Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar.
Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En það væri góð niðurstaða ef við fengjum algerlega á hreint hvort þetta má eða ekki

Verknaðarlýsing ákvæðis almennra hagningarlega um húsbrot nær ekki til þess að brjótast inn í síma þannig að ef ég væri verjandi einhvers sem væri ákærður fyrir slíkt myndi ég andmæla því.“

Þetta segir Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar skipstjóra sem átti símann sem starfsmenn RÚV veittu viðtöku í byrjun maí 2021 þegar hann lá sjálfur milli heims og helju á Landspítalanum.

Síminn var afritaður og gögnum úr honum dreift á fjölmiðlamennina Þórð Snæ Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson og Aðalstein Kjartansson. Þeir voru blaðamenn á Kjarnanum og Stundinni.

Sakborningar njóti vafans

„Og það er mikilvægt að sakborningur sé alltaf látinn njóta vafans og ef verknaðarlýsing refsilagaákvæða samræmist ekki brotinu þá eigi ekki að beita því,“ útskýrir Eva.

Þrátt fyrir það er hún á því að afritun símans sé ígildi húsbrots. Og hún segir mikilvægt að fá skorið úr því hvort fjölmiðlamenn megi afrita síma fólks án heimildar frá því.

„Ég er heldur ekkert viss um að það hefði verið góð niðurstaða í þessu tilviki að þessu fólki væri refsað. Það er mín persónulega skoðun. En það væri góð niðurstaða ef við fengjum algerlega á hreint hvort þetta má eða ekki og ég lít á þetta sem hliðstæðu húsbrots en ég tel ekki að hægt væri að beita ákvæðum hegningarlaga um húsbrot í þessu máli. Ég tel hins vegar að það væri hægt að beita ákvæðum laga um friðhelgi einkalífs.“

Eva er gestur Spursmála en hún hefur fyrir hönd umbjóðanda síns sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi þar sem óskað er eftir því að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til þess að fara ofan í saumana á þætti Ríkisútvarpsins í byrlunarmálinu svokallaða en ítarlega hefur verið fjallað um málið á síðum Morgunblaðsins að undanförnu.

Engum vafa undirorpið

Spurð út í það hvort hún telji það einhverjum vafa undirorpið að sími Páls hafi ratað í hendur starfsmanna RÚV og síminn verið afritaður þar, er hún mjög skýr í svörum. Allir þeir sem hafi lagst yfir gögnin og skoðað t.d. yfirheyrslur sem fram fóru hjá lögreglu hljóti að sannfærast um að síminn hafi verið meðhöndlaður af starfsmönnum ríkisstofnunarinnar.

Í viðtalinu fer hún yfir það hvaða þýðingu það hafi ef yfirvöld komist að þeirri niðurstöðu að blaðamenn hafi heimild til þess að taka tölvubúnað fólks og róta í þeim gögnum sem þar kunni, eða kunni ekki að finnast. Verði niðurstaðan sú að það sé heimilt geti ýmsar starfsstéttir einfaldlega ekki notast við síma og tölvur. Nefnir hún í því sambandi lögfræðinga, fólk sem sinni félagsþjónustu, lækna og aðra.

Jafnvel þótt fólki sé slétt sama um hvort gögn þess sjálfs liggi á glámbekk eða ekki, sé ekki hægt að taka áhættu með gögn er varði viðkvæmar upplýsingar um annað fólk.

Varðar marga

Þannig sé þetta ekki spurning um það hvort blaðamenn eigi að hafa heimild til þess að fara í gegnum gögn sem varði almenning miklu. Þarna sé spurningin sú hvort þeir hafi heimild til að renna augum yfir gögn um annað fólk, sem hafi ekkert til saka unnið.

Eva segist vona að þingið efni til rannsóknar á Ríkisútvarpinu og vinnubrögðum þess. Mikið sé í húfi. Vissulega sé ekki víst að blaðamenn eða aðrir sem kallaðir verði fyrir slíka nefnd muni tjá sig með skýrum hætti. En mikilvægt sé að láta reyna á það.

Viðtalið við Evu má sjá og heyra í heild sinni á mbl.is og á helstu hlaðvarpsveitum á borð við Spotify.

Í bakið á stjórninni

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og nú borgarstjóri, kom gjörsamlega í bakið á stjórn þess þegar hún klauf sig frá öðrum í kjaradeilu kennara sem lyktaði með samningum í nýliðnum mánuði. Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, alþingismaður og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Hún situr í stjórn SÍS og lýsir í viðtali við Spursmál hvernig þessi atburðarás var. Segir hún ástandið í stjórninni alls ekki gott í kjölfarið.

Björn Brynjólfur Björnsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir að skoða þurfi samningana í ljósi þess árangurs sem nú virðist ekki einu sinni í seilingarfjarlægð innan skólakerfisins. Hann hefur verið óþreytandi í því að benda á leiðir til þess að bæta kerfið en það hefur að mestu verið gert fyrir daufum eyrum kennara og skólastjórnenda.

Blæs hann á gagnrýni ýmissa sem segja að Viðskiptaráð eigi ekki að tjá sig um menntamál. Bendir hann á að Viðskiptaráð hafi fyrir meira en öld komið að stofnun Verslunarskóla Íslands og eins hafi samtökin verið meðal stofnenda Háskólans í Reykjavík.

Höf.: Stefán E. Stefánsson