Íslensk stjórnvöld verða að gæta sín á því að falla ekki í sömu gryfjuna í þessu efni og þau gerðu í útlendingamálunum: að telja sér trú um að eitthvað annað eigi við um Ísland.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Utanríkis- og varnarmál ber sífellt hærra í stjórnmálaumræðum hér eins og annars staðar í okkar heimshluta. Merki um þetta eru víða. Sjást þau til dæmis á ályktunum 45. landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 28. febrúar til 2. mars síðastliðinn.

Þar er oftar en einu sinni áréttuð nauðsyn þess að efla hlut Íslendinga sem verðugra bandamanna í Atlantshafsbandalaginu (NATO) og að auka framlag borgaralegra stofnana ríkisins, landhelgisgæslu og lögreglu, til gæslu ytra öryggis.

Nú snýst fyrsti efniskafli stjórnmálaályktunar fundarins um nauðsyn þess að standa vörð um fullveldi og efnahagslegt sjálfstæði landsins. Minnt er á að þjóðin reisi tilveru sína, lífskjör og lífsgæði á því að reglur alþjóðasamfélagsins séu virtar og viðskipti milli landa séu frjáls og án hindrana.

Þessi mál hefur ekki borið svona hátt í ályktunum flokksins í um það bil 30 ár. Raunar hefur stundum á þeim áratugum þurft að minna sérstaklega á að forðast beri að gleyma þeim þætti við gæslu fullveldisins sem snýr að ytra öryggi þjóðarinnar. Nú þurfti enga slíka áminningu. Fundarmenn gerðu sér grein fyrir ábyrgð sinni. Þar eins og annars staðar áttuðu menn sig á því að við lifum nú mestu óvissutíma í alþjóðlegum öryggismálum frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar.

Í eftirminnilegri ræðu sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrv. utanríkisráðherra og fráfarandi varaformaður flokksins:

„Tími alvörunnar er runninn upp. Tími þegar leiðtogar þurfa að vera undirbúnir til þess að taka stórar ákvarðanir með hraði, en fljótfærni getur verið banvæn. Tími þegar við þurfum að gæta að sjálfstæði okkar, en þurfum meira en nokkru sinni fyrr á samvinnu við aðrar þjóðir að halda. Tími þar sem þörf er á meiri stjórnmálum og minni pólitík. Tími þar sem við þurfum að hafa það algjörlega á hreinu að frelsið og sjálfstæðið er meira virði heldur en allur heimsins auður.

Já – við gætum verið að upplifa tíma þar sem það skiptir máli að hafa þessa forgangsröðun á hreinu. Það getur þurft að fórna þægindum fyrir frelsið – og við gætum þurft að færa efnahagslegar fórnir fyrir frelsið. Það er raunveruleiki sem við þurfum að vera tilbúin að skilja. En kæru vinir – óþægindi og fjárhagslegar fórnir kunna á komandi árum að verða algjörir smámunir í samhengi hlutanna.“

Allar umræður hér og í nágrannalöndum sýna að þeim fjölgar stöðugt sem sjá nú tíma alvörunnar í öryggismálum. Þeir sem leggja mat á hættur og ógnir í norrænu vinaríkjunum eru allir á einu máli. Má þar fyrst vitna í nýjustu skýrsluna frá finnsku leyniþjónustunni Supo sem birtist 4. mars.

Ein af meginniðurstöðum hennar er að Rússar geti hafið ófrið gagnvart öðrum ríkjum þegar stríðinu í Úkraínu lýkur. „Svigrúmið til hernaðar sem skapast hjá Rússum þegar stríðinu í Úkraínu lýkur geta þeir nýtt sér annars staðar,“ segir í skýrslunni. Forstjóri Supo segir: „Rússland er árásargjarnt útþensluríki sem er tilbúið til að beita hvaða aðferð sem er til að ná pólitískum markmiðum sínum.“

Það er mat leyniþjónustunnar að Rússar séu „sem fyrr alvarleg ógn“ gegn Finnlandi „án þess að sjá megi nokkra breytingu til batnaðar“.

Þarna er bent á að hergagnaiðnaður Rússa og hervæðing alls rússneska samfélagsins leiði til þess að sjái Pútín og félagar veikan blett einhvers staðar í nágrenni sínu kunni þeir að freistast til að beina vígvélinni þangað, fagni þeir sigri í Úkraínu.

Leyniþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), birti þriðjudaginn 11. febrúar uppfært mat á hættunni sem stafar af hernaðarmætti Rússa ef hlé verður á Úkraínustríðinu eða því ljúki.

Sérfræðingar í Danmörku segja að í nýja matinu birtist skuggalegri mynd en áður hafi sést. FE hafi til þessa talið að Bandaríkin gegni mikilvægu hlutverki í NATO. Nú birti leyniþjónustan hins vegar sviðsmyndir þar sem Bandaríkin láti ekki að sér kveða ef Rússar reyni að færa út landamæri sín. Þá geti þetta gerst:

Staðbundið stríð í nágrenni Rússlands innan sex mánaða.

Svæðisbundið stríð gegn NATO-ríkjum á Eystrasaltssvæðinu innan tveggja ára.

Stórstríð á meginlandi Evrópu án þátttöku Bandaríkjamanna innan fimm ára.

Þrjár norskar öryggisstofnanir birtu hættumatsskýrslur sínar 5. febrúar 2025. Meginniðurstaða þeirra allra er að „líklegt“ sé að Rússar reyni að veita Noregi högg með skemmdarverkum í ár og „ástæða sé til að ætla“ að þeim takist það. Norsku stofnanirnar benda á að ekki eigi að búast við því að rússneskir skemmdarverkamenn verði sendir til að vinna illvirki. Þau kunni að verða unnin af einstaklingum eða samtökum án formlegra tengsla við rússneskar njósnastofnanir. Um sé að ræða málaliða sem fái greiðslur fyrir sífellt alvarlegri skemmdarverk.

Ástæðulaust er að láta slíkar viðvaranir öryggisstofnana í Finnlandi, Danmörku og Noregi sem vind um eyru þjóta. Íslensk stjórnvöld verða að gæta sín á því að falla ekki í sömu gryfjuna í þessu efni og þau gerðu í útlendingamálunum þar til fyrir nokkrum misserum: að telja sér trú um að eitthvað annað eigi við um Ísland en önnur lönd í þessum efnum.

Það er óhjákvæmilegt að taka ákvarðanir um að skilgreina hlutverk landhelgisgæslu og lögreglu á ófriðartímum og í aðdraganda þeirra. Fræðimenn í háskólanum á Bifröst hafa birt niðurstöður athugana sem sýna það sem oft hefur verið nefnt hér, að setja verður skýrari ákvæði í lög um stjórnmálalega ábyrgð og boðleiðir á hættu- og ófriðartímum. Undan þessu verður ekki vikist.