Hermína Gunnþórsdóttir
Hermína Gunnþórsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skóli án aðgreiningar er ekki fjarlæg hugmynd sem ómögulegt er að hrinda í framkvæmd. Víða er markvisst unnið að innleiðingu inngildandi starfshátta.

Anna Björk Sverrisdóttir, Ástríður Stefánsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Kristín Björnsdóttir

Undanfarnar vikur hefur töluverð umræða um skólamál átt sér stað í fjölmiðlum. Angi þeirrar umræðu hefur teygt sig inn á vangaveltur um skóla án aðgreiningar og því verið fleygt fram að rótina að vanda skólakerfisins megi meðal annars rekja til þessarar skólastefnu.

Menntun eða skóli án aðgreiningar, menntun fyrir alla og inngildandi menntun eru hugtök sem lýsa þeirri stefnu skólayfirvalda víða um heim og hér á Íslandi að skólakerfið eigi að vera fyrir öll börn og ungmenni. Markmiðið er að tryggja viðveru, þátttöku og virkni allra nemenda og þannig bregðast við misrétti sem birtist í útilokun og mismunun á grundvelli fjölbreytileika, svo sem félagslegrar stöðu, uppruna, trúar, kyngervis og getu nemenda og fjölskyldna þeirra. Viðeigandi menntun fyrir öll er því forsenda fyrir fullgildri þátttöku í lýðræðissamfélagi og er öllum, sem þar búa, til heilla.

Íslenskt samfélag og samsetning nemendahópsins innan menntakerfisins hefur tekið miklum breytingum. Fyrir einungis örfáum áratugum ólust fötluð börn upp á altækum stofnunum fjarri fjölskyldu og vinum. Börn sem bjuggu við fátækt og erfiðar heimilisaðstæður voru gjarnan vistuð á sérstökum vistheimilum og ungmenni í borgum og bæjum sem ekki þrifust innan skólans voru send til dvalar í sveit, oft hjá vandalausum. Skólar voru því að mörgu leyti einsleitir og alls ekki ætlaðir öllum. Sem betur fer hafa þessi viðhorf til barna og menntunar gjörbreyst. Í dag er viðurkennt að öll börn geta lært, að hegðun þeirra sé tjáningarmáti sem endurspeglar líðan þeirra og að félagslegar aðstæður þeirra ættu ekki að hafa áhrif á gæði þeirrar menntunar sem þau hljóta.

Inngildandi menntun er ekki fjarlæg hugmynd sem ómögulegt er að hrinda í framkvæmd. Um land allt má sjá dæmi um markvissa vinnu sveitarfélaga, skóla og starfsfólks við að innleiða starfshætti og kennsluaðferðir sem stuðla að námi margbreytilegra nemendahópa. Rannsóknir okkar sem þetta skrifum, með skólum víða um land, hafa sýnt að það sem skiptir máli fyrir farsælt starf er: í fyrsta lagi markviss stuðningur og aðhald við skóla og starfsfólk frá menntayfirvöldum og sveitarfélögum, í öðru lagi að skólastjórnendur séu faglegir leiðtogar fyrir menntun allra nemenda í sínum skólum, í þriðja lagi að stutt sé við kennara sem vilja tileinka sér fjölbreytta kennsluhætti og í fjórða lagi að búið sé til rými fyrir samstarf milli starfsfólks innan skóla við fagfólk utan skóla og ekki síst við foreldra og nemendur. Að endingu er mikilvægt að veita öllum nemendum stuðning til að ná árangri í námi og líða vel í skólanum.

Inngildandi menntun er ekki val heldur réttur allra barna og ungmenna eins og fram kemur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hún er forsenda fullgildrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Til þess að raungera þennan rétt þurfum við öll að taka ábyrgð. Ef nemendur passa ekki inn í ramma kerfisins þá er það hlutverk okkar og skylda, sem innan kerfisins starfa, að gera breytingar á þessu kerfi. Sá stuðningur sem nemendur þurfa í námi er ekki viðbót við menntun, hann er órjúfanlegur hluti af menntun þeirra.

Um leið og við fögnum þeim metnaði og þeirri fagmennsku sem kennarar og starfsfólk skóla um allt land hafa sýnt þá viljum við undirstrika mikilvægi þess að ráðherra menntamála hlaupist ekki undan ábyrgð. Stjórnvöld þurfa að tryggja sveitarfélögum og skólum á öllum stigum stuðning svo skólar landsins hafi burði til að standa undir hlutverki sínu og veita öllum nemendum viðeigandi menntun.

Höfundar eru starfsmenn Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.