Ari Hermann Einarsson fæddist 22. apríl 1938. Hann lést 22. febrúar 2025.
Útför fór fram 7. mars 2025.
Elsku hjartans afi minn.
Það er ekki hægt að koma í orð sorginni sem fylgir því að skrifa minningargrein um þig. Ég sakna þín svo sárt. Hvernig á að vera hægt að skrifa stutta minningargrein um jafn merkilegan mann og þig?
Þeir sem þekktu þig vita að það er ekki hægt.
Það eina sem hægt er að gera er að lýsa því þakklæti sem fylgdi því að eiga þig að. Vegna þess að í þessari miklu sorg sem hvílir á mér þá fyllist ég samt þakklæti, þakklæti fyrir þig.
Ég er þakklát fyrir allan tímann sem við fengum saman, 36 ár er alveg hellingur.
Ég er þakklát fyrir allan hláturinn.
Ég er þakklát fyrir öll ferðalögin.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að eyða svo miklum tíma með ykkur ömmu uppi á heiði.
Ég er þakklát fyrir að þú passaðir að ég sæi ekki lambið sem hundurinn drap.
Ég er þakklát fyrir allt spjallið okkar um allt milli himins og jarðar.
Ég er þakklát fyrir allt sem þú kenndir mér, sem var svo ótrúlega margt.
Ég er þakklát fyrir stuðninginn frá þér, í gegnum súrt og sætt.
Ég er þakklát fyrir að þú sýndir mér og sagðir hversu stoltur þú værir af mér.
Ég er þakklát fyrir að börnin mín hafi fengið að kynnast þér og eyða með þér tíma. Ég er þakklát fyrir að hafa alltaf haft þig í mínu horni, alltaf til staðar fyrir mig og mína.
En mest af öllu er ég þakklát fyrir að hafa getað sagt þér hversu ótrúlega mikið ég elskaði þig áður en það varð of seint.
Þessi veikindi voru ósanngjörn, þau gerðust of hratt og voru sár, fyrir alla.
Það huggar mig þó að vita að þér líður betur núna, að þú kveljist ekki meir.
Ég veit þú vakir yfir okkur.
Hvíl í friði elsku afi minn.
Við sjáumst þegar minn tími kemur.
Ester Ösp.
Ari mágur minn var hógvær og rólegur maður sem aldrei skipti skapi. Við munum hann í eldhúskróknum á Mýrarbrautinni með hálfkalt mjólkurkaffi í glasi á borðinu fyrir framan sig. Hann talaði lágt og tjáði skoðanir sínar af yfirvegun þannig að maður hlustaði þegar hann tók til máls. Vandvikni og nákvæmni var hans aðall, hvort sem það tengdist vinnu hans í félagsmálum eða í húsasmíðunum. Þannig sögðu sumir að hann væri of nákvæmur í smíðunum, hvernig svo sem það er hægt.
Sumarbústaðaferðir okkar í Munaðarnes, þegar við systkinin fórum þangað með fjölskyldum okkar, og komum okkur fyrir allt að fjórtán manns í húsi sem var með svefnplássi fyrir sjö. Þær ferðir eru ógleymanlegar. Þá var Ari alltaf með fullan kassa af kremfylltum súkkulaðidýrum í skottinu á bílnum sínum, sem hann svo útbýtti eftir gönguferðir um nágrennið. Ari var mikill keppnismaður og tók þátt í hverjum leik af fullum krafti. Allt frá því að hann var ungur maður og keppti í flestum greinum frjálsíþrótta og fram til hinsta dags er hann keppti í golfi og spilaði bridds við kunningja sína. Flestir muna eftir honum sem sjálfboðaliða á íþróttamótum í héraðinu þar sem hann mældi, skráði og hvatti keppendur til dáða. Vegna þeirra starfa sinna var hann gerður að heiðursfélaga í USAH og einnig í golfklúbbnum Ós en þar lagði hann fram mikla vinnu við uppbyggingu golfvallarins í Vatnahverfi.
Ari var húmoristi og hafði gaman af þegar við vorum að stríða honum með því að kalla hann spilAri, málAri, skaffAri og fleira sem okkur datt í hug að bæta framan við nafnið hans. Þá hló hann lágt í yfirskeggið og naut þess að vera með fjölskyldunni.
Ari og Halla nutu samvista í rúmlega sextíu ár og eignuðust þrjú börn sem hafa gefið þeim barnabörn og barnabarnabörn. Aldrei bar skugga á sambúð þeirra eins og sést á þessari vísu sem Ari gerði í tilefni af afmæli sínu:
Ævidaga fékk að njóta,
oftast nær var ferðin fín.
Bestu þakkir skal þó hljóta
elskulega konan mín!
Elsku Halla, Einar, Helga og Anna og fjölskyldan öll, við vottum ykkur okkar innilegustu samúð nú þegar þið kveðjið elskaðan eiginmann, föður og afa.
Ólafur (Óli) og Guðrún (Gunna).
Sárt er vinar að sakna.
Sorgin er djúp og hljóð.
Minningar mætar vakna.
Margar úr gleymsku rakna.
Svo var þín samfylgd góð.
Góða minning að geyma
gefur syrgjendum fró.
Til þín munu þakkir streyma.
Þér munum við ei gleyma.
Sofðu í sælli ró.
(Höf. ók.)
Látinn er góður vinur og mágur, Ari Hermann Einarsson smiður frá Móbergi í Langadal. Ari mágur, eins og við tengdafjölskyldan kölluðum hann, hvort sem Ari var tengdasonur, mágur, svili eða maður Höllu systur og frænku. Og þar sem Ari mágur var einstaklega laginn maður, bóngóður og góður smiður, golfari, ræktandi á tré og kartöflur og margt fleira fékk hann stundum stuttnefni innan fjölskyldunnar: SmíðaAri, besti golfArinn, ræktAri og fleira og allt í góðu sagt og vel tekið af Ara.
Árin okkar með Ara geyma minningar um góðar samverustundir með honum, Höllu systur og fjölskyldu, hjálpsemi hans, heiðarferðirnar, sunnudagsbíltúra og fleira en árlegar haustferðir í Munaðarnes skipa stóran sess í minningabankanum. Í mörg ár, frá um 1977, fór stórfjölskyldan á hverju hausti í eina viku í þriggja herbergja sumarhús KÍ í Munaðarnesi og allir létu sér vel líka þótt þröngt væri og börn okkar systkinanna á ólíkum aldri. Fyrir ferðirnar var gert plan yfir innkaup, hvað átti að hafa í mat og hver kæmi með hvað til að gera dvölina sem ánægjulegasta og þar kom Ari mágur sterkur inn með nýuppteknar kartöflur úr Selvíkurgarðinum og eftir kvöldmat rölti hann út í bílinn sinn og kom til baka með súkkulaðibangsa og annað sælgæti við mikinn fögnuð.
Á þessum fyrstu árum áttu Ari og Halla, og við systkinin, frekar lélega bíla, enda öll að „byggja“, og bíla sem vildu bila á skröltinu á þeirra tíma malarvegum og það var oft alveg á mörkunum að leggja í langferð, sem þá var, í Borgarfjörðinn með ung börn og vistir en það var sterk samstaða um að láta þetta ganga upp svo allir kæmust með. Oft eyddu Ari mágur, Óli bróðir og Gummi drjúgum tíma í viðgerðir á einhverjum bílnum eða við sprungin dekk en það skyggði ekki á gleðina yfir að vera saman, spila, fara í sund- og gönguferðir, í Borgarnes að versla og gera fleira skemmtilegt. Já, samveran og vináttan var öllu sterkari.
Í dag kveðjum við einstakan og góðan mann sem sárt er saknað og þökkum gjöfula vináttu Ara í okkar garð um leið og við sendum elsku Höllu Björgu systur og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur á sorgarstund.
„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.
„Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.
„Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt.
„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.
(Teri Fernandez)
Með kærri kveðju,
Þórunn Bernódusdóttir, Guðmundur J. Björnsson
og fjölskylda.
Ari H. Einarsson, heiðursfélagi og aldursforseti golfklúbbsins Óss á Blönduósi, er látinn.
Hann var einn af stofnendum klúbbsins, sem var stofnaður árið 1985. Ég byrjaði í golfinu árið 2002 með eiginkonu Ara, Höllu, en við vorum vinnufélagar. Við laumuðumst á völlinn þegar enginn sá til okkar þegar við vorum að byrja. Ég kynntist Ara vel á golfvellinum og þar var hann alltaf eitthvað að stússa. Hann var oft einn á ferðinni á bílnum með kerru aftan í, var að klippa trén og dytta að hinu og þessu. Hann lagði mikið af mörkum fyrir golfklúbbinn þótt það sæist ekki alltaf til hans. Ég veit að golfvöllurinn skipti hann miklu máli.
Við spiluðum mjög oft saman í golfmótum og ég dáðist alltaf að dugnaði hans og elju. Hann mætti í öll mót og ef hann mætti ekki var hann í sólarlöndum með Höllu sinni að ná sér í verðlaun í púttkeppnum. Hann fékk rafmagnskerru fyrir tveimur árum í jólagjöf, kominn á níræðisaldur. Geri aðrir betur. Hann viðurkenndi reyndar að þetta væri auðveldara.
Í meistaramóti fyrir nokkrum árum var leiðindaveður, kuldi, rok og rigning og nokkrir félagar drógu sig úr keppni. Miklu yngri en Ari. En hann kláraði mótið með sóma, gafst ekki upp.
Mér er einnig mjög minnisstætt þegar við vorum að spila á Húnavökumóti og hann lenti í skurði. Hann tók ekki víti, sló boltann sem endaði undir jakkanum hans. Það var mikið hlegið í hollinu.
Hann var duglegur að tína bolta á vellinum sem félagar höfðu ekki fundið þegar þeir voru að spila. Hann skilaði merktum boltum til félaga en gaf golfklúbbnum hina til að selja sem svokallaða vatnabolta, sem eru notaðir boltar. Þetta dundaði hann sér við í rólegheitum eins og allt annað sem hann gerði.
Hann tók þátt í holukeppni klúbbsins og sigraði tvisvar, orðinn áttræður. Ari var ekki högglangur en alltaf öruggur á miðri braut og púttaði mjög vel, sem tryggði honum þessa sigra. Það eru örfáir í klúbbnum sem hafa afrekað að vinna holukeppnina oftar en einu sinni.
Ég hitti hann á golfvellinum snemma síðasta sumar þar sem hann sagði mér frá veikindum sínum. Hann mætti lítið um sumarið en kom á tvö punktamót síðla sumars.
Það eru margar góðar minningar um Ara og ég á eftir að sakna hans.
Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda.
Jóhanna G. Jónasdóttir.