Fyrir rás viðburðanna lentu Íslendingar undir stjórn Danakonungs árið 1380, þegar Danakonungur, Ólafur Hákonarson, þá tíu ára, var kjörinn konungur Noregs. Móðir Ólafs, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, var ríkisstjóri

Fyrir rás viðburðanna lentu Íslendingar undir stjórn Danakonungs árið 1380, þegar Danakonungur, Ólafur Hákonarson, þá tíu ára, var kjörinn konungur Noregs. Móðir Ólafs, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, var ríkisstjóri. En þegar Ólafur lést óvænt árið 1387 var úr vöndu að ráða. Margrét ákvað árið 1389 að ættleiða eina afkomanda föður síns á lífi, hinn sjö ára svein Bugislav af Pommern. Hann skipti þá um nafn, kallaðist Eiríkur og fluttist norður til Danmerkur. Varð hann konungur Noregs (og Íslands) árið 1389, konungur Danmerkur árið 1396 og Svíþjóðar sama ár.

Þótt Eiríkur væri konungur stýrði Margrét ömmusystir hans ríkjum til dauðadags árið 1412. Sem konungur varð Eiríkur helst frægur fyrir að koma á Eyrarsundstollinum árið 1429. Urðu öll skip sem fóru um Eyrarsund að koma við í Helsingjaeyri og greiða toll af farmi sínum. Ella voru þau skotin í kaf með fallbyssum frá Krónborg. Margt varð Eiríki mótdrægt og var hann settur af í Svíþjóð og Danmörku árið 1339 og í Noregi ári síðar. Hann fór til eyjunnar Gotlands og lifði næstu tíu árin á sjóránum. Þá vaknar forvitnileg spurning: Hvaða munur var á að leggja með Eyrarsundstollinum kostnað á skip sem fóru um Eyrarsund og leggja með sjóránum kostnað á skip sem fóru um Eystrasalt? Það er gömul regla að skatta skuli leggja á með samþykki réttkjörinna fulltrúa (e. no taxation without representation). Sú regla átti svo sannarlega ekki við um Eyrarsundstollinn, sem var innheimtur með hótunum um ofbeldi. Hann var síðan óhagkvæmur, því að hann dró úr alþjóðaviðskiptum. Verður mér í þessu sambandi hugsað til enska heimspekingsins Gertrude Anscombe, sem sagði að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og bófafélögum sem byðu „vernd“ gegn gjaldi.

Eini munurinn á tollheimtu Eiríks og sjóránum er, sýnist mér, að tollheimtan var fyrirsjáanleg og eftir föstum reglum. Með öðrum orðum var munurinn sá að Eyrarsundstollurinn var löghelgað sjórán.