Þegar Gene Hackman var ungur maður í leiklistarskóla kusu samnemendur hans hann og vin hans Dustin Hoffman þá nemendur sem ólíklegastir væru til að ná árangri. Nokkrum árum seinna gekk kennari úr leiklistarskólanum að Hackman á götu og hrópaði: „Hackman, ég sagði þér að það myndi aldrei verða neitt úr þér!“ Á þessum tíma deildi Hackman íbúð með Hoffman og Robert Duvall. Allir áttu þeir eftir að vinna til virtra verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlauna.
Hackman lést nýlega 95 ára gamall. Dauði hans hefur verið fréttaefni vegna þess hve dularfullar aðstæður voru, en eiginkona hans fannst látin um leið og hann og sömuleiðis einn hunda þeirra. Hinn 95 ára Hackman var orðinn afar heilsutæpur og máttfarinn. Líklegast þykir að hann hafi fengið hjartaáfall og eiginkona hans hafi verið í leit að lyfjum hans þegar hún varð fyrir einhvers konar slysi sem leiddi hana til dauða. Þau höfðu verið látin í allnokkra daga áður en þau fundust.
Ferill Hackmans spannaði fjóra áratugi þar sem hann vann tvenn Óskarsverðlaun, tvenn Bafta-verðlaun og fern Golden Golbe-verðlaun. Hann naut gríðarlegrar virðingar meðal kvikmyndaunnenda og samstarfsmanna. „Hann er ófær um að skila slæmri frammistöðu. Allir leikstjórar eru með lista með nöfnum leikara sem þeir vilja vinna með og ég er sannfærður um að Gene er á öllum þeirra,“ sagði leikstjórinn Alan Parker sem leikstýrði Hackman í Mississippi Burning.
Erfið æska
Á yfirborðinu var Hackman hrjúfur maður og átti stundum erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu. Hann gaf sig ekki að öllum en vinir hans hafa lýst honum sem hlýjum og skemmtilegum manni.
Æska hans var erfið. Þegar Hackman var 13 ára gamall yfirgaf faðir hans fjölskylduna mjög skyndilega án þess að ræða við börn sín. „Ég var úti að leika við aðra stráka og hann keyrði fram hjá og veifaði,“ sagði Hackman áratugum seinna í einu af þeim fáu viðtölum sem hann veitti á ferlinum, og klökknaði þegar hann minntist þessa atburðar. Hackman flutti ásamt móður sinni og bróður til ömmu sinnar. Þau bjuggu við heldur bág kjör og Hackman eyddi eitt sinn nótt í fangelsi fyrir að hafa stolið sælgæti og gosdrykk. Örlög móður hans urðu dapurleg en hún lést í bruna árið 1962, hún var drukkin, var að reykja og kveikti óvart í rúmdýnu sinni.
Hackman var tíu ára þegar hann ákvað að verða leikari. Hann gekk í sjóherinn 16 ára gamall en endaði í leiklistarskóla og fékk vinnu í leikhúsum og sjónvarpi. Hann var 34 ára þegar hann fékk fyrsta alvöru kvikmyndahlutverk sitt og ekki löngu seinna fékk hann aukahlutverk í Bonnie and Clyde og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna. Þar með hófst farsæll kvikmyndaferill þar sem hann lék oft reiða og bitra karlmenn. Hann fór eigin leiðir í leik og tók leiðsögn illa og sagði ástæðuna þá að sér væri illa við að lúta valdi. Hann bjó yfir frábærri tækni og hæfileikaríkir leikstjórar áttuðu sig á því að hann vissi alltaf hvað hann var að gera. Handritshöfundar setja oft leiðbeiningar í handrit sín um það hvernig leikari eigi að bregðast við í einstökum atriðum í verkinu. Hackman var frægur fyrir að strika yfir allar slíkar athugasemdir.
Kröfuharður fagmaður
Hann hlaut Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á lögreglumanninum harðskeytta Jimmy Doyle (Popeye) í The French Connection árið 1971. Fimmtán árum seinna sagði hann í viðtali að fólk sem sæi hann á götu kallaði hann ennþá Popeye. Seinni Óskarsverðlaunin fékk hann árið 1992 fyrir leik í Unforgiven þar sem hann lék grimman lögreglustjóra.
Hann var fagmaður fram í fingurgóma og samdi illa við fólk sem lagði sig ekki fram í vinnu sinni. Þess vegna fannst sumum erfitt að vinna með honum. Hann var úrillur í garð Johns Travolta þegar þeir léku saman í myndinni Get Shorty. Hackman kunni texta sinn fullkomlega en það sama varð ekki sagt um Travolta og það skapaði spennu í samskiptum þeirra. Honum samdi einkar illa við leikstjóra The Royal Tenenbaums, Wes Anderson, og það svo mjög að leikarinn Bill Murray var fenginn til að stilla til friðar milli þeirra.
Hann lék í mörgum frábærum myndum. Auk Bonnie and Clyde, The French Connection og The Unforgiven má nefna The Conversation, Hoosiers, Mississippi Burning og The Royal Tenenbaums. Eftirlætishlutverk hans var í myndinni Scarecrow með Al Pacino.
Hann sagðist sjálfur vildu hafa leikið fleiri gamanhlutverk og hafði mikla ánægju af að leika illmennið Lex Luthor í þremur Superman-kvikmyndum þar sem hann fór á kostum. Eitt þekktasta gamanhlutverk hans var í mynd Mels Brooks Young Frankenstein þar sem hann lék blindan mann og var stórfyndinn.
Rithöfundur, hönnuður og málari
Hann var listunnandi og málaði, hafði áhuga á amerískum fótbolta, stundaði kappakstur um tíma og skrifaði fimm skáldsögur. Hann hafði mikinn áhuga á arkitektúr, sinnti innanhúshönnun og hafði unun af að sjá um alls kyns endurnýjun á heimilum sínum.
Hann kvæntist tvisvar. Fyrri eiginkona hans var Faye Maltese og þau eignuðust þrjú börn en skildu eftir þriggja áratuga hjónaband. Hackman sagði sjálfur að leiklistin hefði kostað miklar fjarvistir frá fjölskyldunni og orðið til þess að samband hans og sonar hans varð stirt. Hann sást þó oft opinberlega með dætrum sínum tveimur.
Árið 1991 kvæntist hann píanóleikaranum Betsy Arakawa og þau bjuggu í Nýju-Mexíkó í einstaklega skemmtilega og sjarmerandi innréttuðu húsi sem Architecural Digest fjallaði um á sínum tíma og sjá má myndir af því á netsíðu tímaritsins. Hjónin kusu einveru og undu sér vel fjarri heimsins glaumi. Þrjátíu ára aldursmunur var á þeim en hjónabandið var einkar farsælt og vinir þeirra sögðu hana einkar umhyggjusama í garð eiginmanns sem varð æ heilsuveilli með árunum. Að læknisráði hætti Hackman að leika árið 2004 og var þá orðinn hjartaveill.
Hackman var demókrati sem komst á óvinalista Richards Nixons og var fjarska stoltur af því. Honum var ákaflega hlýtt til annars forseta, Ronalds Reagans þótt þeir deildu ekki stjórnmálaskoðunum.
„Ef þú ferð að líta á þig sem stjörnu þá hefurðu strax skert hæfileika þína til að túlka aðrar manneskjur,“ sagði hann eitt sinn. Heimurinn syrgir afburðaleikara sem aldrei sló feilnótu.