru líklega komin þangað nú þegar,“ segir hún.
Spurð hvað sé helst til ráða segir Ragna að nú sé lag en koma verði í ljós hvort ríkisstjórnin stendur við stóru loforðin um úrbætur.
„Ef unga fólkið okkar hefur ekki lengur áhuga á að fara í doktorsnám þá erum við ekki samkeppnishæf þjóð. Ábati hverrar þjóðar af háskólum er sjöfaldur miðað við kostnaðinn. Hver króna skilar sér sjöfalt út í samfélagið,“ segir Ragna Benedikta að lokum.
Ítarlegar rannsóknir
Fyrsta rannsóknin á tíðni kulnunareinkenna meðal starfsfólks í háskólum var gerð á árinu 2022.
Könnun var lögð fyrir félaga í Félagi háskólanennara og Félagi prófessora í ríkisháskólum.
Í framhaldi af því hefur Ragna gert aðra og víðtækari könnun meðal háskólakennara.
Gagnasöfnun er lokið í rannsókninni sem núna stendur yfir og er úrvinnsla í gangi.
Niðurstöður hennar staðfesta að ástandið er a.m.k. enn jafn slæmt og kom í ljós í fyrstu könnuninni.
Í ljós kom að konur og yngri svarendur mælast með tíðari einkenni kulnunar en karlar og eldri svarendur.