Um hvað er platan þín nýja?
Hinir gæfustu lifa af, sem er titill plötunnar, er frasi úr bókinni minni Stríð og kliður sem kom út 2021. Hugmyndin er að mýktin sigri þegar til lengdar lætur hörkuna. Annars eru þessi lög samin á 15 ára tímabili – sum glæný, önnur hafa fylgt mér lengi eins og gamlir vinir.
Hvort kom á undan, tónlistin eða ritlistin?
Það er góð spurning. Ég var alltaf mikið að búa til sögur þegar ég var lítill en ég var líka mikill fótboltastrákur. Þegar ég var tólf ára varð ég fyrir álagsmeiðslum og gat ekki spilað fótbolta í rúmt ár og varð dálítið þunglyndur. Það var krefjandi tímabil en það var þá sem ég uppgötvaði margt annað innra með mér. Ég byrjaði að teikna mikið og mála, læra á gítar og spila tónlist. Fyrir mér hefur það að teikna, skrifa og spila tónlist því alltaf haldist í hendur. Þetta er allt samofið. Ég sé tóna og orð í litum – að skrifa er því líka músík.
Ertu sáttur við þessa plötu?
Já, ég er mjög ánægður með hana. Mig langaði að hafa hana þannig að fólki finnist það sitja með mér inni í stofu. Ég er alveg ég sjálfur á henni. Maður er alltaf að reyna að forðast rembing.
Um hvað fjalla textarnir?
Textarnir eru mjög ólíkir; sumir eru mjög persónulegir, aðrir frekar hugmyndadrifnir. Það er ekki neitt eitt þema, en það er mjög mikilvægt fyrir mig þegar ég sem lag eða bók að ég hafi eitthvað að segja; annaðhvort vil ég miðla sterkri tilfinningu eða einhverri hugmynd. Eitt uppáhaldslagið mitt er Gefa, gefa, gefa, sem fjallar einfaldlega um ánægjuna af því að vera gjafmildur. Allt í heiminum er samvinna og það gildir líka um listsköpun. Þar koma líka fram einkunnarorðin mín þrjú: Ást, forvitni, listir.
Stefnir þú langt í tónlistinni?
Ég er ekkert mikið að hugsa um það heldur leyfi þessu bara að streyma frá mér. Ég vil auðvitað að sem flestir hlusti á tónlistina mína en að sama skapi hef ég alltaf verið heimsfrægur.
Sverrir Norland er rithöfundur, tónlistarmaður og bankamaður með próf í lögfræði og ritlist og meistaragráðu í skapandi skrifum. Sverrir sendi í vikunni frá sér plötuna Hinir gæfustu lifa af. Hana er að finna á Spotify og öðrum streymisveitum.