Fjöruverðlaun Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Rán Flygenring og Ingunn Ásdísardóttir tóku við verðlaunum í Höfða.
Fjöruverðlaun Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Rán Flygenring og Ingunn Ásdísardóttir tóku við verðlaunum í Höfða. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Ingunn Ásdísardóttir og Rán Flygenring hlutu Fjöruverðlaunin 2025, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi, sem voru afhent í 19. sinn í Höfða á fimmtudag. Birgitta Björg fékk verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir…

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Ingunn Ásdísardóttir og Rán Flygenring hlutu Fjöruverðlaunin 2025, bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi, sem voru afhent í 19. sinn í Höfða á fimmtudag. Birgitta Björg fékk verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Moldin heit; Rán í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bókina Tjörnin, og Ingunn í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir í nýju ljósi.

Ánægjulegt að tilraunamennskan fái meðbyr

„Ég átti ekki von á þessu. Og heldur ekki tilnefningunni þegar hún barst. Satt best að segja var ég búin að ákveða að einhver hinna myndi taka þetta. Ég las t.d. Eldri konur Evu Rúnar og fannst hún alveg æðisleg. Þetta er stórkostlegur heiður og mikil viðurkenning á mér, og því verki sem ég skrifaði. Og það sem mér finnst sérstaklega gott er að fá viðurkenningu fyrir tilraunamennsku. Ég tók marga sénsa í þessu verki og það er ánægjulegt að sjá að tilraunamennska fái svona mikinn meðbyr.

Viðbrögðin við verkinu hafa verið góð og ég fengið góða og gagnrýna dóma sem munu nýtast mér við næstu verk,“ segir Birgitta Björg Guðmarsdóttir rithöfundur en auk hennar voru tilnefndar þær Ásdís Óladóttir fyrir Rifsberjadalinn og Eva Rún Snorradóttir fyrir Eldri konur. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Hrynjandi ljóðræns textans knýr framvindu áfram þar sem meginstef eru ást, missir og innri leit. Form texta og litanotkun ljær frásögninni dýpt og er lesanda gefið rými til að skynja og túlka atburðarás sem lýkst upp eftir því sem líður á og rís hæst í sólódansi aðalpersónunnar. Birgitta Björg slær hér nýjan og forvitnilegan bókmenntatón.“

Aðspurð segist Birgitta Björg telja verðlaun sem þessi eiga enn erindi í dag. „Við sjáum og höfum séð skýrt hvernig bakslög koma hratt á eftir framförum, og þá er mikilvægt að svona viðurkenningum sé haldið til haga, þannig að þau séu enn til staðar ef í harðbakkann slær,“ segir Birgitta Björg, sem vinnur nú af fullum krafti að næstu bók.

Ekki bara kjaftstopp

„Ég er mjög glöð yfir að fá þessa viðurkenningu því hún skiptir miklu máli, ekki bara vegna þess að þetta eru bókmenntaverðlaun kvenna og kvára heldur vegna þess að í dómnefnd er viðurkennt fræðafólk,“ segir Ingunn Ásdísardóttir, doktor í norrænni trú, en auk hennar voru tilnefndar Erla Hulda Halldórsdóttir fyrir Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 og Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir fyrir Dunu. Saga kvikmyndagerðarkonu.

Í umsögn dómnefndar segir að Ingunn dragi upp áhugaverða mynd af jötnum og mögulega ólíku hlutverki þeirra en mótast hefur hingað til í vitund fólks. „Með því að rannsaka sjálfstætt hlutverk jötna í öðrum heimildum en Eddu Snorra Sturlusonar virðist sem jötnar hafi gegnt mikilvægara hlutverki; verið aldnir og fróðir (hundvísir) en ekki ófreskjur. Bókin dregur fram hve lifandi vísindi þjóðararfurinn er og færir bæði fróðleiksfúsum aðgengilegt efni og leggur til málanna í rannsóknarheimi norrænnar goðafræði,“ segir í umsögninni.

„Þessi verðlaun, sem og aðrar tilnefningar og viðurkenningar sem bókin hefur hlotið, lyfta bæði hjarta og geði og fá mann til að trúa að maður hafi unnið þokkalegt verk en viðtökur hafa verið afar jákvæðar. Þá held ég að þessi verðlaun séu mjög mikilvæg, ekki síst til að vera til fyrirmyndar varðandi jafnan rétt kvenna og karla og sýna þannig skynsemi í þessari brjáluðu tilveru þegar við horfum upp á svona mikla karlrembu í heimsmálum. Maður er ekki bara kjaftstopp heldur sprettur út á manni svitinn,“ segir Ingunn.

Föndurkassamerkimiðar

„Verðlaunin koma ótrúlega ánægjulega á óvart. Ég átti ekki von á þeim frekar en ég átti von á því að Tjörninni yrði tekið jafn vel af lesendum eins og raun ber vitni. Ég hélt í sannleika sagt að hún myndi læða sér hægt og hljótt inn í bókabúðarhillurnar, en svo eru greinilega einhverjir tjarnartöfrar þarna sem lesendur tengja við. Annars er þetta í fyrsta skipti sem ég er tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og þess vegna extra gaman að hreppa verðlaunin,“ segir Rán Flygenring, rithöfundur og teiknari, en aðrar sem tilnefndar voru í flokki barna- og unglingabókmennta voru Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir Fíusól í logandi vandræðum og Sigrún Eldjárn fyrir bókina Sigrún í safninu.

Bók Ránar fjallar meðal annars um leikgleði, vináttu og málamiðlanir en í umsögn dómnefndar segir: „Garður einn er uppáhaldsleiksvæði tveggja vina og dag einn taka þau eftir dæld í grasinu og þá hefst ævintýrið. Myndirnar kallast vel á við textann en líka íslenskan nútíma og á afslappaðan hátt er ýmsum áhugaverðum orðum bætt við orðaforða ungra lesenda, til dæmis krapagildra og krokketbogi. Tjörnin er fallegt og fyndið listaverk en líka skemmtileg og fræðandi saga.“

Rán segist finna það sjálf á eigin skinni hversu mikilvægt það er að halda á loft verkum kvenna og kvára. „Það skiptir ennþá máli að hampa verkum kvenna og kvára, það finn ég sérstaklega verandi með annan fótinn á hinum íhaldssama þýska bókamarkaði. Svo er það að vera kona sem gerir barnabækur með teikningum eitthvað sem fær stundum á sig smá föndurkassamerkimiða, en það er óðum að breytast og eiga svona verðlaun þátt í því,“ segir Rán.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir