Blue Velvet Kyle MacLachlan og Isabella Rossellini í hlutverkum sínum.
Blue Velvet Kyle MacLachlan og Isabella Rossellini í hlutverkum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin í Kringlunni ætla að bjóða upp á sérstakan kvikmyndaviðburð 10.-31. mars þar sem bandaríska kvikmyndaleikstjórans Davids Lynch verður minnst en hann lést í janúar, 78 ára að aldri. Þá verða fjórar af hans eftirminnilegustu myndum sýndar,…

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Sambíóin í Kringlunni ætla að bjóða upp á sérstakan kvikmyndaviðburð 10.-31. mars þar sem bandaríska kvikmyndaleikstjórans Davids Lynch verður minnst en hann lést í janúar, 78 ára að aldri. Þá verða fjórar af hans eftirminnilegustu myndum sýndar, ein á hverju mánudagskvöldi; The Elephant Man (10. mars), Wild at Heart (17. mars), Blue Velvet (24. mars) og Mulholland Drive (31. mars).

„Þetta er frábært og flott framtak því þessar myndir eru ekki svo aðgengilegar í dag þar sem þær voru bæði gerðar á mismunandi tímum og af mismunandi aðilum. Nú er dreifing líka orðin svo flókin og varð í rauninni mun flóknari eftir að streymisveitukerfið tók yfir varðandi öll réttindamál. Þannig að það er frábært að fá að sjá þessar lykilmyndir á hans ferli í bíó,“ segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og gamall samstarfsmaður og náinn vinur Lynch til margra ára.

Þær myndir sem standa upp úr

Inntur eftir því hvort boðið verði upp á samtal við hann eða hvort hann muni sitja fyrir svörum á viðburðinum segir Sigurjón það aðeins fara eftir viðveru sinni á Íslandi á þessum tíma. „Það var búið að tala um að ég myndi mæta og þótt ég hafi bara framleitt eina af þessum myndum þá þekki ég náttúrlega vel til hinna líka og til vinnubragðanna hjá David Lynch. Auðvitað væri skemmtilegast að vera á landinu akkúrat þegar Wild at Heart verður sýnd en ég verð aðeins að sjá til þar sem ég er sjálfur á ferðalögum.“

Spurður í framhaldinu hvort hann hafi komið að vali myndanna segir Sigurjón svo ekki vera. „Þetta var að mínu mati mjög eðlilegt val því þetta eru þær myndir sem hafa hvað mest staðið upp úr. Svo að þótt þeir hafi valið þær þá held ég að þetta séu einmitt þær myndir sem ég hefði sjálfur valið. Þetta hafa því verið einhvers konar hugrenningatengsl á milli mín og Sambíóanna,“ segir hann kíminn og bætir því við að hann sé í það minnsta mjög sáttur við valið.

Ekki mikill meinlætamaður

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort Sigurjón eigi sér eitthvert uppáhaldsaugnablik eða -minningu um Lynch.

„Kannski ekki endilega augnablik heldur minnist ég frekar hans speki og nálgunar á kvikmyndamiðlinum og á sinni list. Sú nálgun gerði það kannski að verkum að hann gerði ekki fleiri myndir, en þær sem hann gerði eru eftirminnilegar. Hann vann eftir allt öðrum prinsippum sem voru aðallega þau að gera bara það sem hann vildi. Hann fór ekki af stað nema hann fengi ótakmarkað frelsi en hann var fyrst og fremst fjöllistamaður. Auðvitað eru margir aðrir sem eru að leikstýra bíómyndum sem hafa skrifað eða gert ýmislegt annað listtengt en ég held að það séu fáir eins og hann,“ segir hann og tekur fram að sjálfur hafi hann unnið með fleira fólki sem sé ekki einungis í kvikmyndalistinni. „Þetta fólk hefur dálítið aðra sýn. Ég held að David hafi fundið aukið frelsi þegar hann byrjaði að gera myndirnar. Þar fékk hann ný tól og tæki til að vinna með og meiri fjölbreytni en að vera bara einn að mála eða taka ljósmyndir. Um leið gat hann samt alltaf leitað í þá miðla þegar það var rólegt hjá honum eða hugmyndirnar ekki alveg að fá hljómgrunn akkúrat á þeim tíma sem hann vildi framkvæma þær. Ég held að þetta hafi gert það að verkum að David var mun staðfastari og ákveðnari í að gera einungis verk sem honum fannst passa sínum hugmyndum. Auðvitað eru margir aðrir sem þurfa að vinna fyrir salti í grautinn en ég myndi ekki segja að hann hafi verið meinlætamaður. Hann gerði ekki mjög háar lífsgæðakröfur sem slíkar og féll ekki í þetta mynstur eins og margir, t.d. í Hollywood, að fara að lifa mjög hátt.“

Verk Lynch eldast einkar vel

En ættu áhorfendur að veita einhverjum sérstökum töfrum í myndum Lynch athygli? „Já, kannski fyrst og fremst hvernig hans óhefðbundni frásagnarstíll grípur mann og heldur manni föngnum. Stíllinn hans er líka svolítil andstæða við hina hefðbundnu Hollywood-hefð sem er að segja sögu frá a-z í þeirri röð. Wild at Heart var á tímabili gagnrýnd fyrir að vera of hefðbundin þótt ekki sé hægt að segja að hún sé hefðbundin,“ segir Sigurjón og hlær. „En ég held að hún sé í rauninni eina ástarsaga Davids Lynch og er hún nú samt ekki alveg venjuleg ástarsaga. Það má því segja að alveg sama hvaða form hann tók sér fyrir hendur, frásagnarstíl eða sögu, þá gerði hann það á sinn sérstæða hátt. Verkin hans eldast þar af leiðandi ekki illa því þau eru svo tímalaus. Það er vegna þess að þau fylgja ekki einhverri ákveðinni formúlu, tísku eða einhverju slíku. Sjálfur var David kannski búinn að vera með hugmynd í kollinum í mörg mörg ár áður en hann framkvæmdi hana. Þannig að tíminn var kannski svolítið afstæður hjá honum, eins og t.d. Mulholland Drive, sú mynd gæti hafa verið tekin í dag.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir