Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Landsvirkjun Power í samstarfi við Growler Energy áformar að stofna félagið Vinland Power, um verkefnaþróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið mun hafa aðsetur í kanadíska fylkinu Nýfundnalandi og Labrador.
Vinland Power er ætlað að verða leiðandi í þróun orkuvinnslu á svæðinu og mun vinna með fjárfestingafélagi frumbyggja á svæðinu, en það tryggir mikilvæga aðkomu hagsmunaaðila og samfélaga á þeim svæðum sem verkefni á vegum félagsins ná til, segir í fréttatilkynningu.
Mikil þekking á orkuöflun
Landsvirkjun Power er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar en erlend starfsemi Landsvirkjunar er innan vébanda þess. Félagið býr að mikilli þekkingu á orkuöflun á norðurslóðum og víðar. Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið komið að ráðgjöf í 40 verkefnum í 15 löndum og verkefnaþróun í Georgíu, Kanada og Grænlandi.
Growler Energy er orkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku og eru höfuðstöðvar þess í St. John’s, höfuðborg Nýfundnalands og Labrador. Fyrirtækið stundar einnig hagnýtar rannsóknir á vetni og öðru hreinu eldsneyti og geymslutækni. Landsvirkjun Power og Growler Energy hafa starfað saman að ýmsum verkefnum á undanförnum árum. Fyrir skömmu luku fyrirtækin þátttöku í tilraunaverkefni með félagi frumbyggja, NNC, um uppbyggingu vindorkuvers með rafhlöðugeymslukerfi í Nunavut í Kanada, en tilgangur þess var að draga úr notkun á dísilolíu til orkuframleiðslu.
Aðild frumbyggja, samfélagsþátttaka, sérfræðiþekking í orkumálum sem og staðarþekking í Nýfundnalandi og Labrador styður enn frekar við framþróun raforkukerfisins á svæðinu sem rekið er að mestu á endurnýjanlegum orkugjöfum og stendur framarlega á heimsvísu.
Telja að hægt sé að stjórna loftslagsbreytingum
Landsvirkjun Power er meðal stærri fyrirtækja í endurnýjanlegri orku í Evrópu og rekur vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir sem framleiða um 2.150 MW af orku og tilraunaverkefni í vindorku.
Framtíðarsýn fyrirtækisins er að hægt sé að stjórna loftslagsbreytingum með endurnýjanlegum orkulausnum. Fyrirtækið segist bjóða upp á þróunar- og ráðgjafarlausnir þvert á virðiskeðjur vatnsafls og jarðvarma.
Útrás Landsvirkjunar
Landsvirkjun Power er dótturfyrirtæki Landsvirkjunar en erlend starfsemi Landsvirkjunar er innan vébanda þess.
Undanfarinn áratug hefur fyrirtækið komið að ráðgjöf í 40 verkefnum í 15 löndum og verkefnaþróun í Georgíu, Kanada og Grænlandi.
Landsvirkjun Power og Growler Energy áforma að stofna félagið Vinland Power, með aðsetur í Nýfundnalandi og Labrador.