Sambíóin eru ekki bara að vinna með nýjustu og heitustu kvikmyndirnar, heldur lauma þau einni og einni gamalli ræmu á tjaldið inn á milli. Þannig eru í gangi þessar vikurnar Mánudagar með David Lynch, bandaríska leikstjóranum hugmyndaríka sem féll frá fyrir skemmstu.
Á morgun er röðin komin að einu af hans helstu meistaraverkum, Fílamanninum eða The Elephant Man, frá árinu 1980. „Skurðlæknir bjargar mjög afskræmdum manni sem illa er komið fram við á meðan hann er að draga fram lífið sem sirkusatriði. Á bak við hræðilegt útlit hans kemur í ljós góðviljuð, greind og fáguð manneskja,“ segir í kynningu en í helstu hlutverkum eru John Hurt, Anthony Hopkins og Anne Bancroft. Á mánudaginn eftir viku er komið að Wild at Heart frá 1990 með Nicolas Cage, Lauru Dern og Willem Defoe, og Blue Velvet frá 1986 með Kyle MacLachlan og Isabellu Rossellini verður svo sýnd 24. mars.