Hilmar Fjeldsted Lúthersson fæddist 26. ágúst 1938. Hann lést 20. febrúar 2025.
Útför hans fór fram 7. mars 2025.
Í dag kveðjum vin minn Hilmar og á þessari stundu þá er það fyrst og fremst þakklæti fyrir allar samverustundirnar. Hvar hófust þessi kynni fyrir alvöru? Hallærisplanið var sá staður þar sem mótorhjólamenn komu saman, skoðuðu nýjustu hjólin og spjölluðu um sameiginlegt áhugamál. Þar talaði ég fyrst við Hilmar sem þangað var mættur á ný uppgerðum Triumph sem leit út eins og nýr. Að sjálfsögðu hafði ég heyrt um þennan öðling, Snigil númer 1, sem var og margfaldur Íslandsmeistari á kvartmílunni. Þetta varð langt spjall og að lokum bauð Hilmar mér heim til sín og Kollu eiginkonu sinnar í Kópavoginn. Heimili þeirra hjóna varð frá þeirri stundu sá staður sem ég heimsótti mjög oft, í Kópavogi, Selfossi eða Hafnarfirði og ekki má gleyma sumarbústaðnum. Hvort sem setið var við eldhúsborðið eftir að Kolla bar á borð eitthvert góðgæti eða í bílskúrnum þar sem nær undartekningarlaust var mótorhjól í uppgerð og að sjálfsögðu var það breskt, þá var spjallað um mótorhjól. Frá þeirri stundu notaði ég setninguna „Breskt er best“.
Hilmar var meira en bara mótorhjólamaður, hann var fagmaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, uppgerð mótorhjóla eða pípulagnir, það var í raun upplifun að horfa á Hilmar vinna þessi verk sín. Frá fyrstu stundu var hann alltaf tilbúin að fræða eða aðstoða og á ég honum mjög margt að þakka. Hann varð valdur að því að ég reyndi að feta í fótspor hans í uppgerð mótorhjóla, en hann var meistarinn, ég lærlingur. Hilmar gaf mér viðurnefnið Bruni og ég hef notað þá nafnbót með stolti. Nokkrar utanlandsferðir fórum við saman til Mekka mótorhjólanna (Bretland), þar sem við heimsóttum mótorhjólasöfn sem og sýningar. Þarna var Hilmar á heimavelli og þó enskukunnátta væri ekki mikil þá bjargaði Hilmar sér alltaf þegar versla þurfti. Í fyrstu Bretlandsferðinni okkar voru við fimm saman á fimm manna bíl og það hefði ekki komist ein lítil nál inní bílinn með okkur alla og „smávegis“ af auka- og varahlutum. Nokkrar ferðir fórum við saman innanlands á mótorhjólum og ein þeirra kemur uppí hugann: Ferð í Þykkvabæ, vegurinn þangað er bara þannig að stundum gleymist hámarkshraði, ég hjóla „rólega“ fram úr Hilmari sem er þarna á Kawsaki GPZ og það sést greinilega á augum hans, að hann trúir því ekki að Harley Davidson-mótorhjól sé að taka fram úr japönsku ofurhjóli! Árið 2001 sagði ég Hilmari símleiðis að ég væri búin að kaupa Harley! Það kom smá þögn en síðan sagði vinur minn: „Óli minn, ertu þá hættur að hjóla?“ Öll símtöl frá honum byrjuðu eins: „Sæll, gamli hérna.“ Hann spurði alltaf um líðan fjölskyldunnar fyrst áður en við fórum að ræða annað.
Það eru eflaust ekki margir mótorhjólamenn/konur sem ekki hafa heyrt um Timerinn og þeir sem ekki fengu að kynnast honum persónulega hafa farið á mis við mikið. En minning hans lifir, hvíl þú í friði kæri vinur.
Ég votta Kolbrúnu og fjölskyldunni allri innilega samúð.
Ólafur R. Magnússon, (Óli Bruni).
Hvernig var heiðin? Var þoka? Er kominn hiti á ofnana hjá þér? Slíkar spurningar fékk ég iðulega frá Hilmari. Umhyggja fyrir öðrum var honum svo eðlislæg. Mikill mannvinur. Hugsaði vel um samborgara sína. Hann tók að sér umönnun æskuvina sinna sem voru einstæðingar. Hann droppaði inn til kunningja eingöngu til að vita hvernig þeim farnaðist í daglegu amstri. Bóngóður var hann og hjálpsamur við samferðamenn sína. Það var ósjaldan sem hann sinnti pípulögnum hjá nágrönnum sínum í sumarbústaðalandinu við Meðalfellsvatn. Meira að segja nú nýverið þegar Hilmar var orðinn veikur, hringdu kunningjar í hann, beiðni um hjálp. Hilmar var ötull og vinnusamur. Oftar en ekki sinnti hann áhugamálum sínum í bílskúrnum, ástríðunni í lífinu, mótorhjólunum. Hilmar var ljúfur maður, glettinn og hafði þægilega nærveru. Ég var svo lánsöm að kynnast honum fyrir margt löngu, þegar ég vann með eiginkonu hans henni Kollu minni. Ég dáðist mikið að þeim hjónum og skil vel að samband þeirra og hjónaband varði í 65 ár. Samheldni þeirra, umhyggja, virðing og kærleikur var þeirra sameiginlega veganesti til lífsins. Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum í lífi þeirra hjóna. Veikindi og harmur hafa bankað á dyrnar oftar en einu sinni. Hilmar kaus að velja sitt lífsmunstur sem einkenndist af æðruleysi. Ég kveð Hilmar með þakklæti. Mér finnst það vera forréttindi, heiður og lærdómsríkt að hafa kynnst hans lífsviðhorfum.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Elsku Kolla mín og fjölskylda. Hjartans samúðarkveðjur. Söknuður ykkar er mikill og sár. En minning um yndislegan mann lifir og yljar.
Sigrún Ásgeirsdóttir.
Það var þungbær stund þegar félagsmönnum í Bifhjólasamtökum lýðveldisins, Sniglum, bárust þær fregnir að Hilmar Lúthersson, Snigill númer 1, væri látinn.
Þegar Bifhjólasamtök lýðveldisins voru stofnuð kom Hilmar að stofnuninni ásamt öðrum frumkvöðlum en hann var langelstur í þeim hópi. Í virðingarskyni úthlutuðu félagar hans honum númerinu 1. Einnig er talið æskilegt að Sniglar hafi eitthvert viðurnefni. Við hæfi þótti að Hilmar fengi viðurnefnið „Old Timer“ vegna þess að í augum ungu stofnendanna var hann svo gamall. Með tímanum breyttist það í „Timer-inn“ og nú þekkja flestir innan samtakanna Hilmar undir því viðurnefni. Þegar hann fékk Old Timer-nafnbótina hafði hann þó meiri áhuga á að komast sem hraðast heldur en að gera upp gömul hjól, enda var hann Íslandsmeistari í kvartmílu árin 1984 og 1985.
Þegar Hilmar var hvað virkastur í mótorhjólaakstri var hann fyrirmynd annarra mótorhjólara. Hann var alltaf á hreinum og velútlítandi hjólum og fór varlega. Það litu allir upp til Hilmars.
Í kringum 1990 fór heilsa hans að gefa sig og eknum kílómetrunum á mótorhjóli fækkaði. Þá fjölgaði hins vegar stundunum í skúrnum. Í kringum 1988 fór hann að gera upp gömul mótorhjól og sennilega hefur enginn Íslendingur gert upp fleiri gömul mótorhjól en Hilmar en hann gerði upp tugi hjóla allt fram á dánardag. Mörg þeirra voru svo illa ryðguð og skemmd að fáir höfðu trú á að hægt væri að bjarga þeim. Það fór hins vegar svo að hann kláraði næstum því öll hjól sem hann byrjaði á og eru þau nú augnayndi eigenda sinna. Flest þessara hjóla seldi hann til safnara og á söfn, aðallega til að geta fjármagnað næsta verkefni.
Á upphafsárum Snigla var Hilmar duglegur að taka myndir og segja þær nú ómetanlega sögu Snigla. Það hefur hins vegar oft verið gantast með það að hann sjálfur sé aldrei með á myndunum. Þekktust er sennilega myndin sem hann tók á fimmtugsafmælinu sínu þegar hópur Snigla kom í skúrinn til hans. Á myndinni eru allir nema afmælisbarnið.
Árið 1985 fóru Sniglar í hringferð um landið á 12 dögum. Hilmar fór ekki með en gegndi hlutverki upplýsingafulltrúa fyrir þá Snigla sem ekki fóru. Þetta var fyrir tíma farsíma og því var hringt í Hilmar á hverju kvöldi og honum gefin skýrsla eftir bras og ferð dagsins. Hann kom sögunni svo áfram til annarra, m.a. með því að fara niður á „Hallærisplan“, hitta þar aðra Snigla og segja þeim ferðasöguna.
Hilmar hafði lengi barist við heilsubrest og átti misjafna daga en alltaf komst hann aftur í skúrinn til að dunda sér í mótorhjólunum sínum. Mótorhjólaferðunum fækkaði eftir því sem árunum fjölgaði, en alltaf var hugurinn hjá mótorhjólunum fram á síðasta dag.
Í rúmlega 40 ára sögu Snigla var hann alltaf virkur félagi, tók þátt í félagsstarfinu með mikilli ánægju, mætti á viðburði, í fréttaviðtöl eða sýndi mótorhjólin sín á sýningum á vegum Snigla og annarra.
Við kveðjum núna einstakan félaga og fágætt eintak af manni.
Fyrir hönd Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla,
Jóhanna (Jokka), Snigill nr. 2459.