Því miður les ég talsvert minna núna en þegar ég var yngri. En ég hef það þó fyrir reglu að vera alltaf með a.m.k. eina bók á náttborðinu. Núna er það nýjasta bók Jóns Kalmans, hún lofar góðu eins og við var að búast. Mín uppáhaldsbók eftir hann er Fiskarnir hafa enga fætur, ég hámlas hana á einum sólarhring. Gat ekki hætt. Það gerist því miður sjaldan núorðið.
Bróðir minn Ljónshjarta er uppáhaldsbókin mín, ég hef lesið hana einn og sjálfur nokkrum sinnum og líka fyrir börnin mín. Felli alltaf tár á sömu blaðsíðunni. Dásamleg bók. Ég las í raun allt sem var rétt að mér þegar ég var barn, nema Handbók bænda og Þórberg Þórðarson. En ég reyndi.
Frank og Jói voru í miklu uppáhaldi, ég las þær bækur allar spjaldanna á milli og svo auðvitað myndasögubækur; Sval og Val, Ástrík og Steinrík og fleira frábært stöff. Svo færði ég mig yfir í unglingabækurnar, man best eftir bókunum um píanóleikarann Patrick; Sautjánda sumar Patricks, Patrick og Rut og Erfingi Patricks. Mig langaði að verða eins og Patrick, dulur og hæfileikaríkur. Ég náði ágætum tökum á duldinni.
Ég las líka slatta af ljóðum, Bubbi Morthens kveikti til dæmis áhuga minn á Snorra Hjartarsyni sem pabbi átti uppi í hillu. Svo las maður auðvitað Guðberg, Einar Má, Guðrúnu Helgadóttur og Þórarin Eldjárn. Þau eru öll uppáhalds.
Á tímabili var ég sólginn í ævisögur íþrótta- og tónlistarfólks, en sá áhugi hefur dvínað. Eins las ég slatta af sögulegum bókmenntum, sérstaklega um lífið handan járntjaldsins sem ég kynntist örlítið af eigin raun á unglingsárunum.
Ég set mér það markmið á hverju ári að lesa meira, en því miður gengur það brösuglega. En það er enn þá von. Lifi bókin.