Reykjavíkurflugvöllur Málefni flugvallarins eru nú í umræðunni vegna vendinga í heimsmálunum.
Reykjavíkurflugvöllur Málefni flugvallarins eru nú í umræðunni vegna vendinga í heimsmálunum. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri segir Dag B. Eggertsson þingmann Samfylkingarinnar ekki fara með rétt mál í umræðum um Reykjavíkurflugvöll. Nánar tiltekið varðandi skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem kynnt var í september 2017

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri segir Dag B. Eggertsson þingmann Samfylkingarinnar ekki fara með rétt mál í umræðum um Reykjavíkurflugvöll. Nánar tiltekið varðandi skýrslu um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar sem kynnt var í september 2017.

Dagur lét umrædd ummæli falla í samtali við Morgunblaðið 5. mars en rætt var um öryggis- og varnarmál.

„Við þurfum að gera nýtt hættumat og heyra í okkar bandamönnum hvar þarfirnar eru mestar. Eitt af því sem hefur legið fyrir lengi eru hugmyndir um aukið sjúkraflug, bæði með flugvélum og þyrlum, sem gæti tengst okkar hlutverki við björgunarstörf og þannig falið í sér borgaralegan stuðning, ekki aðeins hér í Reykjavík heldur líka á Akureyri og í raun fyrir landið allt. Til þess að takast á við þetta þarf að stórefla Landhelgisgæsluna.

Átta ár frá skýrslu Þorgeirs

Það eru átta ár síðan Þorgeir Pálsson fyrrverandi flugmálastjóri setti fram skýrslu en þar sagði að brýnt væri að fjárfesta í nýjum varaflugvelli á suðvesturhorninu sem væri lykilþáttur í öryggiskerfi landsins. Þannig að það hafa ýmsar hugmyndir og greiningar verið unnar á undanförnum árum án þess að við þeim hafi verið brugðist eða tekin afstaða til þeirra,“ sagði Dagur, sem var líka spurður hvar hann teldi æskilegt að byggja nýjan flugvöll.

„Ég ætla svo sem ekki að fara að blanda umræðu um staðsetningu flugvallar í þessa umræðu enda dregur það bara athyglina frá því stóra verkefni að fara í gegnum varnarmálin, fara í gegnum okkar þátttöku í öryggiskerfinu sem herlaus þjóð og draga fram þá innviði, meðal annars þá sem lúta að fjarskiptum og netsambandi við útlönd, sem þarf að efla til að takast á við nýjar ógnir og nýja tíma. Við þurfum því miður að horfast í augu við það að það eru nýir tímar. Við erum á ákveðnum krossgötum í varnar- og öryggismálum,“ sagði Dagur í samtali við blaðið. Skal tekið fram að síðasta málsgreinin birtist nú í fyrsta sinn í blaðinu en hlutar viðtalsins birtust einnig á mbl.is.

Slíkt væri óráðsía

Þorgeir segir ónákvæmni gæta í þessum orðum Dags.

„Dagur segir að undirritaður hafi lagt til í skýrslu til samgönguráðherra árið 2017 „að brýnt væri að fjárfesta í nýjum varaflugvelli á suðvesturhorni landsins“. Slíka niðurstöðu er reyndar ekki að finna í skýrslunni þótt vissulega sé mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug tíundað og jafnframt gerð grein fyrir hvernig flugvöllur í Hvassahrauni gæti nýst sem slíkur. Engum, sem þekkir til flugvallamála, kemur til hugar að byggja flugvöll, sem hefði það eina hlutverk að vera varaflugvöllur fyrir almennt borgaralegt flug. Slíkt væri óráðsía,“ segir Þorgeir og rifjar upp skýrsluna.

Séu ekki í sömu körfu

„Meginniðurstaða framangreindrar skýrslu var sú að vegna öryggis samfélagsins yrðu tveir alþjóðlegir flugvellir að vera á suðvesturhorni landsins þannig að öll eggin væru ekki lögð í eina og sömu körfuna. Jafnframt var bent á í skýrslunni, að auk þess að vera aðalflugvöllur innanlandsflugsins væri eitt af meginhlutverkum Reykjavíkurflugvallar að vera varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll þótt stuttar flugbrautir takmörkuðu stærð þeirra flugvéla sem gætu lent þar. Þrátt fyrir þessar takmarkanir hefur Reykjavíkurflugvöllur á undanförnum árum oftast verið tilgreindur sem varaflugvöllur í millilandaflugi til landsins.

Nýr flugvöllur, sem tæki við hlutverki Reykjavíkurflugvallar, gæfi kost á að létta þessum takmörkunum sem yrði til mikilla hagsbóta fyrir flug til landsins. Fyrst og fremst yrði hann þó byggður til þess að vera miðstöð innanlandsflugs af öllu tagi, ekki síst sjúkraflugs og hvers konar leigu- og almannaflugs milli landa,“ segir Þorgeir að lokum.

Lykilþáttur í öryggiskerfinu

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur í sama streng. „Það er óþarfi að afvegaleiða umræðuna. Það er mikill misskilningur að það sé lagt til í skýrslu Þorgeirs Pálssonar fyrrverandi flugmálastjóra að brýnt sé að fjárfesta í nýjum varaflugvelli á suðvesturhorni sem væri lykilþáttur í öryggiskerfi landsins, eins og kemur fram í máli Dags. Í skýrslunni er hins vegar lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að á suðvesturhorni séu tveir millilandaflugvellir og raunar er skýrt út í skýrslunni hversu mikilvægu hlutverki Reykjavíkurflugvöllur gegnir í tengslum við öryggismál þjóðarinnar,“ segir Njáll Trausti.

Höf.: Baldur Arnarson