Árásir Íbúi í úthverfi borgarinnar Ódessa í Úkraínu skoðar skemmdir á húsi sínu eftir loftárásir Rússa í vikunni.
Árásir Íbúi í úthverfi borgarinnar Ódessa í Úkraínu skoðar skemmdir á húsi sínu eftir loftárásir Rússa í vikunni. — AFP/Oleksandr Gimanov
Forseti Úkraínu ítrekaði í gær ákall um að samið yrði um hlé á loftárásum á mikilvæga innviði í Úkraínu eftir að Rússar gerðu umfangsmikla flugskeyta- og drónaárás á orkuinnviði í Úkraínu í gærmorgun

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Forseti Úkraínu ítrekaði í gær ákall um að samið yrði um hlé á loftárásum á mikilvæga innviði í Úkraínu eftir að Rússar gerðu umfangsmikla flugskeyta- og drónaárás á orkuinnviði í Úkraínu í gærmorgun.

Volodmír Selenskí forseti Úkraínu sagði í færstu á samfélagsmiðlum að fyrsta skrefið í átt að varanlegum friði væri að stöðva loftárásir og sjóárásir bæði Rússa og Úkraínumanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist í ljósi loftárása Rússa í gær vera að íhuga nýjar viðskiptaþvinganir og tolla gagnvart Rússum til að knýja þá til að ganga til samninga um frið í Úkraínu.

„Til Rússlands og Úkraínu, setjist að samningaborðinu strax, áður en það verður of seint. Þakka ykkur fyrir!!!“ skrifaði Trump á samskiptavef sínum, Truth Social.

Á blaðamannafundi Trumps undir kvöld í gær sagði hann að kannski væri auðveldara að eiga við Rússa en Úkraínumenn í baráttunni um að binda enda á stríðið í Úkraínu. Segist hann treysta Vladimír Pútín Rússlandsforseta. „Ég trúi honum,“ sagði Trump, spurður hvort hann teldi Pútín vilja semja um frið.

Úkraínski flugherinn sagði að Rússar hefðu skotið að minnsta kosti 58 flugskeytum og beitt nærri 200 drónum í árásum á orkumannvirki um allt land. Herinn sagðist hafa í fyrsta skipti notað franskar Mirage-orrustuflugvélar, sem hann fékk í febrúar, til að verjast árásunum og 34 flugskeyti og 100 drónar hefðu verið skotin niður.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands staðfesti í gær að gerðar hefðu verið hnitmiðaðar árásir á orkumannvirki. Dmitrí Peskov, talsmaður Vladímírs Pútíns forseta Rússalands, sagði að ráðist hefði verið á mannvirki sem tengdust Úkraínuher.

Stjórnvöld í Kreml hafa áður vísað á bug ákalli Selenskís um að hætta loftárásum og útilokað tímabundið vopnahlé í Úkraínu. Erlend stuðningsríki Úkraínu hafa hins vegar lýst stuðningi við slíkt vopnahlé og í gær tók Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti, sem átti í vikunni fund með Selenskí, undir þær kröfur ef það yrði til að byggja upp traust milli aðila.

Ákveðið var í vikunni að úkraínskir og bandarískir embættismenn muni eiga fund í Sádi-Arabíu næsta þriðjudag til að ræða um leiðir til að binda enda á átökin. Selenskí mun fara til Sádi-Arabíu á mánudag til viðræðna við Mohammed bin Salman krónprins.

Steve Witkoff, sendimaður Bandaríkjastjórnar, sagðist myndu ræða við úkraínska samningamenn um „upphafshlé“ á átökunum og grundvöll lengra vopnahlés.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson