Ása Berglind Hjálmars- dóttir
Ása Berglind Hjálmars- dóttir
Stundum geisar stormur í lífi fólks. Það upplifa flestir á einhverjum tímapunkti, oft á þeim árum þar sem við erum að reyna að finna út úr því hver við erum, hvaða leið við viljum fara og hvað við viljum standa fyrir í lífinu

Stundum geisar stormur í lífi fólks. Það upplifa flestir á einhverjum tímapunkti, oft á þeim árum þar sem við erum að reyna að finna út úr því hver við erum, hvaða leið við viljum fara og hvað við viljum standa fyrir í lífinu. Ég upplifði magnaðan nýjan söngleik í Þjóðleikhúsinu í vikunni. Stormur er afrakstur tveggja framúrskarandi íslenskra listakvenna, Unnar Aspar Stefánsdóttur og Unu Torfadóttur. Verk um ástina, lífið, það að fullorðnast, að skapa, gráta, hlæja og óttast, svo ég vitni í orð þeirra síðarnefndu. Una segir líka að verkið hjálpi okkur að opna, gráta og hlæja og sitja aðeins með óttanum til þess að geta síðan valið ástina og lífið. Ég tek heils hugar undir þessi orð og það gerir 15 ára dóttir mín líka og erum við sammála um að allir foreldrar ættu að reyna að fara með unglingum sínum að sjá sýninguna sem er borin uppi af ungum hópi frábærra leikara, sem mörg hver eru nýútskrifuð úr leiklistarnámi.

Sýningin rímar að einhverju leyti við þá umræðu sem hefur verið áberandi undanfarin misseri og endurómaði í sérstakri umræðu um áfengis- og vímuefnavandann sem fram fór á Alþingi í vikunni. Hvernig getum við hjálpað ungu fólki að fóta sig í lífinu, vinna úr áföllum og forðast að það finni sig í farvegi vímuefnaneyslu sem endar því miður of oft með skelfingu, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og svo marga sem eru honum tengdir.

Ný ríkisstjórn er meðvituð um þá innviðaskuld sem birtist í skorti á úrræðum í geðþjónustu, fyrir fólk með vímuefnavanda og börn með fjölþættan vanda og er þegar að grípa til aðgerða. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að auknu fjármagni verði veitt til meðferðarúrræða og til Geðheilsumiðstöðvar barna, sem fjölgar stöðugildum og styttir bið barna eftir þjónustu. Ráðherranefnd um málefni barna hefur verið sett saman til þess að vinna hratt og örugglega að þessum málum.

Þegar stór stormur geisar innra með okkur eða innra með börnum okkar er nauðsynlegt að búa við það öryggi að hjálp sé að fá. Á Íslandi erum við rík að eiga samtök eins og Píeta og nýlega varð stór áfangi í starfi félagsins þegar þau opnuðu skjól á Austurlandi í samstarfi við Fjarðabyggð. Þá hafa Rauði krossinn og Geðhjálp unnið mikilvægt starf í þessum efnum í mörg ár.

Segja má að samfélagið sé vaknað til vitundar um þá samkeppni sem innihaldsríkar samverustundir eiga við skjátíma barna og fullorðinna. Lengi býr að fyrstu gerð og því er ábyrgð foreldra mikil þegar kemur að því að byggja upp tengsl við börnin sín, kenna þeim náungakærleik, að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Börn búa hins vegar við mismunandi skilyrði og þá er mikilvægt að eiga öflug kerfi sem grípa þau, fyrr fremur en síðar.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar. asa.berglind.hjalmarsdottir@althingi.is