Að störfum á rannsóknarstofunni. Þórunn leiðbeinir ungri rannsóknarkonu, Sigurborgu Kristmannsdóttur líffræðingi, á þessari ódagsettu mynd.
Að störfum á rannsóknarstofunni. Þórunn leiðbeinir ungri rannsóknarkonu, Sigurborgu Kristmannsdóttur líffræðingi, á þessari ódagsettu mynd. — Ljósmynd/Hafró
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var vel til fundið að nýja hafrannsóknaskipið fengi nafn í höfuðið á Þórunni Þórðardóttur sjávarlíffræðingi. Þórunn átti merkilegt lífshlaup og varð hún fyrst íslenskra kvenna til að læra hafrannsóknir, en hjá Hafrannsóknastofnuninni vann hún…

Það var vel til fundið að nýja hafrannsóknaskipið fengi nafn í höfuðið á Þórunni Þórðardóttur sjávarlíffræðingi.

Þórunn átti merkilegt lífshlaup og varð hún fyrst íslenskra kvenna til að læra hafrannsóknir, en hjá Hafrannsóknastofnuninni vann hún sem sérfræðingur á sviði svifþörunga og þótti frumkvöðull á sínu fræðasviði.

Saga Þórunnar hófst 15. maí 1925 á Einarsstöðum á Grímsstaðaholti í Reykjavík, skammt frá þeim stað þar sem raunvísindadeildir Háskóla Íslands eru í dag með byggingar sínar. Þórunn ólst upp í Reykjavík og stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík á stríðsárunum. Þaðan útskrifaðist hún 1944 og fór í framhaldinu til Lundarháskóla í Svíþjóð og Blindren í Ósló. Árið 1955 lauk Þórunn mag.scient.-gráðu í Ósló sem sjávarlíffræðingur með svifþörunga sem sérgrein, og ári síðar var hún komin til starfa hjá Hafrannsóknastofnun, sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands – fiskideild.

Fræðakona í karlaveldi

Á degi kvenna í vísindum 2021 birti Hafrannsóknastofnun ítarlega grein um feril Þórunnar og kemur þar m.a. fram að hún „þurfti oftar en ekki á allri sinni þolinmæði og umburðarlyndi að halda til þess að standa á sínu í því karlaveldi sem þá ríkti á þessu fræðasviði“. Allan sinn starfsaldur vann Þórunn við sitt sérsvið, lengst af sem deildarstjóri á þörungadeild.

Eitt helsta vísindaafrek Þórunnar sneri að rannsóknum og mati á heildar-frumframleiðni svifþörunga á miðunum umhverfis Ísland, en það eru þessir svifþörungar sem mynda undirstöðuna í fæðukeðju hafsins og þar með undirstöðu íslensks sjávarútvegs. Þórunn var t.d. með fyrstu sjávarlíffræðingum til að nota svokallaða geislakolsaðferð til að meta framleiðni í sjónum en Þórunn aðlagaði þá mæliaðferð íslenskum aðstæðum og eru mælingar hennar í fullu gildi enn þann dag í dag.

Eftir Þórunni liggja fjölmargar greinar um svifgróðurinn í hafinu sem birtust bæði í íslenskum og erlendum ritum.

Í greininni á vef Hafrannsóknastofnunar segir enn fremur að Þórunn hafi verið afar vandvirk vísindakona og haft góða yfirsýn yfir sitt fræðasvið. „Hún var virk í alþjóðlegu starfi og skildi betur en flestir aðrir þörfina á að efla þekkingu á undirstöðum lífsins í sjónum. Hún var vakin og sofin yfir rannsóknunum og þegar hún fór heim eftir langan vinnudag á stofnuninni tók hún oftar en ekki með sér bunka af gögnum og fræðigreinum til að líta í á kvöldin.“

Smitaði aðra af áhuga á lífríki sjávar

Þórunni var líka lagið að kveikja áhuga fólks á hafrannsóknum og segir í grein Hafrannsóknastofnunar að ástríða hennar hafi verið smitandi og haft jákvæð áhrif bæði á samstarfsfólk hennar og nemendur. Þótti Þórunn mjög skemmtilegur félagi og góður kennari, og fór ekki á milli mála að hún bar mikla umhyggju fyrir samstarfsfólki sínu. Hún þótti ekki bara góður vísindamaður heldur líka búa yfir sterkum persónuleika og mikilli réttlætiskennd.

Þórunn var samferða Hafrannsóknastofnun í gegnum lykiltímabil í sögu stofnunarinnar, en þegar hún kom þar fyrst til starfa bjó Hafró við þröngan húsakost en til að gera rannsóknir þurftu starfsmenn stofnunarinnar að fá að láni varðskipið Maríu Júlíu þegar tækifæri gafst og þótti það ekki lítil áskorun að fara í sýnatökuferðir á því skipi. Átti Þórunn stóran þátt í að efla stofnunina m.a. með því að laða til sín ungt fólk sem hún leiðbeindi í námi.

Lýðveldissjóður Alþingis veitti Þórunni heiðursviðurkenningu 17. júní 1997 fyrir framlag hennar til rannsókna í hafinu við Ísland.

Þórunn lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut í desember 2007. ai@mbl.is

„Setjið mig í röðina á eftir honum“

Til eru ófáar sögur sem lýsa vel persónuleika Þórunnar Þórðardóttur og fer ekki á milli mála að hún hafði bein í nefinu.

Ein sagan segir frá því þegar Þórunn kemur fyrst til starfa hjá forvera Hafrannsóknastofnunar, og voru allir aðrir sérfræðingar stofnunarinnar karlar. Tvær konur störfuðu hjá stofnuninni og önnuðust þær ritarastörf og símavörslu og höfðu einnig það hlutverk að tryggja að alltaf væri kaffi á könnunni.

Fyrsta dag Þórunnar á nýjum vinnustað gefa konurnar tvær sig á tal við hana, bjóða Þórunni velkomna og útskýra fyrir henni hvað þær fáist við. Þær segjast skiptast á um að sjá um kaffið, og spyrja Þórunni hvort hún vilji ekki vera með þeim í því.

Eftir að hafa hugsað sig stuttlega um svaraði Þórunn. „Alveg sjálfsagt, setjið mig í röðina á eftir honum,“ sagði hún og nefndi einn karlkyns kollega sinna.