Þverskurður er yfirskrift samsýningar í Þulu í Marshallhúsinu. Sýningin stendur til 5. apríl.
„Þetta er í fyrsta skiptið sem allir listamennirnir sem starfa með Þulu sýna í sama rými,“ segir Ásdís Þula Þorláksdóttir, stofnandi og eigandi Þulu. „Mér fannst spennandi hugmynd að tengja saman verk þessara tíu listamanna og að gefa áhorfendum færi á að kynnast þessum listamönnum öllum á einum stað. Við lögðum upp með að þetta yrði skemmtileg og létt sýning þar sem forvitni og leikgleði væri höfð að leiðarljósi.
Listamennirnir eru ólíkir og vinna í ólíka miðla. Það var gaman og krefjandi að setja saman þessa sýningu og þegar við vorum að vinna að upphenginu komu í ljós tengingar og samtöl milli verka og listamanna sem komu skemmtilega á óvart.“
Á leið í útrás
Ásdís Þula stofnaði galleríið árið 2020 og keypti og innlimaði Hverfisgallerí í reksturinn árið 2023 og segir að starfsemin hafi gengið mjög vel. „Ég er þakklát fyrir að starfa með svona mörgu góðu fólki. Ég er líka einlægur aðdáandi allra þeirra listamanna sem ég vinn með.“
Þula er að fara í útrás en nýtt rými gallerísins verður opnað í lok mars á Hafnartorgi. „Þar verður sýningarsalur sem hægt er að bóka sér heimsókn í og geta gestir þá skoðað verk allra þessara listamanna á sama stað. Við verðum einnig með sal fyrir sérstakar sýningar og Kristín Ríkharðsdóttir verður fyrsti listamaðurinn sem sýnir þar.“
Skapandi manneskja
Faðir Ásdísar, Tolli, er listamaður og það er systir hennar, Kristín Morthens, einnig. „Ég hef ekki sinnt myndlist á annan hátt en sem galleríeigandi,“ segir Ásdís Þula. „En ég lærði söngleikjaleiklist og kvikmyndaleik svo ég hef leikið, sungið og skrifað mikið.“
Árið 2019 sendi hún frá sér ljóðabókina Sólstafi en Kristín Þóra Haraldsdóttir tónskáld er að semja tónlist við ljóðin sem verður flutt á Big Bang Festival í tengslum við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur í apríl. „Ljóðabókin varð til á tíu vikna ferðalagi í Kína með föður mínum. Það ferðalag var mikið ævintýri, við ferðuðumst í trukkarútu þvert yfir Kína frá Peking til Kashgar og það fyllti mig einhverri tengingu við æskuna og ævintýrin sem leynast í hversdeginum þegar maður er barn svo ég fór að skrifa. Þetta var í raun mikill óður til Vísnabókarinnar sem ég ólst upp við. Ef ég fyndi tíma þá væri gaman að skrifa aðra bók.
Það hefur reynst mér mjög vel í starfi sem galleríeigandi að vera skapandi manneskja með grunn í sviðslistum. Það er bæði gefandi og gott, færir mér dýpri skilning og skapar sterkari tengingu í samstarfi mínu við listamennina sem starfa með okkur.“
Eftir að samsýningunni í Þulu lýkur mun franski ljósmyndarinn Didier Goupy sýna í galleríinu en hann hefur myndað íslenskt landslag síðustu tvö árin.
„Það er nóg að gerast. Við erum alltaf á flugi og erum spennt fyrir komandi tímum,“ segir Ásdís Þula.
Listamenn Þulu eru:
Anna Maggý
Auður Lóa Guðnadóttir
Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir
Davíð Örn Halldórsson
Guðmundur Thoroddsen
Kristín Morthens
Lilja Birgisdóttir
Rakel McMahon
Sunneva Ása Weisshappel
Tolli Morthens