Alexander Isak hefur átt frábært tímabil, kominn með 19 mörk og fimm stoðsendingar fyrir Newcastle United í úrvalsdeildinni til þessa. Hann er nú metinn á 100 til 150 milljónir sterlingspunda og fáir fá meira rými í dálkum þar sem meint félagaskipti leikmanna eru til skoðunar.
Það dettur þó hvorki né drýpur af honum innan um allar vangavelturnar og fyrirsagnirnar. Og hann er þess umkominn að skila sínu undir öllum mögulegum kringumstæðum og hefur gert frá því að ferill hans sem atvinnumaður byrjaði.
Hann man það sem gerst hefði í gær. Eftir að hafa leikið með félögum á borð við Celtic og Southampton sneri Jos Hooiveld aftur til AIK árið 2015, þar sem hann hafði orðið sænskur meistari fyrr á ferlinum. Meðan hann lék á Englandi átti hann í höggi við elítumiðherja eins og Sergio Agüero, Luis Suárez, og Wayne Rooney, en þegar hann kom aftur til AIK og var að búa sig undir tímabilið 2016 varð á vegi hans ungur og hæfileikaríkur leikmaður sem hann áttaði sig strax á að ætti eftir að ná langt.
„Einn daginn vorum við að spila 11 gegn 11 í stórri knattspyrnuhöll,“ rifjar Hooiveld upp. „Fyrir leik tók ég eftir grönnum pilti ganga í salinn. Það var 16 ára miðherji og ég hugsaði með mér: Hann er ungur og örugglega mjög fljótur – þannig að ég þarf að hlaupa mikið – en sjálfsagt ekki mikil ógn af honum knattspyrnulega.“
Það fór á annan veg. Þessi grannvaxni miðherji, Alexander Isak að nafni, reyndist búa yfir frábærri tækni. „Snemma leiks fékk hann boltann úti á kanti og hægði snöggvast á sér. Þannig að ég gerði slíkt hið sama. Síðan gaf hann allt í einu í, vúmm!, með tuðruna á tánum, hljóp inn fyrir mig og skoraði. Skyndilega vorum við undir, 1:0.“
Búmm, bang, 2:0
Gott og vel, hugsaði Hooiveld með sér. Þetta verður allt í lagi. Skömmu síðar endurtók leikurinn sig hins vegar. „Þarna var hann aftur mættur og hægði aðeins á sér og ég hugsaði: Ég held mig þá bara fyrir framan hann, annars gæti þetta gerst aftur. En hvað var a’tarna? Búmm, bang – hann tékkaði inn, rétt fyrir aftan mig og skoraði aftur,“ segir hann hlæjandi.
„Við vorum tveimur mörkum undir eftir aðeins korters leik. Hvað er eiginlega á seyði hérna? hugsaði ég með mér. Þessi gæi er svakalega góður. Ég er skreflangur á sprettinum en það er hann líka. Hann er öskufljótur og ofboðslega léttur á fæti; þegar hann rýkur af stað er eins og boltinn sé límdur við tærnar.“
Eftir þessa fyrstu æfingu gaf þjálfarinn sig á tal við Hooiveld. „Vá, tilkomumikið, ekki satt? Við höfum trú á því að hann eigi eftir að verða stórstjarna.“ Hooiveld kinkaði koll: „Það held ég líka.“
Þess var ekki langt að bíða að sænska þjóðin fengi að kynnast þessum hæfileikum en Isak skoraði í fyrsta leik í bæði deild og bikar. Fyrsti leikurinn í Alsvenskan var úti gegn Östersunds, sem Graham Potter þjálfaði á þeim tíma. Svíar höfðu haft veður af táningnum og sjónvarpsstöðin sem sýndi beint frá leiknum óskaði eftir viðtali við Isak í leikhléi, þegar lið hans var 1:0 yfir. Hooiveld steig inn í þá atburðarás. „Ekki aldeilis, lagsi. Þú ferð beint niður í klefa, einbeittu þér að seinni hálfleiknum, við þurfum annað mark.“
Hann fékk á hinn bóginn skömm í hattinn eftir leik enda eru þessi viðtöl víst skylda. „En mér fannst galið að taka viðtal við 16 ára strák í hans fyrsta leik.“
Sáu fyrsta markið
Hvort sem það var tilviljun eða eitthvað annað þá virkaði þetta og Isak skoraði annað mark fimm mínútum eftir hléið. „Ég minnist þess að hafa spjallað við liðsfélaga minn, Stefan Ishizaki, og sagt: Jæja, við urðum vitni að fyrsta markinu hans. Þessi gaur gæti átt eftir að verða mjög sérstakur. Þetta var einstakt augnablik og eftir þetta kom ekki annað til greina en að hafa hann í byrjunarliðinu. Hann var strax það góður.“
Samt sem áður skólaði Hooiveld Isak stundum til eftir æfingar. „Hann var mjög hávaxinn og svolítið luralegur og ég bjó að reynslu af því að vinna með hávöxnum miðherjum, þannig að við lögðum áherslu á fótavinnuna út frá grunnjafnvæginu, svo hann hefði betra vald á boltum sem hann fékk á lofti. Ég setti líka hindrunarband á hann til að hjálpa honum að efla styrk og stöðugleika og henti boltum á hann sem hann þurfti að leika til baka og annað slíkt.“
Hlýr og afslappaður
Hooiveld leggur áherslu á að hann vilji alls ekki fá klapp á bakið fyrir að hjálpa til við að gera Isak að þeim leikmanni sem hann er í dag, hann hafi aðeins haft gaman af því að sjá hann taka framförum. „Það var bara skemmtilegt að vinna með honum, vegna þess hversu opinn hann er. Hann er toppdrengur – virkilega hlýr og afslappaður, auk þess sem hann á dásamlega fjölskyldu. Hann er einn af þessum leikmönnum sem maður vill að vegni vel.“
Isak varð strax fastamaður hjá AIK. Hápunkturinn fyrsta tímabilið var tvenna í grannaslagnum í Stokkhólmi gegn Djurgårdens sem bar upp á 17. afmælisdag hans.
Fljótt varð ljóst að Isak yrði ekki lengi í Svíþjóð en mörg topplið í Evrópu sýndu honum áhuga, eins og Bayern München, Paris Saint-Germain, Manchester United, Liverpool og Chelsea, svo einhver séu nefnd. Á endanum stóð valið milli tveggja liða, að því er hann greindi frá í Voetbal International. „Eitt er að hafa áhuga og annað að sýna það í verki. Þegar upp var staðið komu bara tvö félög til greina: Dortmund og Real Madrid. Og verkefnið sem blasti við hjá BVB var meira spennandi. Klúbburinn sogaði mig til sín og virtist einfaldlega vera betri kostur.“
Rétt áður en hann gekk til liðs við þýska liðið varð hann yngsti markaskorari sænska landsliðsins frá upphafi, gegn Slóvakíu, en þar var núverandi félagi hans í Newcastle, Martin Dubravka, í markinu. Fjórum dögum áður varð hann yngsti leikmaðurinn til að verja heiður þjóðar sinnar þegar hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Fílabeinsströndinni.
Alexander Isak leikur fyrir Svíþjóð en hann á rætur að rekja til Eritreu. Fyrir sex árum, meðan hann lék með Willem II í Hollandi, sagði hann frá því í Voetbal International þegar hann heimsótti fyrst land foreldra sinna sumarið 2018. „Ég dvaldist þar bara í viku en landið er fallegt. Ég heimsótti knattspyrnuskóla og spilaði fótbolta með krökkunum. Það var gaman að upplifa lífsgleðina þarna, þó ekki væri nema um stund … mér þótti mikið koma til væntumþykjunnar sem ég fann fyrir. Eritrea er ekki auðugt ríki, margir berjast í bökkum. Þess vegna er ég þakklátur fyrir að hafa getað glatt börnin. Þessi vika í Eritreu færði mér tilfinningu sem ég þekkti ekki áður. Bros er svo miklu meira virði en efnislegir hlutir – og ómetanlegt að geta fært fólki það.“
Samanburður við Zlatan
Óhjákvæmilegt var líklega að Isak yrði borinn saman við Zlatan Ibrahimovic, sem einnig yfirgaf Svíþjóð ungur. Enda þótt þeir séu gjörólíkar manneskjur bjuggu þeir báðir snemma að gríðarlegum hæfileikum. Og báðir þurftu aðlögunartíma á meginlandi Evrópu. Fyrsta ár Ibrahimovic hjá Ajax var erfitt – minnstu munaði að hann segði skilið við félagið – og það tók Isak líka tíma að slá í gegn.
Hann lék undir stjórn margra knattspyrnustjóra en þeirra fyrstur var Thomas Tuchel sem nú stýrir enska landsliðinu. En hann var ungur og mat manna að hann væri ekki tilbúinn í slaginn. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið mark og stoðsending í 5:0 sigri á Magdeburg í þýska bikarnum. En hann fékk lítið að spreyta sig og það var erfitt. „Auðvitað hefði ég viljað spila meira,“ sagði Isak við Voetbal International 2019. „Það er í senn erfitt og svekkjandi að þetta hafi ekki gengið betur en á móti kemur að það að æfa með heimsklassa mönnum hefur gert mig sjálfan að betri leikmanni.“
Hann lék oftar með varaliði Dortmund, eins og vináttuleik gegn hollenska liðinu Willem II í janúar 2019.
Þegar 10 mínútur voru eftir var Dortmund 2:1 undir en þá steig Isak upp og jafnaði og Achraf Hakimi, sem nú er hjá PSG, skoraði sigurmarkið á 90. mínútu. Willem II þótti mikið til hans koma og bar víurnar í Isak. Hann var opinn fyrir þeim lánsskiptum enda þótt það þýddi að hann væri allt í einu lentur í miðjumoði í hollensku deildinni. Hooiveld hafði áður sagt honum að dvöl í Hollandi myndi bara gera honum gott. „Við spjölluðum mikið saman eftir að athyglin fór að beinast að honum,“ rifjar Hooiveld upp. „Ég réð honum að fara til Hollands vegna þess að það er paradís fyrir framherja. Hann fór fyrst til Dortmund sem var að sjálfsögðu frábært skref. Þegar slík tækifæri koma upp stökkva menn á þau. En eftir það, hjá Willem II, feykti hann þakinu af kofanum.“
Einn af liðsfélögum hans í Hollandi var Daniel Crowley, sem komið hafði upp úr akademíunum hjá Aston Villa og Arsenal. Sá enski áttaði sig strax á gæðum Isaks. „Við sáum um leið hvernig karakter hann er og leikmaður. Hann vissi upp á hár hversu góður hann væri, án þess að því fylgdi hroki. Það var þessi ára yfir honum sem benti til þess að honum væri fullkunnugt um hæfileika sína. En um leið er hann auðmjúkur og virkilega fínn náungi, rólegur og hæglátur, eins og leyniskytta. Ég vissi um leið og ég sá hann að hann ætti eftir að verða virkilega góður.“
Og það stóð heima. Strax í fyrsta leik, þegar hann kom inn á gegn FC Utrecht úti, sýndi Isak hvers hann var megnugur. Það var þó Crowley sem reið baggamuninn í þeim leik. „Einhver átti sendingu inn fyrir vörn þeirra. Hún var misheppnuð og virtist bara vera á leiðinni beint til markvarðarins. Tók hann þá ekki á sprett og náði boltanum, hann er alveg lygilega fljótur.“
Ótrúlegar afgreiðslur
Isak festi sig í sessi og ekki leið á löngu þar til hann skoraði í sjö leikjum í röð, meðal annars þrennu úr vítum gegn Fortuna Sittard og tvennur gegn bæði De Graafschap og Heracles. Sigurmark hans gegn Feyenoord úti [3:2] var líka eftirminnilegt. „Hann lyfti boltanum yfir einn varnarmann og síðan annan áður en hann skoraði framhjá markverðinum,“ rifjar Crowley upp. „Ég hafði aldrei séð neinn afgreiða boltann með þessum hætti, skot hans eru svo kraftmikil og nákvæm.“
Hooiveld tekur undir þetta. „Afgreiðslur hans eru sannarlega ótrúlegar, eins og hraðabreytingarnar og hæfni hans til að leika á menn. Hann er flinkur í því að draga boltann með sér og knatttækni hans almennt og yfirvegun eru í hæsta gæðaflokki.“
Tíminn hjá Willem II var vendipunktur, þar byrjaði hann að sýna hvers hann væri megnugur upp við markið. Isak dró vagninn og liðið vann hvern leikinn af öðrum í deildinni, auk þess sem það komst alla leið í úrslit bikarsins. Sjálfur skoraði hann bæði í undanúrslitaleiknum gegn AZ og í vítakeppninni sem þurfti til að knýja fram úrslit.
Með honum frammi var Vangelis Pavlidis, Grikkinn sem gerði þrennu gegn Barcelona fyrir skemmstu. „Við vorum með virkilega gott lið en Alex gerði okkur ennþá betri,“ segir Crowley. „Áður en hann kom vorum við miðlungslið, sem hvorki gat unnið deildina né fallið. En koma Alex breytti öllu. Hann reyndist okkur frábærlega, enda á öðrum stað en við út af hraðanum, tækninni og eiginleikanum til að skora mörk.“
Crowley, sem nú leikur með MK Dons í Englandi, fylgdist grannt með sínum nýja liðsfélaga frá degi til dags. „Hann var ótrúlegur á æfingum, á hverjum einasta degi. Agalega góður. Það var hrein unun að fylgjast með honum. Ekki fór milli mála að hann var kominn til Willem II til að sýna hæfni sína og tryggja sér sölu til stórliðs. Það sem hann er að gera í ensku úrvalsdeildinni núna kemur mér alls ekki á óvart.“
Sló í gegn á Spáni
Næsti áfangastaður var Spánn en Real Sociedad keypti Isak af Dortmund sumarið 2019 og áfram gustaði af honum, enda þótt hann byrjaði fyrst um sinn oftast sem varamaður. 6. febrúar 2020 stimplaði hann sig svo rækilega inn með tveimur mörkum og tveimur stoðsendingum í 4:3-sigri á Real Madrid í Konungsbikarnum. Sociedad vann bikarinn um vorið.
Mikel Merino, sem nú leikur með Arsenal, var liðsfélagi Isaks á Spáni og fór á sínum tíma yfir áhrif hans á liðið í viðtali við CBS: „Hann er rosalega mikilvægur fyrir okkur, stendur sig ótrúlega vel og hefur aðlagast aðstæðum, við dýrkum hann allir í klefanum.“
Þeir voru ekki að kynnast í fyrsta sinn. „Ég var svo lánsamur að fá að spila með honum hjá Dortmund, við vorum þar saman í sex mánuði. Það kom mér á óvart að hitta hann aftur hér hjá La Real en var um leið ákaflega glaður. Við höfum farið vandlega yfir tímann okkar hjá Dortmund,“ sagði Merino sem einnig hefur leikið með Newcastle. Það var þó áður en Isak kom þangað.
Isak var kominn á beinu brautina og á öðru tímabilinu varð hann yngsti leikmaðurinn til að skora í fimm leikjum í röð í La Liga á þessari öld. Í sjötta leiknum geirnegldi hann þetta svo með þrennu gegn Alaves.
Mjög gott hugarfar
Skömmu eftir að Isak var genginn í raðir Newcastle sagði Merino í samtali við The Athletic: „Hugarfar hans er mjög gott. Hann lagar sig að öllu sem honum er sagt. Þegar hann kom hingað [til Sociedad] þurfti hann að venjast nýju leikskipulagi, þar sem hlutverk hans var að hreyfa sig með ákveðnum hætti á vissum augnablikum með hliðsjón af því hvar boltinn var. Hann náði þessu strax, þó hann væri ekki bara í nýju liði, heldur nýju landi, sem sýnir hversu eldklár hann er. Hafandi þessa hæfileika, hraðann og styrkinn, þá er enska úrvalsdeildin rétti staðurinn fyrir hann.“
Einmitt það hefur sænski miðherjinn með eritresku ræturnar sýnt og sannað, leik eftir leik. Og þeim sem unnu með honum við upphaf ferilsins er ekki brugðið. Nú vona stuðningsmenn Newcastle að hann geti fært þeim bikar um næstu helgi, þegar liðið gengur á hólm við Liverpool á Wembley-leikvanginum.