Guðrún Guðlaugsdóttir fæddist 7. október 1926. Hún lést 11. febrúar 2025.

Útför fór fram 7. mars 2025.

Elskuleg móðursystir mín, Guðrún Guðlaugsdóttir, ávallt kölluð Rúna, er látin.

Hvernig er hægt að verða 98 ára, ekki með neina hrukku og alveg skýr í kollinum? Rúna las mikið, fékk bækur á bókasafni, sem styttu henni stundir, en lítið fór hún úr húsi síðari árin; hafði nánast alveg misst heyrn. „Það er þó betra að missa heyrn en sjón,“ sagði hún alltaf, „það er svo gott að geta lesið.“

Samband okkar Rúnu hefur ávallt verið mjög kært. Móðir mín var 10 árum eldri en Rúna. Meðan mamma lifði held ég að þær hafi talað nánast daglega saman í síma.

Þegar við systkinin vorum ung vorum við oft hjá Rúnu og Björgvini manni hennar þegar foreldrar okkar voru erlendis. Ég var eitt sumar hjá þeim og passaði Þröst, næstyngsta barn þeirra. Það var skemmtilegur tími. Rúna og Björgvin voru nánast frumbyggjar í Kópavogi og þar myndaðist lítið samfélag á þessum tíma, 1950-1960. Það var verið að byggja í nágrenninu og fólk spjallaði saman og tók þátt í lífi hvert annars. Maður sem var að byggja rétt hjá Rúnu og Björgvini kom oft inn til Rúnu í kaffisopa. Fjölskylda hans bjó í sveit en hann hafði byggt sér smá kofa sem hann bjó í meðan hann byggði hús yfir fjölskylduna. Hann sagðist aðeins hafa rumskað eina nótt við það að mús hljóp yfir andlitið á honum; annars svaf hann vel í kofanum. 13 ára gömul drakk ég í mig svona sögur.

Hjá Rúnu og Björgvini var oft gestkvæmt. Björgvin spilaði vel á gítar og hafði afar góða söngrödd, og Rúna líka. Nokkur ár fór ég með skólasystur mínar þangað á gamlárskvöld til þess að taka þátt í söng og gleði.

Rúna átti góða vinkonu, Helgu. Mörg ár fóru þær saman í utanlandsferðir, oftast til sólarlanda, og nutu þess báðar.

Rúna bjó 16 ár ein í fallegri íbúð í Garðabæ. Þar leið henni vel og lengst af eldaði hún sjálf og þreif. Hún var 94 ára þegar hún fékk Jón tengdason sinn til að kaupa inn fyrir sig tilbúna rétti. Hún skrifaði innkaupalista einu sinni í viku með sinni fallegu rithönd; þar var allt sem hana vantaði fyrir vikuna. Þetta gerði hún til 98 ára aldurs. Þótt vissulega hafi börn hennar og tengdabörn sinnt henni afskaplega vel og alltaf verið tilbúin að aðstoða, þá held ég ekki sé á neinn hallað þótt ég segi að Jón tengdasonur hennar hafi verið einstaklega lipur að aðstoða hana.

Rúna var afar yfirveguð og jákvæð kona. Hún missti nær alveg heyrn fyrir nokkrum árum en kvartaði aldrei. Sagðist hvergi finna til og væri lánsöm að geta setið heima í stól sínum og lesið. Fjölskyldan notaðist við svokallaðan talgervil sem hjálpaði; en í hann talar bara einn í einu. Hún notaði textavarpið og alltaf las hún Morgunblaðið. Hún var svo glöð þegar ég kom í heimsókn, mundi allt sem ég hafði sagt, og spurði nákvæmlega hvað ég hefði gert frá því síðast. Hún var þakklát að geta verið heima í íbúð sinni. Það var ekki fyrr en rétt fyrir síðustu jól að hún veiktist og þurfti að fara á sjúkrahús. Hún var afar þakklát fyrir þá umhyggju sem hún naut þar.

Ég sendi börnum Rúnu, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Erla
Björgvinsdóttir.