Sævar Kristinsson
Sævar Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjarni langtímastefnu er að viðurkenna getu okkar til að móta framtíðina með tilliti til þarfa framtíðarkynslóða.

Karl Guðmundur Friðriksson, Sævar Kristinsson

Nýlega kom út áhugaverð skýrsla í Finnlandi um mikilvægar framtíðaráskoranir og stefnumarkandi aðgerðir til að takast á við langtímaverkefni samfélagsins. Í dag mótast flestar ákvarðanir stjórnvalda af skammtímaáskorunum og eru fyrst og fremst til þess fallnar að bæta hag núverandi kynslóða, en miðast síður við að mæta þörfum komandi kynslóða. Skýrslan er áhugaverð fyrir margra hluta sakir, svo sem vegna innihaldsins og skýrrar framsetningar á því hvað þurfi að gera, en jafnframt er áhugavert að slík skýrsla sé yfir höfuð gerð.

Finnar hafa löngum verið meðal fremstu þjóða þegar kemur að því að greina framtíðaráskoranir og verið þannig betur undirbúnir til að takast á við umbreytingar á ólíkum sviðum. Hérlendis hefur Framtíðarsetur Íslands bent stjórnvöldum á fjölmörg atriði þegar kemur að því að takast á við nauðsynlegar breytingar til framtíðar.

Umrædd skýrsla, sem finna má á vef Framtíðarseturs, er nokkurs konar hvítbók um tækifæri og áskoranir á langtímastefnu Finnlands með hliðsjón af niðurstöðum Framtíðarfundar Sameinuðu þjóðanna sem haldinn var í september síðastliðnum. Hún endurspeglar sérstöðu landsins og þá viðurkenningu sem Finnland hefur fengið á sviði framtíðarfræða, jafnt fyrir fyrirtæki svo og áhrif framtíðarvitundar á stjórnsýslu landsins. Enn fremur útskýrir hún mikilvægt hugtak sem á við um stjórnvöld víðs vegar um heiminn, „áhrifabil“, bilið milli þekkingar á framtíðinni og ákvarðanatöku. Áhrifabil vísar sem sagt til þess bils sem getur myndast á milli þess sem stjórnvöld vita um framtíðina og þeirra ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þessarar þekkingar. Það getur haft áhrif á langtímastefnu, sérstaklega þegar kemur að menntamálum, velferð og öðrum mikilvægum samfélagslegum þáttum.

Bent hefur verið á að pólitískar ákvarðanir taki oft ekki á þörfum framtíðarkynslóða, svo sem á sviði mennta- og velferðarmála. Einnig er bent á mikilvæga málefnaflokka sem þarfnast beinskeyttari athygli í dag til langtímastefnumótunar. Öll samfélög glíma við áskoranir, m.a. á eftirfarandi sviðum:

Fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarstarfsemi og stefnumörkun hennar

Lýðfræðilegar breytingar og innflytjendamál

Innra og ytra öryggi

Framtíð vinnumarkaða, menntunar- og hæfnisþarfa

Velferð og þróun velferðarhagkerfa

Erfðir og þróun á sviði læknisfræða

Kolefnishlutleysi og loftslagsstefna

Við getum undirbúið okkur fyrir og haft áhrif á mögulegar framtíðir. Verst er að vera í tómarúmi og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga þegar kemur að ákvörðunum um framangreind atriði.

Kjarni langtímastefnu er að viðurkenna getu okkar til að móta framtíðina með tilliti til þarfa framtíðarkynslóða. Lönd eins og Finnland, Singapúr, Nýja-Sjáland, Holland og Wales hafa sterkar grunnstoðir til að byggja upp stefnu sem tekur mið af kynslóðum og langtímastefnu. Tökum mark á reynslu þeirra og þekkingu þegar kemur að því að greina framtíðarhorfur. Til þess þarf skilning og viðurkenningu á möguleikum framtíðarfræða, bæði hjá stjórnsýslunni og eins meðal menntastofnana.

Á framangreindum fundi Sameinuðu þjóðanna skuldbundu þjóðir heims sig til að stuðla sameiginlega að sjálfbærari framtíð, auknum jöfnuði og að viðurkenna réttindi framtíðarkynslóða. Einnig var samþykktur sögulegur samningur og yfirlýsing um framtíðarkynslóðir. Í þessari yfirlýsingu eru 32 loforð og aðgerðir sem miða að því að styrkja samþættingu hagsmuna kynslóða framtíðar. Dæmi um þessar reglur eru:

Nýting vísinda, gagna og tölfræði við að móta stefnu til framtíðar sem tryggi langtímahugsun og einnig að þróa og hrinda í framkvæmd sjálfbærum venjum og samhæfingu stofnana

Áhersla af hálfu stjórnsýslu á frekari framtíðarvitund og að verða hæfari til aðlögunar og viðbragðsfljótari til að nýta framtíðartækifæri

Styrking samfélaga til að takast á við þjóðlegar og alþjóðlegar kröfur, þar með talið að efla notkun aðferða framtíðarfræða við áhrifamat og áhættugreiningu

Mótun heildstæðrar nálgunar á öllum stjórnstigum við mat, þróun, framkvæmd og endurskoðun stefnu sem tryggja þarfir og hagsmuni framtíðarkynslóða

Ríkisstjórnir um allan heim skuldbundu sig til þátttöku með því að samþykkja samninginn og yfirlýsinguna á fundinum. Þetta eru mikilvæg fyrstu skref til árangurs. Til að tryggja framfarir er nauðsynlegt að meta hvort núverandi stjórnsýsla og viðleitni yfirvalda sé nægjanleg til að takast á við og ná þessum markmiðum.

Fróðlegt verður að fylgjast með nýrri ríkisstjórn, framtíðarnefnd Alþingis og Alþingi á næstunni þegar kemur að því að framfylgja mikilvægum málum. Verður viðleitnin á þá leið að feta í fótspor leiðandi þjóða með því að auka vitund og vitneskju um framtíðarhorfur, eða verða mál leyst með viðhorfinu „þetta reddast“ og þannig kastað á glæ árangri vel undirbúinnar stjórnsýslu? Við þurfum að viðurkenna réttindi framtíðarkynslóða og þannig temja okkur að meta hvort ákvarðanir dagsins í dag muni standast tímans tönn. Þar nýtast aðferðir framtíðarfræðanna einstaklega vel.

Karl er forstjóri Framtíðarseturs Íslands og Sævar er rekstrarráðgjafi KPMG.

Höf.: Karl Guðmundur Friðriksson, Sævar Kristinsson