Skáldsagan Orbital eftir Samönthu Harvey gerist í geimstöð á braut umhverfis jörðu. Í bókinni eru ljóðrænar lýsingar á jörðinni, sem blasir við geimförunum, og hvernig fjarlægðin frá lífinu niðri á henni hefur áhrif á þá. Geimfararnir eru líka í stöðugri líkamsrækt til að vinna á móti rýrnun vöðva og beina í þyngdarleysinu.
Landnám í geimnum er komið rækilega á dagskrá. Hjá Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, er horft til þess að fara til Mars. Auðkýfingarnir Elon Musk og Jeff Bezos eru líka með augun á að nema land á Mars eða smíða feiknlegar geimstöðvar og í innsetningarræðu sinni talaði Donald Trump Bandaríkjaforseti um að senda menn til Mars og stinga bandaríska fánanum niður á yfirborði reikistjörnunnar.
Það myndi þýða að maðurinn færi lengra út í geim en hann hefur áður gert og dveldi lengur fjarri jörðunni en til þessa. En geimferðir eru ekki hollar fyrir manninn.
Bandaríski geimfarinn Scott Kelly sneri aftur til jarðar ásamt rússnesku geimförunum Míkhaíl Korníenko og Sergei Volkov í mars árið 2016. Fáir höfðu verið lengur í geimnum en hann. Kelly hafði farið í fjórar geimferðir og verið alls 520 daga í geimnum. Í síðustu ferðinni var hann rúmt ár í Alþjóðlegu geimstöðinni.
Áhrif á heilsu vel þekkt
Kelly sagði í viðtali við tímaritið New Yorker, sem birtist í febrúar, að í hvert skipti sem hann sneri aftur til jarðar hefðu einkennin verið erfiðari viðureignar. er hann kom aftur heim til Houston fann hann fyrir ógleði og svima. Þyngdarafl jarðar varð til þess að hann verkjaði í liðina og fann fyrir óþægilegum þrýstingi við þá einföldu athöfn að sitja í stól. Hann fann fyrir þjakandi þreytu.
Vísindamenn hafa lengi vitað af ýmsum áhrifum geimferða á heilsuna. Í þyngdarleysi lengist mænan og vöðvar og bein rýrna. Kelly hafði lengst um sex sentimetra og það getur víst verið mjög sársaukafullt þegar teygist á mænunni í þyngdarleysinu. Hann fann fyrir áður óþekktum einkennum. Þegar hann stóð upp streymdi blóðið að því er virtist niður í fæturna og þeir bólgnuðu upp. Hann fékk útbrot á hálsi, baki og fótum.
Kelly á tvíburabróður, sem heitir Mark Kelly og er öldungadeildarþingmaður fyrir Arizona og fyrrverandi geimfari. Þeir eru eineggja og samþykktu að taka þátt í rannsókn á áhrifum geimferða á líkamann.
Í greininni í New Yorker kemur fram að áttatíu vísindamenn frá tólf háskólum hafi fylgst með Scott Kelly fyrir ferðina, meðan á henni stóð og á eftir. Andlegri getu Scotts hafði hrakað. Hann var lengur að hugsa en áður og hugsunin ónákvæmari. Þá ruku lífmarkar, sem segja til um bólgur, upp í blóði hans og voru 1.000% yfir því sem er eðlilegt. Það er til marks um öfgakennd viðbrögð við álagi eða stressi.
Sjón hans hrakaði einnig í geimferðinni. Veggirnir í hálsæðum hans höfðu þykknað og bólgnað. Prótein, sem venjulega finnast aðeins í heilanum, fundust í blóðrásinni, sem benti til þess að varnarveggurinn við heilann hefði gefið sig.
Virðast hraða öldrun
Þá fundust einnig genabreytingar. Tjáning 9.000 litninga hafði breyst og sumar breytingarnar gætu aukið hættu á krabbameini og haft áhrif á ónæmiskerfið. Flestar þessara breytinga gengu til baka, en ekki allar. Oddhulsurnar eða telómerarnir á litningum Kellys höfðu lengst í geimnum. Oddhulsurnar styttast eftir því sem við eldumst. Þegar hann sneri aftur styttust þær hins vegar og urðu styttri en þegar hann fór út í geim. Virðast geimferðir því hraða öldrunarferlinu.
Um 700 manns hafa farið út í geim. Flestir eru frekar ungir og hraustir karlmenn. Úrtakið til rannsókna er því ekki stórt. Það er fyrst nú að farið er að rannsaka ýmis áhrif geimferða á manninn. Til dæmis hefur komið í ljós að herpes-sýkingar taka við sér á ný í geimnum og virkni ákveðinna lyfja minnkar. Þá hefur það áhrif á blóðflæðið í líkamanum að vera við því sem næst þyngdarleysi eða það sem kallað er örþyngdarafl. Blóð streymir í auknum mæli upp í háls og höfuð. Æðakerfið þar er ekki gert fyrir slíkt blóðflæði og það eykur líkur á blóðtöppum.
Geimferðir hafa áhrif á uppbyggingu heilans. Við örþyngdarafl flýtur heilinn upp og þrengir að uppi við krúnuna á hauskúpunni, sem ýtir undir bólgur og leiðir til þrýstings í heilabúinu.
Þá virðast lífmarkar, sem hafa verið tengdir við heilahrörnunarsjúkdóma, hækka verulega eftir langar geimferðir.
Vísindamenn telja að þessi áhrif gangi sennilega að miklu leyti til baka, en þó ekki öll.
Þótt nokkur hundruð manns hafi farið út í geim hafa aðeins örfáir farið lengra en 2.000 km frá yfirborði jarðar. Innan þeirra er geislun vissulega meiri en á yfirborði jarðar, en mun minni en þegar lengra er farið út í geim. Þegar Scott Kelly var á braut í kringum jörðu varð hann fyrir geislun, sem jafnast á við fjórar röntgenmyndatökur á brjóstholi á dag. Geimfari á leið til Mars yrði væntanlega fyrir sexfaldri þeirri geislun.
Á Mars er meiri geislun en á jörðinni og þyngdaraflið minna. Það er hægt að verja manninn fyrir geislun en hún torveldar landnám á Mars og hvaða áhrif mun minna þyngdarafl hafa á vöðva og bein?
Í vísindaskáldskap eru geimferðir eins og sjálfsagt framhald á því að fljúga milli landa á jörðu, en málið er ekki svo einfalt.