Sigmar Ólafur Maríusson fæddist 8. mars 1935 í Hvammi í Þistilfirði í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann ólst upp í Þistilfirði þar sem hann átti heimili fram yfir tvítugt en hann missti móður sína aðeins sjö ára gamall.
Sigmar sótti farskóla nokkur ár fram að fermingu og stundaði almenn bústörf eins og tíðkaðist þá um ungt fólk. Árið 1953 hóf hann nám við Laugaskóla í Reykjadal þar sem hann lærði meðal annars húsgagnasmíði.
Sigmar vann við vegagerð og byggingarframkvæmdir á Heiðarfjalli frá sumri 1953, en þar voru mikil umsvif á vegum bandaríska hersins. Hann fór á vertíð til Vestmannaeyja snemma árs 1956 en kom aftur norður til starfa á Heiðarfjalli um miðjan júlí sama ár. Þá kynntist hann ungri konu sem starfaði þar í mötuneytinu og þau felldu hugi saman, þetta var Þórdís Jóhannsdóttir eða Dísa eins og hún var alltaf kölluð.
Á þessum tíma átti Sigmar Willys-jeppa og varð í nóvember við ósk vinnufélaga um að sinna fyrir sig erindi á bílnum, það var auðsótt. Ferðin reyndist örlagarík því að í myrkrinu þurfti Sigmar að fara út og hella vatni á vatnskassann en þar sem hann stóð fyrir framan bílinn kom að annar eins jeppi og klemmdist Sigmar á milli þeirra. Höggið var þungt og stuðarar bílsins lentu neðan við hnén. Vinstri fóturinn fór strax af en hinn mölbrotnaði. Á Þórshöfn starfaði þá ungur læknir, Baldur Jónsson, ásamt konu sinni Sigríði Oddnýju Axelsdóttur hjúkrunarkonu. Þau hjónin björguðu lífi Sigmars en vegna veðurs komst Sigmar ekki til Akureyrar fyrr en tæpum tveimur sólarhringum eftir slysið og þar var hægri fóturinn tekinn af. Þegar þetta gerðist átti unga parið von á sínu fyrsta barni. Dvölin á Akureyrarspítala varði í 11 mánuði.
Sigmar fór í endurhæfingu til Danmerkur, þar sem hann dvaldi í 100 daga. Þegar heim kom gat hann gengið á gervifótum og notaði þá í um 12 ár, eða þar til Össur hf. tók til starfa á Íslandi; fætur frá Össuri notaði hann svo með góðum árangri í um 40 ár. Sigmar fékk fyrsta sérútbúna bílinn 1958 og lærði að keyra upp á nýtt með því að fara snemma af stað á morgnana og æfa sig þegar fáir voru á ferli. Bíllinn færði honum aftur mikilvægt sjálfstæði og bíltúrar síðan alltaf í eftirlæti hjá honum.
Ekki var ljóst hvað framtíðin bæri í skauti sér en þegar Sigmar sá litla auglýsingu í blaði þar sem auglýst var eftir nema í gullsmíði var framtíðin ráðin. Hann fékk stöðu hjá Halldóri Sigurðssyni á Skólavörðustíg 2 og lauk sveinsprófi 1962. Fyrirtækið Modelskartgripi stofnaði Sigmar 1964 ásamt Pálma Degi Jónssyni og ráku þeir það saman í 10 ár, eða þar til Pálmi fór í önnur verkefni. Sérstaða Sigmars í gullsmíðinni er sérsmíði af ýmsu tagi fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Sem meistari í gullsmíði hefur hann haft sex nema. Verkstæði Modelskartgripa flutti hann í Kópavog 1996 eftir 32 ár á Hverfisgötu. Honum til ánægju fylgdu honum þangað bæði viðskiptavinir sem og þeir fjölmörgu vinir sem höfðu vanið komur sínar til hans í spjall og kaffi. Árið 2004 var Sigmar gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra gullsmiða.
Í um 30 ár var helsta áhugamál Sigmars söfnun og varðveisla gamalla hluta og verkstæði hans á Hverfisgötu hlaðið alþýðuhlutum upp um alla veggi. Þetta safn taldi um 1.000 hluti árið 2000 og var þá skrásett í gagnasafn Þjóðminjasafns Íslands og gefið þangað en um skrásetningu sáu Sigmar og dóttir hans Þórdís Halla. Að því loknu voru munirnir fluttir norður á Langanes í gamla prestsetrið á Sauðanesi sem hafði verið endurgert og sá Aðalsteinn Maríusson bróðir Sigmars um múrverkið á húsinu, sem nú gegnir mikilvægu hlutverki í menningartengdri ferðamennsku og eru safngripir Sigmars meðal annarra þar til sýnis. Vatnslitamálun hefur í áratugi verið eitt af áhugamálunum og það stundar hann enn.
Sigmar fékk riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1996 og gullmerki Sjálfsbjargar 1998, hvoru tveggja fyrir störf sín að málefnum fatlaðra en hann sat m.a. um tíma í stjórn Sjálfsbjargar. Hann æfði íþróttir með Íþróttafélagi fatlaðra, æfði og keppti í lyftingum og keppti 1980 fyrir hönd félagsins á Ólympíumóti fatlaðra í Hollandi.
„Ég gekk með gervifætur í 50 ár, lengur að ég held en nokkur annar á Íslandi. Ég varð að standa upp á höndunum, milljón sinnum á dag, þegar ég var með búðina í bænum. Þetta tók á axlirnar og til að spara viðgerðina nota ég rafmagnsstólinn. Við þetta styrktist ég og ákvað að fara í lyftingarnar.“
Sigmar heldur upp á daginn með fjölskyldu og vinum í Gjábakka milli 15 og 18 í dag.
Fjölskylda
Eiginkona Sigmars var Þórdís Jóhannsdóttir, f. 21.3. 1937, d. 3.1. 1982, húsmóðir. Foreldrar Þórdísar voru hjónin Berglaug Sigurðardóttir, f. 11.11. 1915, d. 2.4. 2002, og Jóhann Gunnlaugsson, f. 28.3. 1901, d. 3.11. 1980, bændur á Eiði á Langanesi.
Börn Sigmars og Þórdísar: 1) Sigrún Ása Sigmarsdóttir, upplýsingafræðingur og listakona, f. 10.6. 1957, búsett í Kópavogi, maki: Einar Arnór Eyjólfsson, f. 6.6. 1956, d. 5.9. 2015; 2) Berglaug Selma Sigmarsdóttir Schmidt, gullsmiður og tómstundafræðingur, f. 29.6. 1959, búsett Í Þýskalandi; 3) Svanur Mar Sigmarsson, f. 21.8. 1963, d. 29.6. 1964; 4) Hanna María Sigmarsdóttir Luden fatahönnuður, f. 7.8. 1965, búsett í Bandaríkjunum, maki: Robert E. Luden, f. 11.9. 1960, d. 28.5. 2013. 5) Þórdís Halla Sigmarsdóttir, kennari og umhverfissiðfræðingur, f. 18.9. 1970, búsett á Reykhólum, maki: Hrólfur Ingi S. Eggertsson, f. 16.6 1965.
Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Sigmar hófu sambúð sem þau slitu síðan 1996. Dóttir þeirra er 5) Áslaug Sigmarsdóttir, f. 21.3. 1984, hún heldur heimili með föður sínum.
Afkomendur Sigmars eru 31.
Foreldrar Sigmars voru Sigrún Aðalsteinsdóttir, f. 6.3. 1906, d. 29.6. 1942, húsfreyja á Ytri-Brekkum á Langanesi, og Maríus Jósafatsson, f. 10.8. 1910, d. 10.7. 1980, bóndi á Ytri-Brekkum og Hallgilsstöðum á Langanesi. Sigrún var ekkja þegar þau Maríus kynntust og átti fyrir dótturina Jennýju Sólveigu Ólafsdóttur. Saman eignuðust Maríus og Sigrún auk Sigm ars þau Aðalstein Jóhann og Ólöfu Sigfríði. Seinni kona Maríusar var Fjóla Friðjónsdóttir og dóttir þeirra Ólöf Friðný.