Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Pétur Stefánsson fékk sér restina af baunasúpunni í hádeginu:
Baunasúpan þenur þind,
þess nú heyrast merkin.
Mér er ljúft að leysa vind
og lina magaverkinn.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:
Sérhvert eldhús hefur hann,
hafður títt í peysum er,
gleður lúinn göngumann,
gegnum skólann saman fer.
Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu gátunnar. Það þvælist ekki fyrir Hörpu á Hjarðarfelli:
Allvel nýtist eldhúsbekkur.
Útprjón, munsturbekkur.
Göngulúnum bregst ei bekkur.
Barnaskólabekkur.
Lausnarorðið er bekkur og ólík merking í hverri línu. Guðrún Bjarnadóttir veit það vel:
Á eldhúsbekk sat unglingsdrengur
með arnarbekk á peysu sinni,
þreyttur var og þarf bekk lengur,
þraut svo tíundabekkjar linni.
Þá Úlfar Guðmundsson:
Eldhúsbekk ég traustan tel.
Tíðum bekkur peysur skreytir.
Næsti bekkur náðar vel.
Nemum bekkur áfram fleytir.
Helgi Einarsson bætir við:
Oft á eldhúsbekk er brauð.
Ég bekk á peysum finn.
Á bekk sér skældir skella‘ í nauð.
Skólabekkurinn.
Magnað er hversu margar útgáfur er hægt að prjóna til svars. Magnús Halldórsson yrkir:
Eldhúsbekkinn allir þekkja,
einatt bekk á peysum finn.
Lúnir stundum leita bekkja
og loks er skólabekkurinn.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Prýði er á hestum hann,
hylur líka konubrjóst,
fyrir ofan ökumann,
efst á fjalli, það er ljóst.
Loks lætur Helgi limru fylgja um tap Íslands gegn Króatíu:
Skúrkar oft vandamál skapa,
úr skýjum glóparnir hrapa,
en sannir bræður,
boltans hræður
brosa, þar til þeir tapa.