Kvikmyndir
helgi snær
sigurðsson
Raunverulegur sársauki er bein þýðing á titli þessarar grátbroslegu kvikmyndar en nær þó ekki hinni tvíræðu merkingu hans á ensku. Titillinn er nefnilega glúrinn og sameinar tvennt, annars vegar raunverulegan sársauka og hins vegar eina af aðalpersónum myndarinnar sem er óþolandi, „pain in the arse“, eins og enskumælandi myndu orða það. Umfjöllunarefni myndarinnar er líka þjáning mannsins í sínum ýmsu og ólíku birtingarmyndum, andleg þjáning á móti líkamlegri meðal annars. Helförin kemur við sögu og tvinnast saman við andlegar kvalir aðalpersónanna, tveggja manna af gyðingaættum, frændanna Benji (Kieran Culkin) og David Kaplan (Jesse Eisenberg). Annar virðist þjást af einhvers konar andlegum veikindum en hinn ekki. Fljótlega kemur þó í ljós að það er fjarri sanni, sá sem virðist betur á sig kominn er það alls ekki og í mun verra ástandi.
Frændurnir hittast á flugvelli í byrjun myndar og er förinni heitið til Póllands þar sem þeir ætla að kanna rætur sínar og heiðra um leið minningu nýlátinnar ömmu sinnar. Frá fyrstu mínútum sést hversu ólíkir frændurnir eru, David ein taugahrúga, orðinn seinn í flug og reynir hvað eftir annað að ná í frænda sinn í síma án árangurs. Benji situr pollrólegur á flugvellinum og er lítið að spá í hvar frændi hans sé.
Þegar til Póllands er komið er Benji ekki lengi að vefja sér jónu og reykja hana, David til nokkurrar furðu og jafnvel geðshræringar. Þeir hitta svo skömmu síðar ferðafélaga sína, fólk í svipuðum erindagjörðum, fólk sem hyggst kanna rætur sínar. Hópurinn leggur af stað með lest og á ferðalaginu kemur ýmislegt upp á, bæði dramatískt, skondið og óvænt. Ljósi er varpað á fortíð Davids og Benjis, hvað sameinar þá frændur annars vegar og hvað skilur þá að, hins vegar.
Vel að Óskarnum kominn
Þessi kvikmynd hefur hlotið nokkurn fjölda verðlauna og viðurkenninga, nú síðast Óskarsverðlaunin fyrir besta leikara í aukahlutverki, Kieran Culkin. Það er nokkuð skrítið því Culkin er augljóslega í einu aðalhlutverka en ekki aukahlutverki. Eitthvað mun það fara eftir líkum á verðlaunum hvort leikarar eru tilnefndir fyrir aðal- eða aukahlutverk og hefur Culkin greinilega þótt eiga betri möguleika sem aukaleikari.
En hvað um það, verðlaun hlaut hann og er vel að þeim kominn. Culkin hefur hlotið fleiri verðlaun fyrir leik sinn í myndinni, m.a. BAFTA og mun eflaust hljóta fleiri. Leikur hans er enda eftirminnilegur, snertir bæði hjartastrengi og kitlar hláturtaugar og Culkin tekst að auki að vera gjörsamlega óþolandi. En maður skilur líka vel að Benji heilli það ólíka fólk sem hann hittir fyrir á ferðalaginu, meira að segja það fólk sem hann sýnir dónaskap og ósanngirni. David, leikinn af leikstjóra myndarinnar, Jesse Eisenberg, er taugaveiklaður fjölskyldumaður sem veit varla hvernig hann á að vera nærri frændanum sem virðist oftar en ekki óútreiknanlegur.
Einn helsti kostur kvikmyndarinnar er sveigjanleiki hennar í frásögninni. Hún fer lipurlega á milli persónulegra frásagna af aðalpersónunum tveimur og hryllingssagna af útrýmingu nasista á gyðingum. Eisenberg gætir þess að dvelja ekki of lengi við þessa ólíku kafla og léttir á þungu andrúmslofti þegar þess er þörf, oft með spaugilegum uppákomum. Heimsókn persóna í fyrrverandi útrýmingarbúðir í Póllandi, Majdanek, er stutt en afar áhrifamikil í myndinni enda tekin á hinum raunverulega stað, eins og fram hefur komið í viðtölum við leikstjórann.
Í seinni hluta myndarinnar er atriði á veitingastað þar sem David opnar sig fyrir samferðafólki sínu, á meðan frændi hans bregður sér á salernið. David spyr hvort allir menn þjáist ekki með einum eða öðrum hætti. Það kann að þykja heldur einföld spurning og svarið augljóslega, jú. Allir þjást einhvern tíma, það er jú gangur lífsins. Sumir þó töluvert meira en aðrir.
Allen-legur Eisenberg
Eisenberg minnir um margt, og það ekki í fyrsta sinn, á leikstjórann Woody Allen í túlkun sinni á taugaveikluðum og óðamála karlmanni og af viðtölum að dæma byggðist handritið að hluta á eigin reynslu. Culkin fellur líka eins og flís við rass í hlutverk Benjis og maður fær á tilfinninguna að þar sé leikarinn sjálfur kominn en ekki skálduð persóna.
Tengsl þessara tveggja manna eru límið í sögunni, ævilöng kynni þeirra í gengum súrt og sætt. Með aldrinum hefur myndast gjá á milli þeirra og ástæður þess koma smám saman upp úr kafinu. Samskipti þeirra við aðra í myndinni sýna vel hversu ólíkir þeir eru. Benji er ágengur og stundum vægðarlaus en David hlédrægur og öllu litlausari. Benji áttar sig á hversu skrítið það er að vera á fyrsta farrými að fræðast um helförina, algjörlega laus við nokkra þjáningu, en David virðist standa á sama um það.
Tónlist er nokkuð áberandi í myndinni, að mestu píanóverk eftir Copin sem falla vel að myndmálinu, fallegu landslagi í Póllandi og götulífi, oft mannlausu sem gefur skemmtilegan póstkortablæ. Tónlistin er hvorki of né van, hún er mátuleg og í sorglegustu og dramatísku atriðunum engin, sem gefur þeim aukna vigt. Einna áhrifamest er þögnin í þeim atriðum sem eiga sér stað í fyrrverandi útrýmingarbúðum í Majdanek og sú sem kemur í lok myndar.
A Real Pain er stutt kvikmynd sem skilur mikið eftir sig, borin uppi af vel skrifuðu handriti og vönduðum leikurum.