Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ísland trónir í efsta sæti á alþjóðavettvangi yfir mesta kynjajafnréttið og hefur gert um árabil.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir

Nú eru 30 ár frá undirritun Pekingsáttmálans, tímamótasáttmála í réttindabaráttu kvenna um allan heim. Því miður hefur lítið orðið úr efndum sumra greina sáttmálans og víða hefur orðið bakslag í réttindum kvenna. Í sáttmálanum er m.a. fjallað um að uppræta ofbeldi gegn konum, sem er enn ein stærsta ógnin gagnvart mannréttindum kvenna. Á tíu mínútna fresti í heiminum öllum er kona myrt af nákomnum ættingja sínum.

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Ísland trónir í efsta sæti á alþjóðavettvangi yfir mesta kynjajafnréttið og hefur gert um árabil. En þrátt fyrir þann frábæra árangur stöndum við samhliða systrum okkar um allan heim þegar kemur að kynbundnu ofbeldi.

Aðgerðir gegn ofbeldi

Á Íslandi höfum við einsett okkur að fyrirbyggja og berjast gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis gegn konum. Ég hef ýtt úr vör vinnu til að auka öryggi kvenna og koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi.

Stór þáttur þessarar vinnu snýr að fjölgun lögreglufólks, því fáliðuð löggæsla dregur úr öryggi allra, ekki síst kvenna. Þá hef ég sett af stað heildstæða skoðun á löggjöf og framkvæmd um nálgunarbann og umsáturseinelti, þar á meðal notkun ökklabanda, sérstaklega með tilliti til brota gegn nálgunarbanni, en nálgunarbann er nátengt þeim veruleika kvenna sem búið hafa við ofbeldi á eigin heimili og sæta enn ógnununum og áreiti eftir að sambúð við ofbeldismann lýkur. Ofsóknir gagnvart fólki teljast ekki mannréttindi; slík röksemdafærsla mun ekki líðast á minni vakt.

Ég vil jafnframt nefna umfangsmiklar aðgerðir sem tengjast mansali, landsáætlun um framkvæmd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi ásamt átaksverkefnum í vitundarvakningu sem þessum málum tengjast.

Góður árangur byggir á vinnu

Íslendingar hafa verið í fararbroddi í jafnréttismálum á heimsvísu um árabil. Góður árangur í jafnréttismálum er ekki sjálfgefinn, hann krefst stöðugrar vinnu. Árangur Íslendinga byggir á markvissum aðgerðum. Ríkisstjórnin er samstiga um að vinna gegn ofbeldi. Við viljum draga úr ofbeldi með forvörnum og fræðslu og bregðast við ofbeldi með trúverðugum og markvissum hætti. Ofbeldi á ekki heima í samfélagi okkar. Um þetta eigum við öll að vera sammála. Að lokum óska ég landsmönnum öllum til hamingju með daginn. Ræðum saman, skemmtum okkur og fögnum þeim árangri sem við höfum náð. Við stefnum í eina átt og hún er áfram.

Höfundur er dómsmálaráðherra.

Höf.: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir