Margrét Brandsdóttir fæddist í Reykjavík 13. janúar 1949. Hún lést 11. febrúar 2025 á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.

Foreldrar hennar voru Rósa (Sigurrós) Einarsdóttir, f. 1918, d. 2002, og Brandur Jónsson, f. 1911, d. 1982. Systur Margrétar voru Anna Guðný, f. 1944, d. 2011, og Guðrún Katrín, f. 1957, d. 2019.

Margrét giftist Sigurjóni Valdimarssyni og þau eignuðust soninn Brand árið 1970. Þau slitu síðar samvistum.

Margrét giftist Finni Hafsteini Sigurgeirssyni og þau eignuðust þrjú börn: Einar Örn, f. 1973, d. 2023, Bergrúnu, f. 1979, og Gísla, f. 1984. Í upphafi búskapar síns bjuggu Margrét og Finnur í Reykjavík en fluttu svo á Akranes og síðan til Vestmannaeyja. Þau slitu síðar samvistum.

Margrét kynntist Sigurði Högna Haukssyni, f. 1948, d. 2023, árið 1995 og þau giftust árið 1999. Þau bjuggu alla sína sambúð í húsinu Jaðri í Vestmannaeyjum. Dætur Sigurðar og stjúpdætur Margrétar eru S. Soffía, f. 1979, og Svava, f. 1980.

Margrét átti 13 barnabörn og 7 barnabarnabörn.

Margrét var menntaður leikskólakennari og starfaði sem slíkur stærstan hluta starfsferilsins, m.a. sem leikskólastjóri á leikskólanum Sóla í Vestmannaeyjum. Hún hafði mikinn áhuga á faglegu skólastarfi og vann ötullega að framkvæmd Hjallastefnunnar á Sóla.

Á sínum yngri árum lærði Margrét ballett í Ballettskóla Þjóðleikhússins og í London. Hún tók þátt í leiksýningum, ballettsýningum og söngleikjum í Þjóðleikhúsinu og í Tívolí í Kaupmannahöfn.

Útför Margrétar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 8. mars 2025, kl. 13.00. Útförin verður sýnd í beinu streymi, stytt slóð:

https://mbl.is/go/m5rc9

Í dag kveðjum við formlega elsku Margréti okkar, þó hún hafi að hluta kvatt okkur fyrir einhverjum árum þegar alzheimersjúkdómurinn ágerðist og hún fór á Hraunbúðir í Vestmannaeyjum. Mér finnst eins og það hafi verið í fyrradag þegar pabbi (Sigurður) sagði mér að hann og Margrét væru farin að rugla saman reytum og nefndi sérstaklega að dóttir hennar, Bergrún, væri góð vinkona mín. Þetta var árið 1994 en ég man þó vel eftir að hafa hitt Margréti leikskólastjóra löngu fyrr, eða þegar þau fjölskyldan fluttu til Eyja sjö árum fyrr og ég kynntist Bergrúnu og við urðum góðar vinkonur. Ég var því svo heppin að hafa kynnst Margréti og hennar fjölskyldu löngu áður en hún og pabbi fóru að hittast.

Það var gaman að vera í kringum Margréti. Hún var fjölskyldurækin, jákvæð og með mikla réttlætiskennd. Ég skal alveg lofa því að það var ekki átakalaust að koma saman tveimur fjölskyldum með okkur Svövu systur, Bergrúnu og Einar í fararbroddi, öll að drepast úr unglingaveiki og elsku Gísli, nokkrum árum yngri, fylgdi með í öllum hasarnum. Ég á alveg nokkuð margar minningar um rökræður um hin ýmsu mál og alltaf var Margrét með svar á reiðum höndum og mér tókst nánast aldrei að vinna hana í rökræðum og pabbi hreinlega flúði þegar við tvær vorum sammála um hluti sem hann var ekki. Margréti og pabba tókst samt að lifa dramað af og eftir sitja margar góðar minningar sem munu alltaf ylja.

Ég minnist sérstaklega margra skemmtilegra frásagna sem Margrét sagði okkur fá sínum yngri árum þegar hún var í ballett í Danmörku. Þegar sjúkdómurinn tók yfirhöndina og skammtímaminnið fór, þá urðu þessar sögur og minningar það sem hélt henni með okkur og hægt að ræða og þá alltaf kom brosið og blikið í augun sem var svo dýrmætt.

Allar sögur hafa endi og núna er komið að sögulokum hjá Margréti og pabba. Þau áttu mörg góð ár saman bæði í húsinu Jaðri í Vestmannaeyjum og sumarbústaðnum við Hreðavatn. Bústaðurinn var ættaróðal fjölskyldu Margrétar og á öll stórfjölskyldan frábærar minningar þaðan. Jaðar er svo núna í góðum höndum þar sem Bergrún og eiginmaður hennar, Guðlaugur, ákváðu að taka við og halda heiðri fallega hússins áfram með sinni fjölskyldu. Minningarnar um Margréti og pabba lifa því áfram þegar kíkt er til Vestmannaeyja.

Ég kveð elsku Margréti með söng Ellýjar sem var mikið uppáhald hennar:

Vegir liggja til allra átta

enginn ræður för,

hugur leitar hljóðra nátta

er hlógu orð á vör

og laufsins græna á garðsins trjám

og gleðiþyts í blænum.

Þá voru hjörtun heit og ör

og hamingja í okkar bænum.

Vegir liggja til allra átta

á þeim verða skil,

margra er þrautin þungra nátta

að þjást og finna til

og bíða þess að birti á ný

og bleikur morgunn rísi.

Nú strýkur blærinn stafn og þil

stynjandi í garðsins hrísi.

(Indriði G. Þorsteinsson)

Soffía Sigurðardóttir.

Í dag kveðjum við ástkæra tengdamóður mína, Margréti Brandsdóttur. Brosmild, stríðin, hress og kát eru orð sem koma mér í hug þegar ég hugsa um hana.

Ég kynntist Margréti árið 2004 þegar við Brandur elsti sonur hennar rugluðum saman reytum okkar. Hún tók mér og strákunum mínum strax mjög vel og við urðum strax eðlilegur hluti af fjölskyldunni. Þar sem hún var leikskólakennari og ég þroskaþjálfi og kennari unnum við svipuð störf og gátum auðveldlega gleymt okkur í samræðum um uppeldismál og kennslu.

Það var alltaf gaman að heimsækja Margréti og Sigga í Vestmannaeyjum og hús þeirra stóð okkur alltaf opið, hvort sem við vorum að koma með börnin á fótboltamót eða unglingarnir okkar að fara á Þjóðhátíð. Þá var nú gott að eiga öruggt athvarf í húsi ömmu og afa í Eyjum.

Bústaður fjölskyldunnar við Hreðavatn skipti Margréti mjög miklu máli og þangað fóru þau Siggi á hverju sumri. Þar nutu þau sín í gróðursældinni og veðurblíðunni, Siggi að dytta að bústaðnum og Margrét með bækurnar sínar og hundana, en hún var mikil hundamanneskja.

Margrét greindist með alzheimers 2015 og fór fljótt hrakandi. Síðustu árum ævi sinnar eyddi hún á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum. Þar naut hún frábærrar umönnunar starfsfólksins og kunnum við fjölskyldan því hjartans þakkir fyrir.

Elsku tengdamamma, takk fyrir allt. Minning þín lifir áfram í hjörtum okkar.

Þín tengdadóttir,

Edda Einarsdóttir.