Þýðingarrétturinn á margverðlaunuðum þríleik Hallgríms Helgasonar, Sextíu kíló af sólskini, Sextíu kíló af kjaftshöggum og Sextíu kíló af sunnudögum, var á dögunum seldur á einu bretti til Bandaríkjanna. Þetta segir í tilkynningu frá réttindaskrifstofunni RLA. Það er bandaríski útgefandinn W.W. Norton & Company sem mun gefa út bækurnar vestanhafs. „Ég er nú bara mest hissa á því að þeim hafi tekist þetta, konunum hjá RLA. Ameríka er ekki auðveld,“ er haft eftir Hallgrími og Stella Soffía Jóhannesdóttir hjá RLA tekur í sama streng en segir fleiri útgefendur þó hafa verið að skoða bókina. Þríleikurinn hefur verið seldur til sex annarra landa.