Úr ólíkum áttum
Úr ólíkum áttum
Þórdís Kolbrún R.
Gylfadóttir
thordiskolbrun@althingi.is
Í ræðu minni á landsfundi um síðastliðna helgi sagði ég að forsenda frelsis væri friðurinn. Við Íslendingar njótum þess að búa við frið og erum eitt frjálsasta samfélag veraldar.
Á meðan svokallaðar friðarviðræður eiga sér stað á milli forseta Rússlands og Bandaríkjanna, rignir sprengjum yfir úkraínskar borgir, innviði, almenna borgara og hermenn sem verja landið. Spurt er, af hverju vill fólkið ekki frið? Í fjölmiðlum landa, sem hafa ekkert lagt af mörkum nema peninga, er hneykslast á „stríðsvilja“ þjóðar sem hefur valið að láta ekki erlendan innrásarher valta óáreittan yfir fósturjörð sína. Eru það ekki býsna yfirlætislegar umvandanir?
Hvað er það sem raunverulega stendur í vegi fyrir friði? Það er nú spurningin. Vitaskuld er augljóst, öllum nema þeim sem láta glepjast af lygum og afbökunum, að það er Rússland sem rauf friðinn og hefur haldið áfram að reyna að berja nágrannaþjóð sína til hlýðni og undirgefni. Við blasir að árásaraðilinn getur bundið enda á stríðið með þeirri einföldu ákvörðun að hypja sig aftur heim. En þar með væri ekki kominn á raunverulegur friður því Rússland þarf líka að skila tugum þúsunda úkraínskra barna sem hefur verið stolið, bæta Úkraínu upp það tjón sem er bætanlegt og byggja þarf upp landið að nýju. Þá væri kominn á friður. Hann er nauðsynleg, en ekki nægjanleg, forsenda þess að Úkraína geti aftur snúið sér að því verkefni sem er hinn raunverulegi draumur yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar; að losna undan langvarandi samkrulli spillingar embættismanna- og auðstéttar. Að verða raunverulega frjáls.
Á íslensku eigum við orðin „frjáls“ og „laus“. Í ensku þýðir orðið „free“ ekki bara frjáls, heldur líka laus. Það sem meira er, merkir orðið „free“ líka ókeypis, eða endurgjaldslaust. Raunverulegt frelsi fæst þó aldrei ókeypis og því er ekki náð með því eingöngu að vera laus við kúgun. Frelsið er miklu flóknara og vandasamara. Ef við leiðum hugann að því hvað það þýðir að vera raunverulega frjáls áttum við okkur á því að það er einungis á færi einstaklingsins að öðlast frelsi. En til þess þarf samfélagið að bjóða upp á það tækifæri til að borgararnir njóti frelsis til að lifa sínu lífi til fullnustu, frelsis til að hugsa, gagnrýna, ráða sér sjálfur og skapa. Frelsis til að nýta krafta sína, afla sér menntunar. Frelsis til að elska aðra manneskju, börnin sín og elska þjóð sína. Frelsis til að lifa.
Eftir síðari heimsstyrjöld ríkti „friður“ í Eystrasaltsríkjunum í þeim skilningi að þar var ekki stríð. En fólkið var býsna langt frá því að vera frjálst. Þjóðirnar voru undirokaðar og kúgaðar. Í dag búa þessar þjóðir sig undir að færa fórnir ef frelsi þeirra er ógnað að nýju. „Friður“ í skjóli kúgara er enginn friður í huga þeirra sem hann þekkja á eigin skinni.
Frjálsar þjóðir
Þegar Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði Atlantshafssáttmálann fyrir Íslands hönd í Washington 4. apríl 1949 velktist enginn sem hlýddi á ávarpið í vafa um hvar Ísland stæði í samfélagi þjóðanna. „[V]ið tilheyrum og viljum heyra til því frjálsa samfélagi frjálsra þjóða, sem nú er formlega verið að stofna. Að vísu er það rétt, sem ég sagði áðan, að aðilar þessa samnings eru ólíkir um margt. En það er einnig margt sem sameinar okkur traustum böndum. Sama hættan ógnar okkur öllum í þeim heimi sem við lifum þar sem fjarlægðirnar eru horfnar, er það áreiðanlegt að annaðhvort njóta allir friðar – eða enginn. Sömu upplausnaröflin eru hvarvetna að sinni ömurlegu iðju. Alls staðar ásaka þau okkur, sem erum að vinna fyrir friðinn, um að við viljum spilla honum.“
Það er ótrúlegt hvernig sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.
Veröld sem var?
Aldrei hef ég upplifað eins hraðar breytingar á því hvernig ég horfi á heiminn og undanfarnar vikur. Nú ríður á að við reynum að skilja hvers virði það frelsi er, sem við höfum freistast til þess að trúa að væri ókeypis. Það getur þurft að fórna þægindum, þar á meðal efnahagslegum, fyrir frelsið. Það er raunveruleiki sem við þurfum að vera tilbúin að skilja.
Þær þjóðir sem eru frjálsastar eru þær þjóðir sem búa við lýðræði. Lýðræði er byggt á trausti. Einræði er byggt á ógnarstjórn. Einræði þrífst eingöngu ef grafið er undan traustinu og trausti á grundvallarstofnunum í lýðræðisríki til að tryggja að manneskjan hafi raunverulega getu til að vera frjáls.
Við höfum þá verðmætu stöðu að verja að á Íslandi ber fólk meira traust til grundvallarstofnana samfélagsins en víða annars staðar. Í þessu felast gríðarleg verðmæti sem allir ábyrgir stjórnmálamenn eiga að standa saman um að varðveita. Þess vegna þurfum við sem tölum fyrir minni ríkisumsvifum að gæta að þessu grundvallaratriði. Og þau sem bera ábyrgð á opinberum rekstri þurfa að taka sínar skyldur alvarlega; að gæta þess að framganga þeirra grafi ekki undan því trausti sem þeim er sýnt.
Að lokum mæli ég með bókinni On Tyranny eftir Timothy Snyder, hún er stutt en stór; aðeins 120 síður en full af djúpri merkingu um raunverulegt eðli frelsisins. Ég óska nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins alls hins besta og lesendum góðrar helgar.