Guðmundur í skipstjórastólnum. Eins og við er að búast eru öll tæki af nýjustu og bestu gerð og verður gaman að sjá hvernig DP-kerfið mun auðvelda rannsóknarstörfin.
Guðmundur í skipstjórastólnum. Eins og við er að búast eru öll tæki af nýjustu og bestu gerð og verður gaman að sjá hvernig DP-kerfið mun auðvelda rannsóknarstörfin. — Ljósmynd/Hafró
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Þ. Sigurðsson var skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni HF 30 og mun stýra hinu nýja skipi, Þórunni Þórðardóttur HF 300. Hann tekur undir að viss eftirsjá sé í gamla skipinu en það var samt komið til ára sinna og þörf á endurnýjun

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Guðmundur Þ. Sigurðsson var skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni HF 30 og mun stýra hinu nýja skipi, Þórunni Þórðardóttur HF 300. Hann tekur undir að viss eftirsjá sé í gamla skipinu en það var samt komið til ára sinna og þörf á endurnýjun.

Bjarni Sæmundsson var smíðaður í Þýskalandi árið 1970 og afhentur Hafrannsóknastofnun í desember sama ár. „Skipið var því orðið 54 ára gamalt og þó að það hafi staðið fyrir sínu var tímabært að láta smíða nýtt skip, en munurinn á nýja skipinu og því gamla er ekki síst að aðstaðan fyrir vísindamennina um borð batnar umtalsvert,“ segir Guðmundur og bætir við að gamla rannsóknarskipið hafi verið með elstu skipum í íslenska flotanum.

Líkt og fjölmiðlar greindu frá var gamla skipið auglýst til sölu í desember síðastliðnum. Ekki leið á löngu þar til tilboð barst frá norskum kaupanda og mun fleyið eiga þar framhaldslíf.

Guðmundur var í áhöfn Bjarna Sæmundssonar í tveimur lotum, samtals í 24 ár, og ber hann gamla skipinu vel söguna. „Það hafa alls konar jaxlar starfað um borð í þessu skipi, og sumir þeirra í marga áratugi. Ber þeim öllum saman um að Bjarni Sæmundsson hafi verið einstaklega vel heppnað skip.“

Blaðamaður náði tali af Guðmundi þegar verið var að undirbúa för nýja skipsins frá skipasmíðastöð Armon á Spáni og hafði hann þegar fengið að kynnast nýja fleyinu ágætlega. „Við eigum eftir að sjá hvernig skipið reynist á úfnum sjó en reynslusigling hér út á flóann gekk vel. Hæfni skipsins við krefjandi aðstæður kemur betur í ljós síðar.“

Verður sérstaklega gaman að sjá hve sparneytið nýja skipið verður en Guðmundur bendir á að rannsóknarskipin séu mikið á ferðinni og til mikils að vinna að nota sem minnsta olíu í rannsóknarleiðöngrunum.

Góður andi um borð

Auk betri aðstöðu fyrir hvers kyns vísindastörf segir Guðmundur að vistarverurnar um borð í nýja skipinu séu töluvert þægilegri en á því gamla. „Áhöfnin mun síður þurfa að tvímenna í káetunum og alla jafna ættu allir að vera með sér klefa og sturtu. Einnig er líkamsræktaraðstaða í skipinu, sem var reyndar líka komin í Bjarna, og af öðrum þægindum má nefna sánabað, setustofu, notalegan borðsal og svo eru snjallsjónvörp í öllum herbergjum.“

Guðmundur segir það skipta miklu fyrir starfsandann að hafa vistarverur áhafnarinnar þægilegar enda geta rannsóknartúrarnir stundum verið langir. „Stundum taka rannsóknirnar bara einn dag, en algengt er að hver ferð vari í fimm til tíu daga og stundum að rannsóknarskipin séu á sjó í upp undir 23 daga í senn. Munar þá um að geta t.d. hvílt sig í gufubaði, slappað vel af og safnað kröftum fyrir næstu vakt.“

Áhöfnin er tvískipt: annars vegar eru sjómennirnir sem annast sjálfar veiðarnar og hins vegar vísindamennirnir sem taka við aflanum, telja hann, greina og skoða í þaula. Guðmundur segir þessa blöndu skapa mjög skemmtilegt andrúmsloft um borð og hann bætir við að á Bjarna Sæmundssyni hafi konur oft verið í meirihluta rannsóknarfólks um borð í skipinu. „Samsetning hópsins þýðir að líflegar umræður kvikna á meðal fólks og dvölin um borð allt öðruvísi en fólk á að venjast á hefðbundnum fiskveiðiskipum.“

Tölva getur haldið skipinu kyrru

Af nýjungum um borð nefnir Guðmundur sérstaklega svokallað DP-kerfi sem stendur fyrir „dynamic positioning,“ en Freyja og Þór, skip Landhelgisgæslunnar, hafa sams konar búnað. Um er að ræða fullkomna tækni sem aðstoðar skipstjórann við að halda skipinu kyrru á tilteknum stað. „Þessu kerfi er stjórnað af tölvu sem tengd er við allar skrúfur skipsins; aðalskrúfuna, framdrifsskrúfu, hliðarskrúfu og einnig stýri, og virkjar hverja skrúfu sjálfkrafa til að halda skipinu sem næst fyrirframgefnu hniti, eða ferðast af mikilli nákvæmni eftir leiðarlínu. Það fer eftir vindum og sjólagi hversu nákvæmlega þetta kerfi getur stillt skipið af en við góðar aðstæður eru vikmörkin jafnvel ekki nema 30 til 40 sentimetrar.“

Eins og gefur að skilja stórbætir þetta stjórnina á skipinu og þýðir að vísindamennirnir eiga auðveldara með að vinna störf sín. „Við þurfum t.d. að sækja baujur og vinna með myndavélar sem látnar eru síga niður í hafið og hjálpar DP-kerfið mikið við þá vinnu og hjálpar til að auka nákvæmni við rannsóknirnar, s.s. þegar unnið er að því að mynda lífverur neðansjávar og kortleggja sjávarbotninn.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson