Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Ekkert verður af því að þeim aflaheimildum í loðnu sem komu í hlut Norðmanna þegar aflamark ársins var ákveðið, verði úthlutað til íslenskra útgerða. Um er að ræða 479 tonn. Þess í stað líta stjórnvöld svo á að skuld Íslendinga við Norðmenn sem téðum kvóta var ætlað að mæta sé þar með að fullu greidd, enda þótt Norðmenn eigi þess engan kost að veiða umrædd 479 tonn af loðnu, þar sem þeir hafa ekki heimild til loðnuveiða innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.
Þessi er niðurstaða Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, eftir að farið var yfir málið í ráðuneytinu. Staðfesti hún það í samtali við Morgunblaðið.
Skuldin við Norðmenn er þannig til komin að síðast þegar loðna var veidd hér við land, snemma árs 2023, veiddu íslensku uppsjávarveiðiskipin 1.915 tonn af loðnu umfram þann kvóta sem kom í hlut íslensku útgerðanna. Þegar þannig háttar til ber að draga þann afla frá aflamarki næstu vertíðar á eftir, en hlutdeild Norðmanna í þeim potti var þessi 479 tonn.
Samkvæmt framansögðu verður þessi loðna ekki veidd, en skuld Íslands eigi að síður uppgreidd, enda þótt Norðmenn geti ekki gert sér hana að góðu.