Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
„Það er mjög sérstakt að það séu 30 milljarðar inni á sjóði stofnunar sem ber ábyrgð á skuldbindingum upp á marga tugi milljarða og að þetta fé hafi ekki verið nýtt til þess að greiða niður óhagstæð lán og taka lán á betri kjörum fyrir það sem vantar upp á,“ segir Páll Winkel, starfandi framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna.
Páll var ráðinn tímabundið í starfið 1. janúar. Með honum var ráðinn fjármálastjóri og að sögn Páls hafa þeir nær lokið við að koma á skipulagi þar sem ráðstafað verður opinberu fé með eins hagkvæmum hætti og unnt er.
Greint var frá í vikunni að um 30 milljarðar króna í eigu ríkisins lægju á bankabókum viðskiptabankanna og á sama tíma næmu óhagstæð lán ríkisins í formi útistandandi ríkisvíxla um 200 milljörðum. Með þessu tapaði ríkið háum upphæðum árlega í vaxtamun sem hægt væri að koma í veg fyrir.
Eðlilegt að vinda ofan af þessu
„Okkar fyrsta verkefni var að fara í það að breyta fjármögnun sjóðsins þannig að hann yrði í samræmi við löggjafarvilja og eins og átti að gera í rauninni frá árinu 2020,“ segir Páll.
Aðspurður segist Páll ekki vita hvers vegna fjármögnun sjóðsins hafi ekki verið í samræmi við löggjafarviljann.
Í ljósi þess hafi þó einnig verið verkefni Páls og fjármálastjóra að sjá til þess að framvegis yrði fjármögnun útlána sjóðsins með lánum frá ríkissjóði, í stað lausafjár gamals sjóðs.
„Þann hluta verkefnisins erum við búin að klára þannig að um síðustu mánaðamót var greitt út til lánþega fé sem fengið var að láni frá endurlánum ríkissjóðs eftir að við kláruðum rammasamning um slík lán við Endurlán ríkissjóðs.“
Um hina 30 milljarða segir Páll þá hafa verið inni á reikningum í Landsbankanum. Hann segir það skjóta skökku við að á sama tíma og ríkissjóður eigi 30 milljarða inni á bankareikningum sé hann að fjármagna sig með lántöku.
Greiða niður eldri lán
„Það er auðvitað mjög eðlilegt að vinda ofan að því og það er það sem við erum að gera núna. Við erum að greina hvað af þessu fjármagni tilheyrir gamla kerfinu, þ.e. LÍN, lánasjóði íslenskra námsmanna, og sá hluti þessara upphæða verður nýttur til þess að greiða niður skuldir þess sjóðs sem eru á óhagstæðum vöxtum og fjármagna það sem vantar upp á fyrir Menntasjóðinn með hagstæðari lánum frá Endurlánum ríkissjóðs, allt í samræmi við lög og reglur.“
Segir Páll að með þessu móti sé verið að ráðstafa opinberu fé með eins hagkvæmum hætti og unnt er sem sé það sem forstöðumönnum beri að gera.
„Áætlunin er að þetta verði klárað fyrir mitt ár. Við þurfum að gera fjárstreymisáætlanir fram í tímann og tryggja að við höfum fé til þess að greiða af skuldbindingum sjóðsins en ekki meira en svo. Restina á svo að nota til þess að borga upp eldri óhagstæð lán.
Það er nokkuð vandasöm vinna og það er hér hópur innanhúss í góðu samstarfi við fjármálaráðuneytið sem er að vinna að því.“