Handknattleikskonan Lovísa Thompson hefur skrifað undir nýjan samning við Íslandsmeistara Vals sem gildir til næstu rúmra tveggja ára, til sumarsins 2027. Lovísa, sem er 25 ára vinstri skytta, leikstjórnandi og öflugur varnarmaður, hefur leikið með Val frá árinu 2018. Hún kom þá frá uppeldisfélagi sínu Gróttu og lék síðar að láni frá Val hjá Ringköbing í Danmörku og Tertnes í Noregi. Hún hefur leikið vel á tímabilinu eftir erfið meiðsli.
Millie Bright, fyrirliði Englandsmeistara Chelsea, hefur skrifað undir nýjan samning sem gildir til sumarsins 2026, með möguleika á því að framlengja um eitt ár til viðbótar. Bright, sem er 31 árs, hefur verið hjá Chelsea frá árinu 2014 og er sá leikmaður liðsins sem hefur verið lengst hjá félaginu.
Varnarmaðurinn Nathan Aké verður sennilega ekki meira á tímabilinu með Englandsmeisturum Manchester City í knattspyrnu. Frá þessu sagði Pep Guardiola knattspyrnustjóri liðsins á blaðamannafundi í gær. Aké fór meiddur af velli í bikarsigri City á Plymouth Argyle í byrjun mánaðar en að sögn Guardiola verður hann frá í tíu til ellefu vikur.
Kylfingarnir Andrea Bergsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir náðu flottum árangri á Sun-mótinu á Sunshine-mótaröðinni í Suður-Afríku. Komust þær báðar í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi en alls voru leiknir þrír hringir. Andrea hafnaði í 14. sæti á fimm höggum yfir pari. Guðrún varð í 27. sæti á níu höggum yfir pari en þær luku leik í gær.
Enski knattspyrnumaðurinn Kobbie Mainoo er reiðubúinn að yfirgefa Manchester United. Ætlar hann ekki að framlengja samning sinn við félagið en tvö ár eru eftir af núgildandi samningi miðjumannsins. Hinn 19 ára gamli Mainoo er metinn á 70 milljónir punda hjá United en hann var í stóru hlutverki með enska landsliðinu á EM á síðasta ári. Samkvæmt The Guardian er hann spenntur fyrir því að spila utan Englands.