Læknirinn Þorsteinn Gunnarsson, sem býr nú og starfar í Svíþjóð, skaust heim til Íslands um síðustu helgi. Ekki til að stunda læknastörf heldur var erindið að spila á tónleikum með The Icelandic Pop Orchestra, en hún er skipuð „gömlum“ kempum úr tónlistinni, þremur læknum og einum hagfræðiprófessor. Var bandið stofnað í tengslum við Lundúnaferð sem farin var síðastliðið vor.
„Þá fórum við í gamla Bítlastúdíóið á Abbey Road og tókum þar upp heila plötu á tveimur dögum. Þarna vorum við í sama upptökuherbergi og Bítlarnir spiluðu yfir 190 af sínum lögum inn á plötur í,“ segir Þorsteinn.
„Við sömdum tólf popplög og platan er komin á Spotify, en síðustu lögin komu út í síðustu viku og því héldum við útgáfutónleika um síðustu helgi í Salnum.“
Þorsteinn er ekki aðeins heilaskurðlæknir, nú yfirmaður á krabbameinsdeild barna, heldur einnig trommari. Hann gaf sér tíma frá stífum hljómsveitaræfingum og vinahittingum til að setjast niður með blaðamanni og ræða ferilinn sem er nokkuð óvenjulegur. Ekki þekkir maður að minnsta kosti marga heilaskurðlækna og hvað þá trommandi heilaskurðlækna!
Slakar á við trommurnar
Snemma fór að bera á þörf hjá drengnum fyrir að tromma, en Þorsteinn er alinn upp í Fossvogi og nokkur tónlistaráhugi var á heimilinu.
„Pabbi var tónlistaráhugamaður og spilaði á klarínett og harmonikku og afi minn var líka áhugamaður um tónlist,“ segir Þorsteinn.
„Trommurnar komu fljótt til mín; það var eiginlega ekkert val sem ég hafði. Ég man bara varla eftir mér öðruvísi en spilandi á trommur og í raun löngu áður en ég átti trommusett,“ segir Þorsteinn og rifjar upp atburð sem átti eftir að hafa mikil áhrif á barnið.
„Ég man eftir að hafa verið á jólaballi Landsbankans fimm ára gamall á Hótel Sögu. Þar var Raggi Bjarna að spila með hljómsveit og ég settist við sviðið og horfði bara dolfallinn á trommuleikarann. Það var það eina sem ég gerði. Síðan smíðaði ég mínar eigin trommur og eftir að ég nöldraði nógu mikið í foreldrum mínum fékk ég trommusett ellefu ára,“ segir Þorsteinn, en fram að því hafði hann lært á trompet í tónlistarskóla.
„Ég skipti þá yfir í trommur, og lærði fyrst hjá Reyni Sigurðssyni og svo í FÍH-skólanum þegar hann var stofnaður þegar ég var tólf ára. Tónlistarferillinn hófst í bílskúrnum hjá foreldrum mínum,“ segir hann og var Þorsteinn þá í fyrstu heillaður af rokki og pönki.
„Ég hlustaði mikið líka á þá tónlist sem var í gangi þá, Police og mína uppáhaldshljómsveit Queen sem var þá vinsæl. En fyrstu hljómsveitir sem ég spilaði í voru hálfgerðar pönkhljómsveitir. Ég fékk síðar mikinn áhuga á fönki og djassi þannig að í raun finnst mér gaman að spila allar tegundir tónlistar; allt frá djassi yfir í þungarokk.“
Hvað er það við trommurnar sem heillar þig?
„Ég hef oft hugsað um það. Það er eitthvað sem gerir það að verkum að fyrir mig er þetta eins konar hugleiðsla. Fyrir nokkrum árum lærði ég það sem heitir „mindfulness meditation“ en þar lærir maður að slappa af og komast í ákveðið hugarástand. Þegar ég var búinn að læra það hugsaði ég: bíddu nú við, þetta er bara nákvæmlega eins og að sitja bak við trommusettið! Og ég þarf ekki að berjast við að komast í þetta hugarástand því um leið og ég byrja að spila tónlist, jafnvel þó hún sé agressív, þá er ég inni í mér afslappaður. Fyrir mig er þetta ein leið til að slaka á.“
Með Stjórninni í Eurovision
Á unglingsárunum stefndi Þorsteinn á frama í tónlist og fékk ungur að spila með mjög reyndum tónlistarmönnum.
„Frá sextán ára aldri hafði ég þetta að hálfgerðri atvinnu. Ég spilaði með skólanum og öðlaðist bæði reynslu og þekkingu á tónlistarbransanum. Um tvítugt fór ég að hugsa, af því ég er nú frekar jarðbundinn, að þetta væri frekar erfitt starf og ekki mjög praktískt. Ég hafði oft hugsað að ég þyrfti kannski að læra eitthvað annað líka til þess að geta séð fyrir mér. Mamma hafði alltaf sagt það; að tónlist væri fín en ég ætti að passa að læra eitthvað annað líka. Ég fann líka að ég vildi gera eitthvað annað, þó ég væri alls ekki kominn með leiða á tónlist,“ segir Þorsteinn, en hann skráði sig í læknadeildina eftir stúdentinn.
„Ég gat haldið áfram að spila tónlist þó ég væri í læknanáminu. Þegar ég komst inn í læknadeildina, nánast á sama degi, var ég ráðinn í Stjórnina sem var þá ekkert sérstaklega fræg hljómsveit. Við Sigga Beinteins höfðum verið að spila saman í annarri hljómsveit sem hét Kikk og byrjuðum samtímis í Stjórninni ásamt Grétari Örvarssyni. Það var þá húsband á Hótel Íslandi,“ segir hann.
„Þannig að fyrstu árin í læknadeildinni var ég samtímis í Stjórninni og það var mikið að gera,“ segir Þorsteinn og var hann með á fyrstu tveimur plötum Stjórnarinnar og fór auk þess með hljómsveitinni til Zagreb í Eurovision þar sem þau lentu eftirminnilega í fjórða sæti með lag sitt Eitt lag enn árið 1990.
„Ég hafði líka farið í Eurovision með Sverri Stormsker nokkrum árum áður. Þetta var rosalega skemmtilegt og gaman þegar við lentum í fjórða sæti sem var besti árangur Íslands þá.“
Óhætt er að segja að nóg hafi verið að gera hjá unga læknanemanum og trommaranum.
„Allar helgar vorum við bæði að spila á „sjóum“ á Hótel Íslandi og svo á böllum til hálffjögur. Og svo túruðum við um landið þegar tækifæri gafst. Svo eftir tvö ár var orðið of mikið að gera þannig að ég tók eitt ár í rannsóknarverkefni svo ég gæti stjórnað mér meira sjálfur. Eftir það var of mikið að gera í náminu þannig að ég hætti í Stjórninni og gekk til liðs við Loðna rottu, sem var skemmtileg pöbbahljómsveit,“ segir hann.
„Þegar ég fór svo í sérnám til Svíþjóðar tók ég mér langa pásu frá hljómsveitabransanum og byrjaði í raun ekki aftur fyrr en ég flutti til Kanada.“
Saknar ekki vaktavinnunnar
Í læknanáminu heima hafði Þorsteinn unnið í nokkrar vikur í starfsnámi á Borgarspítalanum undir handleiðslu heilaskurðlækna og fann þá strax að þarna vildi hann vera, en hann hafði einnig fengið brennandi áhuga á heila- og taugakerfinu þegar hann vann að rannsóknarverkefni sínu.
„Ég sá strax að þetta var fjölbreytilegt starf; maður vinnur við móttöku, á stofugangi, á gjörgæslu og við að skera upp. Stundum er maður í aðgerðum sem hafa verið planaðar í marga mánuði og svo í öðrum sem maður vissi ekki að stæðu til nokkrum mínútum fyrr. Læknarnir sem ég vann með á Borgarspítalanum voru rosalega flinkir og miklar fyrirmyndir. Ég heillaðist af þessu,“ segir Þorsteinn sem svo valdi sér sérnám í heilaskurðlækningum í Linköping í Svíþjóð.
„Ég sé ekki eftir því. Ég var þarna í fimm ár en langaði svo að læra meira og fór í undirsérgreinanám í heilaæðaskurðlækningum og hryggjarskurðlækningum. Þá fór ég til Toronto í framhaldsnám og ætlaði að vera í tvö ár en bætti svo við tveimur árum og lærði þá innæðalækningar,“ segir Þorsteinn og útskýrir að á þessum tíma hafi verið ljóst að framtíðarmeðferðir hvað varðar æðaaðgerðir í heila yrðu ekki gerðar í opnum heilaaðgerðum, heldur færu þær fram í gegnum nára.
„Eftir fjögur ár í Kanada breyttist lífið og ég kynntist konu minni sem er líka heilaskurðlæknir,“ segir Þorsteinn, en kona hans Paula er frá Argentínu og eiga þau saman tvö börn, tólf og fimmtán ára, en Þorsteinn á einnig þrjá uppkomna syni úr fyrra sambandi.
Þorsteinn og Paula fengu svo bæði vinnu á stórum spítala í borginni Hamilton sem er rétt fyrir utan Toronto.
„Þar fékk ég vinnu, meðal annars sem barnaheilaskurðlæknir en ég hafði alla tíð haft áhuga á því,“ segir Þorsteinn.
Eftir tíu ár í Hamilton fengu hjónin starfstilboð í Svíþjóð og úr varð að þau pökkuðu saman búslóð og tveimur börnum og fluttu yfir hafið til Gautaborgar.
Talið þið hjónin bara um heilann og æðar á kvöldin heima?
Þorsteinn skellir upp úr.
„Já, stundum. Það er mikið rætt. Ég man eitt sinn þegar strákurinn okkar, sem er núna fimmtán, kom inn í herbergi okkar þegar hann var rétt byrjaður að ganga og tala. Paula var þá að sýna mér tölvusneiðmyndir af heila. Þá heyrist í þeim stutta, „oh, it’s just a brain“,“ segir Þorsteinn og hlær.
„Paula vinnur nú á Sahlgrenska en ég er kominn í nýja vinnu og hættur í vaktavinnu. Ég er nú yfirmaður barnakrabbameinslækninga í Gautaborg á barnaspítalanum. Ég þekki vel til krabbameina barna í heila, en er þarna meira í stjórnunarstöðu en þetta er stærsta barnakrabbameinsdeild í Svíþjóð,“ segir Þorsteinn, en hann hefur ekki skorið upp í tvö ár.
„Ég er búinn að vinna svo mikið og það var kominn tími á breytingar. Ég sakna kannski nálægðar við sjúklinga en ég sakna ekki vaktavinnunnar. Ég var á vakt annan eða þriðja hvern dag í 25 ár. Oft var maður á vakt á nóttunni og vann svo daginn eftir. Það kom alveg fyrir nokkrum sinnum að ég var vakandi í þrjá, fjóra sólarhringa. Í Kanada er allt annað og meira vinnuálag en hér.“
Með ábyrgð á lífi fólks
Fæst okkar myndu vilja bera ábyrgð á að krukka í heila fólks og má segja að heilaskurðlæknar séu bókstaflega með líf fólks í höndunum.
„Það er gríðarleg ábyrgð sem fylgir starfinu. Það er erfitt að lýsa því. Þegar maður er yngri og er aðstoðarlæknir er maður alltaf að vinna undir eftirliti og ábyrgð annarra en þegar maður er sérfræðingur er maður sjálfur að bóka eigin aðgerðir. Ég man enn þegar ég bókaði mína fyrstu barnaaðgerð í Kanada. Þó maður sé reyndur sérfræðingur eru kröfurnar mjög miklar og maður ber líka ábyrgð á aðstoðarlæknum sem vinna undir manni. Í mörgum aðgerðum, og ekki síst heilaaðgerðum, er það svo að ef eitthvað fer illa getur allt farið til andskotans. Þá getur fólk látið lífið, lamast eða fengið annan varanlegan skaða fyrir lífstíð,“ segir hann.
„Smám saman nær maður tökum á starfinu, en ábyrgðin sem maður finnur minnkar ekkert,“ segir Þorsteinn og tekur sem dæmi ábyrgðina sem fylgir því að vera með nýfætt barn í margra klukkutíma heilaaðgerð.
„Maður fer í einhvern sérstakan gír og leysir verkefnið. Það verður að leysa það því það er ekki hægt að hætta við. Stundum er það þannig að þegar aðgerðin er búin og dúkarnir eru teknir í burtu, þá sér maður sjúklinginn aftur. Þar undir er þá kannski pínulítið barn og ábyrgðin hellist yfir mann aftur. Og frammi á biðstofu eru kannski fimmtán manns grátandi að bíða eftir fréttum,“ segir Þorsteinn.
„Þegar aðgerð lýkur er samskiptum við sjúklinginn ekkert lokið; hann þarf á eftirliti að halda og því þarf að byggja upp traust við bæði sjúkling og fjölskyldu hans. Aðgerðin sjálf er kannski ekki mest íþyngjandi á endanum, heldur þessi ábyrgð á lífi fólks. Það er mjög sérstakt,“ segir Þorsteinn og segist vissulega hafa lent í mörgu óvæntu í aðgerðum.
„Lengsta aðgerð sem ég hef tekið þátt í var 25 klukkutímar. Þá var maður alveg fókuseraður í 25 tíma en um leið og síðasta sporið var tekið, fattaði maður hvað maður var þreyttur,“ segir Þorsteinn og lýsir að í þeirri aðgerð hafi þurft að ná heilaæxli úr ungu barni; æxli sem var vafið utan um heilastofninn.
„Í þessari sérgrein þarf líka að nota dómgreindina til að meta hvenær er mál að hætta í aðgerð. Stundum er það þannig að ef maður heldur áfram fylgir því of mikil áhætta fyrir sjúklinginn,“ segir Þorsteinn.
Í heilaaðgerðum þarf stundum að opna höfuðkúpuna eða gera á hana göt, en aðrar fara fram í gegnum æðar. Að mörgu þarf að huga þegar örmjór vír er þræddur í gegnum æðar og alla leið upp í heila þar sem vírinn þarf að hitta á réttu æðarnar og lagfæra það sem þarf að laga. Þetta er mikil nákvæmnisvinna, að sögn Þorsteins.
„Stundum er hætt við ef hættan er á því að gat komi á æðar. Ef það gerist getur blætt inn í höfuðið og sjúklingur jafnvel látist. Stöðugt þarf að nota dómgreindina til að ákveða hvort eigi að reyna áfram, eða bakka út. Ég hef aldrei séð eftir því að bakka út ef mér líst ekki á blikuna.“
Að vera algjörlega heiðarlegur
Hvernig tekst heilaskurðlæknir andlega á við að upplifa dauðsföll, taka á móti fólk með slæma höfuðáverka og horfa upp á fólk jafnvel örkumlast fyrir lífstíð?
„Maður verður auðmjúkur gagnvart lífinu og þakklátur fyrir það sem maður hefur. Maður sér hvernig sumu fólki er kannski á unga aldri kippt út úr lífinu. Maður knúsar börnin sín stundum extra mikið þegar maður kemur heim eftir erfiða daga. Í Kanada sá ég mörg börn með slæma höfuðáverka eftir ofbeldi foreldra eða annarra. Jafnvel sá ég lítil börn myrt af foreldrum sínum. Maður missir stundum aðeins trú á mannkyninu og þegar maður sér þessi börn sem verða fyrir ofbeldi, áttar maður sig á að það eru ekki öll börn sem eiga möguleika í lífinu. Það er búið að skemma þau svo mikið. Það er ekki rétt gefið,“ segir Þorsteinn.
„Það er auðvitað sérstakt að sjá fólk deyja, en allt sem gerist í vinnunni, hefði gerst hvort sem ég hefði verið þarna eða ekki. Ef ég hefði ekki verið þarna, hefði bara einhver annar verið þarna. Ég sé sjálfan mig í því að ég er þarna til að hjálpa, í stað þess að sjá ljótleikann í því. Einhvern veginn verður maður að taka faglega á þessu; brynja sig án þess að loka á allar tilfinningar eða samkenndina.“
Þorsteinn segir afar mikilvægt að geta talað við sjúklinga og aðstandendur á varfærinn en heiðarlegan hátt.
„Það er mikil tækni sem felst í því og ég myndi segja að þar hafi íslensku heila- og taugaskurðlæknarnir verið frábærar fyrirmyndir. Þeir voru ótrúlega flinkir að tala við fólk og ég lærði svo mikið af þeim. Mikilvægast er að vera algjörlega heiðarlegur og ekki veigra sér við að segja sannleikann, en það er mikilvægt hvernig maður setur það fram. Maður verður að muna að fólkið sem maður er að tala við hefur aldrei verið eins stressað í lífinu og á þeirri stundu í þessum aðstæðum. Það verður að koma því til skila að allt verði gert sem hægt er og að við séum í þessu saman. Það er list að tala við fólk á eins varfærinn hátt og hægt er, en svo erum við líka öll ólík og maður þarf að kunna að lesa í fólk.“
Þungarokk heilaskurðlækna
Þorsteinn unir sér vel í Svíþjóð; segir landið fjölskylduvænt og að hann sé ánægður í nýja starfinu.
„Þar er ekki sama lífsgæðakapphlaup og hér, það er stór munur. Krökkunum líður vel í skólanum og við erum í góðri vinnu; það er það sem skiptir mestu máli.“
Ertu alltaf að æfa þig á trommurnar í frítíma?
„Já, ég er búinn að byggja stúdíó heima sem ég nota, en ég er að spila mikið með öðru fólki. Ég er búinn að koma mér upp aðstöðu þar sem ég get tekið upp í miklum gæðum og get því spilað inn á plötur heima hjá mér,“ segir Þorsteinn sem er að spila í alls kyns hljómsveitum, í Svíþjóð og hér heima.
„Ég spila í þungarokkshljómsveit heilaskurðlækna í Gautaborg; The Locked Inns. Svo er ég að spila í blús- og soul-hljómsveit með Birni Vilhjálmssyni bassaleikara sem hefur búið í Svíþjóð í þrjátíu ár. Það er mjög flott hljómsveit. Svo er ég líka af og til að spila með tveimur söngkonum sem gefa út eigið efni og í þeim verkefnum spilar annar íslenskur bassaleikari, Benedikt Gunnar Ívarsson. Ég kem svo til Íslands í alls kyns sérverkefni, eins og þegar ég kom og spilaði í Hörpu á afmæli Jóns Ólafssonar. Svo er ég í Meik, sem er Kiss-grúppa og ég hef líka komið heim til að spila með Stjórninni og hinum og þessum,“ segir hann.
„Ég held mér alltaf við og þetta gefur mér sálarró. Konan mín hefur fullan skilning á þessu og hefur gaman af. Mörgum finnst skrítið að ég spili á trommur, en ef ég hlypi maraþon eða safnaði bílum þætti það ekki skrítið. Þetta er bara hljóðfæraleikur,“ segir Þorsteinn og nefnir að samveran við aðra í tónlistinni gefi sér mikið.
„Það er svo mikilvægt í lífinu að hafa félagsskap. Þegar maður er í hljómsveit þarf maður að hlusta á alla og hún þarf að hljóma eins og eitt líffæri. Að vera í hljómsveit er að mörgu leyti ekkert ólíkt skurðlækningum. Maður menntar sig, undirbýr sig, stillir upp og svo er spilað. Allt þarf að ganga vel fyrir sig og maður vinnur með fullt af fólki. Þetta kennir manni mannleg samskipti, ég tala nú ekki um þegar maður er með sama fólki daginn út og inn á túrum. Þessi félagslega reynsla hljómsveitalífsins hefur nýst mér vel í læknastarfinu.“
Þannig að heilaskurðlækningar og trommuleikur passa mjög vel saman?
„Já, það passar vel saman, algjörlega. Mér finnst gaman að nördast í þessu og er til að mynda í Facebook-grúppu, trommari.is, þar sem við skiptumst á skoðunum og ræðum um allt niður í skrúfur og rífumst svo um liti á trommusettum,“ segir Þorsteinn og hlær.
Hvernig er þitt trommusett á litinn?
„Ég á að minnsta kosti tuttugu trommusett í öllum litum!“